Enn eru stóru fiskarnir frá síðasta sumri að synda fyrir hugskotssjónum mínum og ég að velta mér upp úr mismunandi aðferðum til að ná þeim að landi, í netið og á pönnuna. Ég hef svo sem vitað það í mörg ár að auðveldasta leiðin til að fá fisk til að hætta sporðaköstum, já eða bara yfir höfuð til að hreyfa sig er að lyfta hausnum á honum í vatninu.
Ég man enn eftir þeirri samlíkingu sem stimplaði þetta inn í hausinn á mér. Tundurskeyti er rör með rassmótor. Ef maður lyftir rörinu að framan, þá heldur rassmótorinn áfram að ýta því áfram og upp úr vatninu. Nákvæmlega það sama á við um fiskinn, alveg þangað til hann fattar að honum er ekki ætlað að fljúga og þá hættir hann að hreyfa sporðinn. Með því að ná að lyfta hausi fiskins upp fyrir miðju hans, þá lyftist hann í vatnsbolnum, kemur upp að yfirborðinu og á endanum hættir hann að hreyfa sporðinn þannig að það er mun auðveldara að draga hann að landi.
Þetta er svona byrjenda tips, en ég stóðs ekki mátið að koma þessari tundurskeytasamlíkingu á framfæri eins og hún var útskýrð fyrir mér á sínum tíma.
Senda ábendingu