Í vestinu mínu leynist ýmislegt, þó ekki allt sem ég vildi óska mér, bara þannig að því sé haldið til haga. Hér áður fyrr var þar m.a. að finna gamalt filmubox sem ég notaði undir sígarettustubba, nú þarf ég þess ekki lengur, en í staðinn hefur komið lítið álbox undan sælgæti sem ég nota fyrir flugur sem hafa gefið upp andann.
Dauðadeildin
Hvort sem rekja má andlát flugunnar til lélegra hnýtinga, efnis eða jafnvel brotinna króka, þá getur verið forvitnilegt að tæma boxið á hnýtingarborðið í lok sumars og kryfja málið. Við fyrstu yfirferð sá ég strax að ákveðin tegund tinsel sem ég notaði í skott á Nobbler var t.d. ekki alveg að gera sig. Sjaldan séð jafn upplitað og í raun glært tinsel eftir eitt sumar eins og það sem hékk í druslum aftan í nokkrum örþreyttum Nobblerum. Svona lærir maður, tekur þá gallað efni frá eða nýtir þar sem lakk eða UV lím leggst yfir til varnar.
Áberandi mistök hjá mér í sumar voru viðvarandi og ég hef satt best að segja ekki tölu á því hve oft mér urðu þau á, en eitt er víst, ég vil meina að þau skýri þann mun á fjölda veiddra urriða sem raun var á milli mín og veiðifélaga míns.
Urriði tekur gjarnan flugur á sundi, oft nokkuð miklu hraðsundi og því þarf veiðimaðurinn að draga hratt inn í löngum togum eða mörgum styttri (e: strip). Það var helst það síðar nefnda sem mistókst oft hjá mér í sumar. Oftar en ekki kom það fyrir að ég glutraði línunni niður og flugan tók því ekki sundtökin með jöfnu bili, hægði á sér eða stoppaði alveg. Það að hún stoppaði var í sjálfu sér ekki alltaf til vansa, því þá rauk urriðinn gjarnan í hana. Vandamálið var eftirleikurinn sem reyndist mér stundum heldur erfiður, ég náði einfaldlega ekki að fálma eftir línunni í tæka tíð til að bregðast við tökunni og fiskinum gafst því tími til að hrækja út úr sér flugunni og láta sig hverfa.
Mér skilst að þetta sé meira eða minna spurning um sjálfsaga, ná að stimpla það inn í undirmeðvitundina að grípa strax um línuna eftir tog. Til að æfa þetta og þjálfa mismunandi hraðan inndrátt má nýta gamla flugulínu. Klippa u.þ.b. fimm metra af henni og hnýta saman með venjulegum skurðlæknahnút þannig að úr verði hringur. Næst er að finna sér stöðugt borð eða stól með rúnuðum fæti og bregða línunni undir og inn fyrir fótinn.
Staða handa þarfnast örlítilla skýringa, en mikilvægt er að halda um línuna með sömu hendi og viðkomandi notar á stöngina og draga inn með hinni. Best er að láta línuna koma inn á milli vísifingurs og þumals og fara út á milli litla- og baugfingurs þannig að út úr lófanum liggi lykkja af línu sem nemur tvöfaldri lengd þess inndráttar sem maður vill æfa. Takið nú á lykkjunni þar sem hún kemur inn í lófann og dragið inn eins og um hefðbundin inndrátt er að ræða. Mikilvægt er að halda hæfilega við línuna sem fer út úr lófanum á milli litla- og baugfingurs þannig að alltaf sé þokkalega strengt á línunni milli handar og borðfótar.
Þetta ætti maður að æfa án þess að gjóa augunum á línuna og því mæli ég eindregið með að setja einhverja góða veiðimynd á skjáinn og glápa á hana á meðan. Þegar svo skurðlæknahnúturinn rennur inn í lófann má gera ráð fyrir að högg komi á línuna sem má alveg túlka sem töku og reynir þá á að halda taktinum. Þeir sem vilja geta sett einn til tvö hnúta til viðbótar á línuna þannig að tökum fjölgi í hverjum hring, það er alltaf skemmtilegra að fá margar tökur.
Þeim sem hætt er við línubruna skal bent á að nota línusmokk á vísifingur, jafnvel líka á þann litla og baugfingur.
Til að teljast vera með fulla sjón á maður að geta lesið neðstu línuna á Snellen spjaldinu í 20 feta fjarlægð og þá er maður með 20/20 sjón. Það er ekkert óalgengt að með aldrinum dragi örlítið eða jafnvel töluvert úr þessum hæfileika eða eins og margur hefur látið út úr sér, það er alltaf að minnka letrið í Mogganum. Vegna þessa spjalds hafa þessi 20 fet orðið eins konar gullin tala í margra hugum.
Snellen
Þegar kemur að silungsveiðinni þá kemur oftar upp að 40 fet sé þessi gullna tala. Ekki hef ég hugmynd um hver kom fyrstur fram með þessa ályktun en margir frægir fluguveiðimenn hafa haldið henni á lofti í gegnum tíðina, s.s. Lefty Kreh, Lee Wulff og Mel Krieger. En hvað snýst þessi gullna tala eiginlega um? Þessir snillingar héldu 40 fetum hátt á lofti sem þeirri hámarks vegalengd sem vel flestir veiðimenn réðu með góðu móti við að setja fluguna niður á fyrirfram ákveðinn stað. Jafnframt væru 40 fetin rétt við mörk þess sem hið mannlega auga með 20/20 sjón gæti með góðu móti greint fisk sem héldi sig á innan við eins feta dýpi, sem ku vera kjörsvæði silungs sem er í uppitökum. Þar sem fet jafngildir 30,48 sm, þá erum við að tala um ríflega 12 metra.
Ástæðan fyrir því að ég fór að gúggla þetta er grein sem ég las nýverið frá virtum stangarframleiðanda, Leland Rod Co. þar sem greinarhöfundur hélt því fram í fullri hreinskilni að allt of margir silungsveiðimenn létu plata sig til að kaupa s.k. performance stangir sem eru fyrst og fremst hannaðar til að ná upp miklum línuhraða og þar af leiðandi löngum köstum, stangir sem þeir hefðu ekkert að gera með í venjulegri veiði. Ég játa að þessi hreinskilni kom mér svolítið á óvart því satt best að segja hefur mér sýnst að helsta söluræða stangarframleiðenda í dag snúast um high performance, fast action stangi þar sem þér er lofað 60 – 80 feta köstum án nokkurrar fyrirhafnar.
Sjálfur sprengi ég mig oft vel yfir 40 fetin þegar fiskurinn er þarna rétt aðeins utar, veltist í ætinu og ég tel sjálfum mér trú um að ef ég nái ekki til hans þá komi hann ekki nær og ég missi því af honum. Verð samt að játa að það er alls ekki svo oft að hann tekur þarna lengst úti, það er mun oftar að hann hefur tekið þegar 40 fetunum er náð eða innar. Kannski hafði Lee Wulff eitthvað mjög mikið til síns máls þegar hann svaraði spurningunni hvers vegna línurnar hans væru ekki lengri en 32 – 36 fet. Svarið hans var einfaldlega á þá leið að þegar veiðimaðurinn væri búinn að bæta taumi við línuna, þá hefði hún náð 40 fetum og meira þyrfti viðkomandi ekkert að hafa til að veiða sér til ánægju og yndis.
Það eru oft einföldu ráðin sem duga best. Ef veiðimaður er sífellt með allar flóknu, vísindalegu ráðleggingarnar í huga þegar hann er að kasta, þá dugir augnablikið í kastinu alls ekki til þess rifja allt upp sem þarf að hafa í huga. Einföld ráð, sérstaklega þau sem innifela ákveðna forvörn er oft betra að muna og framfylgja þegar á reynir.
Ef veiðimaðurinn setur þumalinn ofan á gripið og passar að missa hann aldrei út úr sjónsviðinu, þá er komið í veg fyrir fjölda mistaka í hefðbundnu flugukasti. Ef þú missir af honum í bakkastinu, þá gæti verið að:
aftara stoppið sé of aftarlega, línan fellur og hleðsla hennar fer forgörðum
úlnliðurinn hefur brotnað með sömu afleiðingum
Mestu skipti í þessu að svindla ekki með því að gjóa augunum eða snúa höfðinu í kastinu. Haltu fókus á markinu, þar sem flugan á að lenda, sjáðu puttann út undan þér og þá ættu flest köstin að heppnast hjá þér.
Mikið hefur verið rætt og ritað um þá hættu sem stafar af mögulegri erfðamengun íslenskra laxa samhliða laxeldi í sjó með frjóum norskum laxi. Markaðsherferð laxeldisfyrirtækjanna virðist gefast hér álíka vel og hún gerði erlendis fyrir áratugum síðan. Gylliboð og loforð um bót og betrun í sjókvíaeldi nær til fólksins, ráðþrota sveitarstjórna og alveg inn á borð mistækrar ríkisstjórnar. Orðræðan er ekki ósvipuð þeirri sem átti sér stað í Noregi fyrir 20 – 30 árum síðan. Vá erfðamengunar, laxalúsar og fisksjúkdóma var þá markvisst töluð niður af hagsmunaaðilum og lítið gert úr rökum og áliti þeirra sem báru hag lífríkisins fyrir brjósti. Í dag hefur þessi umræða hreinlega lagst af í Noregi, Skotlandi og víðar. Í dag snýst hún um það hvernig unnt sé að vinda ofan af viðurkenndum staðreyndum, skaðinn er skeður og við hefur tekið ferill skaðaminnkunnar. Fiskeldisfyrirtæki hamast nú við að auglýsa nýjar aðferðir við fiskeldi sem eru raunverulega umhverfisvænar og sjálfbærar, aðferðir sem talsmenn íslenskra fiskeldisfyrirtækja segja fullkomlega óraunhæfar og muni aldrei skila hagnaði.
Það skal fúslega viðurkennt að ég hef ekki lagt mig sérstaklega eftir því að kanna hver hagnaður sjókvíaeldis hér á landi er. Ég sé einfaldlega fram á gríðarlegt tap okkar- og komandi kynslóða, tap sem aldrei verður metið til fjár. Án þess að ég vilji nokkuð draga úr fyrirsjáanlegu tjóni þeirra sem hafa búbót eða tekjur af laxveiði, þá þykir mér í sannleika sagt sem stærsta fórnarlambið hafi lítið verið virt viðlits og það hvorki fengið að njóta vafans né sannmælis. Hér er ég að vísa til náttúrunnar í sinni víðustu merkingu.
Áður en lengra er haldið er rétt að taka það fram að ég er ekki auðmaður með fullar hendur fjár og ég stunda ekki laxveiði. Ég aftur á móti viðurkenni það fúslega að ég er sjálfskipaður sérfræðingur að sunnan, enda fæddur og uppalinn á Suðurlandi, í kjördæmi þingmannsins víðförla sem svo skemmtilega auðkenndi okkur með þekktri skammstöfun úr Þriðja ríki nasismans. Og það sem meira er, ég viðurkenni það með stolti að ég er lobbýisti, lobbýisti fyrir hreinni og óspilltri náttúru og ég hef sterkar skoðanir á fiskeldi á því formi sem tíðkast hér hvort sem það er á frjóum eða ófrjóum laxi eða regnbogasilungi.
Þá áratugi sem sjókvíaeldi hefur verið stundað hefur fiskur sloppið úr kvíum og það saman gerir hann og mun gera hér við Ísland. Því miður hefur orðskrípið slysaslepping verið notað um þetta en það gefur til kynna að strok fiska sé ófyrirséður og óvæntur atburður. Þetta er víðs fjarri raunveruleikanum því það er hreint ekki ófyrirséð að fiskur sleppi úr sjókvíum, sagan segir okkur allt annað. Samkvæmt sérfræðingum er það þekkt að eldisfiskur sem leitar upp í ár og vötn hrygnir heldur síðar en náttúrulegir stofnar. Allt tal um að náttúrulegri hrygningu standi ekki ógn af eldislaxi eru innantóm orð. Staðfest dæmi um eldislax sem komin er að hrygningu utan sjókvía liggja fyrir. Það er í eðli laxa að róta möl og botnseti til þar sem þeir hyggjast hrygna. Þannig rótar eldisfiskurinn til þeim hrognum fiska sem þegar hafa hrygnt og gildir þá einu hvort um er að ræða hrogn laxa, bleikju eða urriða. Hrogn sem þannig missa skjól sitt á botninum verða aldrei að fiskum, skaðinn því skeður og viðkoma náttúrulegu stofnanna verður lakari.
Hvort heldur regnbogasilungur komi seiðum á legg hér eða ekki, þá er átgirnd hans næg ógn og hún heggur stór skörð í raðir ungviðis annarra tegunda. Þetta lærðu Bretar af sárri reynslu þegar aðfluttur stofn regnbogasilungs var fluttur til Bretlandseyja um og eftir 1884. Það liðu ekki margir mánuðir þar til þúsundir regnboga höfðu sloppið í nærliggjandi ár og vötn og þar dafnaði hann vel á hrognum og ungviði annarra tegunda, ekki síst urriða. Svo mjög hjó þetta skörð í raðir náttúrulegra stofna að við lá að urriðinn hyrfi algjörlega af sjónarsviðinu og ekki dró úr ógninni þegar regnboginn tók til við að fjölga sér. Væntanlega sleppum við þá ógn, ekki nema regnboginn finni sér velgjur í ám og lækjum hér á landi sem henta hrygningartíma hans. Það skildi þó aldrei vera að sú yrði raunin, fiskurinn er vissulega til staðar hringinn í kringum landið og hann leitar sér greinilega að búsvæði.
Upphafleg andstaða mín við sjókvíaeldi er þó ekki mörkuð þess sem hér hefur verið getið. Andstaða mín vaknaði í byrjun vegna þeirrar mengunar sem sjókvíaeldi hefur í för með sér. Þessi mengun er margþætt og hún ógnar ekki aðeins fiskum í sjó eða ferskvatni, hún ógnar lífríkinu öllu.
Það hefur verið látið í veðri vaka að mengun í formi lífræns úrgangs frá sjókvíum sé ekkert vandamál, um sé að ræða áburð og næringu fyrir aðrar lífverur sem þannig nýtist. Rétt eins og aðrar úrtöluraddir efasemda er þetta fjarri lagi. Ofgnótt lífræns úrgangs leiðir ekki til aukinnar framleiðslu í hafinu, ekki frekar en á landi. Engum dytti til hugar að þekja Heiðmörkina með 50 sm. þykku lagi af kúamykju með þeim rökum að gróður og dýralíf hefðu bara gott af og vatnsból Reykvíkinga spilltust ekki, þetta væri jú allt lífrænt.
Mótvægisaðgerðir mengunar sjókvíaeldis byggjast á hvíld svæða og kvaðir þess efnis eru settar á eldisfyrirtækin. Því miður höfum við dæmi um að farið hefur verið á svig við þessar reglur hér heima rétt eins og víða erlendis. Burstséð frá þessum brotum ber þess að geta að forsendur burðarþols eru metnar samkvæmt flóknum reiknilíkönum sem eru í sífelldri þróun. Enn hefur ekki tekist að ná til allra þátta sem áhrif geta haft á útreikningana, reglulega koma í ljós brotalamir í þessum líkönum og ófyrirséðir þættir skjóta upp kollinum sem skekkja dæmið. Því er leitast við að nota varfærnustu niðurstöður þessara útreikninga við ákvörðun burðarþols hér á landi. Slík varúð var að vísu einnig viðhöfð undan ströndum Noregs, Skotlands, Svíþjóðar og Chile þar sem heilu eyðimerkurnar á hafsbotni hafa verið kortlagðar í nágrenni sjókvía og ætluð endurkræf áhrif með hvíld hafa látið á sér standa.
Með fullri virðingu fyrir sérfræðingum lífríkis og reiknimeisturum þeim sem annast burðarþolsútreikninga, þá er það skoðun mín að meira mark mætti taka á þeim náttúrufræðingum sem numið hafa fræðin af náttúrunni sjálfri. Í samtölum mínum við athugula Austfirðinga hafa þeir tjáð mér að marfló hefur fækkað verulega í fjörðum þeim sem búa við sjókvíaeldi. Það vill svo til að marfló er undirstöðufæða sjóbleikjunnar og þessi vöntun gæti verið skýring á lélegum heimtum úr eldisfjörðum síðustu árin á meðan heimtur úr hreinum fjörðum hafa haldist í meðaltali.
Þéttleiki fiska í sjókvíum er gróðrarstía sjúkdóma og laxalúsar. Bölsýnisspár þeirra sem efuðustu um sannleiksgildi þess að laxalús yrði ekki vandamál í sjókvíaeldi hér við land hafa reynst réttar. Eldisfyrirtæki hafa þegar fengið leyfi fyrir og notað fóður sem í er blandað lúsalyfjum. Laxalús hefur og verður alltaf til staðar hér við land en fiskum stendur almennt lítil ógn af henni undir náttúrulegum kringumstæðum. Sjókvíar eru bara ekki náttúrulegar aðstæður og þéttleiki laxalúsar í og við þær er slíkur að náttúran má sín lítils og afföll villtra fiska verða umtalsverð í skásta falli, allt að 50% í versta falli. Þessi afföll eru ekki bundin við lax, urriði og sjóbleikja eru sérstaklega viðkvæm fyrir laxalús. Merkjanleg afföll þessara stofna í nágrenni sjókvía hafa verið staðfest í nágrannalöndum okkar og engin augljós ástæða til þess að ætla að annað sé uppi á teningnum hér við land.
Lyfjanotkun í fiskeldi er ekkert einkamál fiskeldisfyrirtækja. Styrkur lúsalyfja í fóðri þarf að vera nokkuð hár til þess að ná tilætluðum árangri. Nokkrar misvísandi niðurstöður rannsókna segja að nýting lyfja í fóðri sé á bilinu 15% og upp í 45%. Hvor talan sem rétt reynist, þá er vitað að lirfur sjávarlífvera deyja við einungis 1 – 4% af þeim skammti sem þarf til að drepa laxalús. Það má því gera því skóna að fyrir hverja laxalús sem tekst að drepa með lyfjum, liggja hundruð lirfa í valnum sem annars hefðu orðið undirstaða eða beinlínis fæða fiska og fugla í ómengaðri náttúru. Grunnsævi er fisktegundum mikilvægt og margir stofnar leita þangað til hrygningar og fæðuöflunar. Með því að raska lífkeðju þessara svæða er tilveru þessara stofna stefnt í hættu, nær væri að hlúa að þessum svæðum enn frekar og nýta þau skynsamlega, rétt eins og Vest- og Austfirðingar hafa gert um aldir.
Skammtímagróði sjókvíaeldis er sýnd veiði, en ekki gefin. Tap náttúrunnar verður öllum augljóst.
Það er ýmislegt sem maður dettur í að skoða þegar árstíðin gefur ekki tilefni til að standa við eitthvert vatn og baða flugur. Vegna ákveðins verkefnis sem ég hef brennandi áhuga á, sökkti ég mér nýlega í töluverðan massa af fræðigreinum um fæðu silungs og undanlátsemi urriða þegar kemur að samkeppni um fæðu við bleikjuna.
Í grunninn er fæða bleikju og urriða ekki svo ósvipuð, svo lengi sem þessar tvær tegundir deila ekki búsvæði. Algengast er að silungurinn éti botndýr á vetrum, aðallega rykmýslirfur og aðra hryggleysingja, s.s. vatnabobba. Þegar vorar og rykmýið púpar sig verða púpurnar stærri þáttur í fæðu silungsins, nokkuð sem gefur augaleið þar sem framboð þeirra eykst. Yfir sumarið étur silungurinn að auki stærri tegundir svifdýra og botnlæg krabbadýr, s.s. kornátu. Báðar tegundirnar leggja sér hornsíli og seiði til munns, í mismiklu mæli þó, urriðin heldur meira.
Þegar bleikja og urriði deila búsvæði kemur upp allt önnur mynd af fæðuvali þeirra. Urriðinn beinir sjónum sínum meira að botndýrum á grynningum, vorflugulirfum og eykur ásókn sína í hornsíli og silungaseiði á meðan bleikjan heldur uppteknum hætti og lifir mest á sviflægri fæðu og vatnabobba. Vísbendingar eru til staðar um að bleikjan haldi nokkuð uppteknum hætti í sambúð við urriðann, svo fremi stofn hennar nái ekki þolmörkum fæðuframboðs. Vilji svo til að bleikjan verði heldur liðmörg, leitar hún í auknu mæli inn á búsvæði urriðans og þrengir þannig að honum. Hafi urriðinn ekki vanist á að hafa bleikju á matseðlinum, þá lætur hann einfaldlega undan, sveltur með öðrum orðum.
Það er langt því frá að allir urriðar leggi sér bleikju til munns þó þekkt sé að velflestir þeirra éti bleikjuseiði til jafns við hornsíli. En til eru þeir stofnar urriða hér á landi sem éta allt frá dvergbleikju og upp í fullvaxna kuðungableikju, þekktastir þeirra eru til dæmis Þingvallaurriðinn og urriðinn í Langavatni á Mýrum.