Flýtileiðir

Undanlátssemi urriða

Það er ýmislegt sem maður dettur í að skoða þegar árstíðin gefur ekki tilefni til að standa við eitthvert vatn og baða flugur. Vegna ákveðins verkefnis sem ég hef brennandi áhuga á, sökkti ég mér nýlega í töluverðan massa af fræðigreinum um fæðu silungs og undanlátsemi urriða þegar kemur að samkeppni um fæðu við bleikjuna.

Í grunninn er fæða bleikju og urriða ekki svo ósvipuð, svo lengi sem þessar tvær tegundir deila ekki búsvæði. Algengast er að silungurinn éti botndýr á vetrum, aðallega rykmýslirfur og aðra hryggleysingja, s.s. vatnabobba. Þegar vorar og rykmýið púpar sig verða púpurnar stærri þáttur í fæðu silungsins, nokkuð sem gefur augaleið þar sem framboð þeirra eykst. Yfir sumarið étur silungurinn að auki stærri tegundir svifdýra og botnlæg krabbadýr, s.s. kornátu. Báðar tegundirnar leggja sér hornsíli og seiði til munns, í mismiklu mæli þó, urriðin heldur meira.

Þegar bleikja og urriði deila búsvæði kemur upp allt önnur mynd af fæðuvali þeirra. Urriðinn beinir sjónum sínum meira að botndýrum á grynningum, vorflugulirfum og eykur ásókn sína í hornsíli og silungaseiði á meðan bleikjan heldur uppteknum hætti og lifir mest á sviflægri fæðu og vatnabobba. Vísbendingar eru til staðar um að bleikjan haldi nokkuð uppteknum hætti í sambúð við urriðann, svo fremi stofn hennar nái ekki þolmörkum fæðuframboðs. Vilji svo til að bleikjan verði heldur liðmörg, leitar hún í auknu mæli inn á búsvæði urriðans og þrengir þannig að honum. Hafi urriðinn ekki vanist á að hafa bleikju á matseðlinum, þá lætur hann einfaldlega undan, sveltur með öðrum orðum.

Það er langt því frá að allir urriðar leggi sér bleikju til munns þó þekkt sé að velflestir þeirra éti bleikjuseiði til jafns við hornsíli. En til eru þeir stofnar urriða hér á landi sem éta allt frá dvergbleikju og upp í fullvaxna kuðungableikju, þekktastir þeirra eru til dæmis Þingvallaurriðinn og urriðinn í Langavatni á Mýrum.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com