FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Köstin

    22. október 2010
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Í straumvatni er líklegast að um 90% allra fiska veiðist á 8-12 m færi. Þetta á við vatnaveiði líka, en meira þarf stundum til. Þegar enginn fiskur gerir vart við sig og þú ert búin að skrapa allan botn í 12 m radíus í kringum þig með þungum girnilegum púpum og ekkert gerist þá er gott að ráða við 20+ m kast.  Prófaðu köst með straumflugu eða púpu eins langt og þér er unnt og leyfðu flugunni að sökkva vel (Kort – J). Það er aldrei að vita hverjir leynast þarna úti.  Og nú fæ ég væntanlega nokkra hreintrúarmenn upp á móti mér þegar ég segi að það er ýmislegt líkt með straumfluguveiði og spúnaveið.  Gott 20+ m kast út í dýpið með þungri skrautlegri straumflugu dregur oft að mér fisk sem ég annars næði ekki til, ekki ósvipað og gert er með glitrandi spinner sem leyft er að sökkva vel áður en hann er dreginn inn með rykkjum upp með kantinum. Ég viðurkenni það fúslega að þessa aðferð nota ég helst á móti öldunni eins og áður segir.  Samt er ég ekki frá því að þetta gefist bara nokkuð vel þegar heitt er í veðri og fiskurinn hefur fært sig utar í kalt vatnið, ég næ að lokka hann nær.

    Annað mælir með getu til lengri kasta og það er einmitt eiginleiki vatna (undir bestu kringumstæðum) til að vera spegilslétt og kyrr.  Undir þessum kringumstæðum getur fiskurinn verið einstaklega styggur og erfitt að nálgast hann. Þá kemur sér vel að geta kastað fyrir hann úr nokkurri fjarlægð án þess að raska yfirborði vatnsins of mikið.

    Gömul tugga, en aldrei of oft tuggin, æfðu köstin, æfðu köstin, æfðu köstin og náðu að leggja fluguna þannig fyrir fiskinn að hann hræðist hana ekki eða beinlínis kafni úr hlátri.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Að veiða fram í rauðan dauðann…

    22. október 2010
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Ekki dvelja of lengi á hverjum stað.  Jafnvel þótt þú hafi náð þér í pottþéttar leiðbeiningar um besta staðinn í vatninu, þá geta allir staðir brugðist. Ef ekkert gerist, ekkert lífsmark og engar tökur, þá er kominn tími á breytingar.  Gott er að:

    • færa sig aðeins um set
    • veiða dýpra
    • nær bakkanum
    • í kantinum
    • draga með breyttri aðferð

    Þú getur alltaf komið aftur á ‚besta‘ staðinn ef ekkert gefur annars staðar. Umfram allt, breyttu til.

    En svo eru auðvitað til undantekningar eins og konan mín sem heldur oft kyrru fyrir á sama nesinu svo tímunum skiptir og tínir upp hvern fiskinn á fætur öðrum (alltaf með Black Ghost) á meðan ég geng mig upp að hnjám hringinn í kringum vatnið, skipti reglulega um flugu og inndrátt en er ekki hálfdrættingur á við hana. Já, munið eftir ‚einu reglunni‘.

    Konan mín segir einfaldlega að fiskurinn komi fyrr eða síðar. Á meðan geti hún bara æft köstin og spáð í náttúruna. Þolinmæðin er líka dyggð í vatnaveiði, sé staðurinn réttur, veðrið ákjósanlegt og rétta flugan á, getur tímasetningin einfaldlega verið röng.  Þá er tvennt í boði, breyttu til eða bíddu róleg(ur) þar til næsti urriði tekur við óðalinu eða næsti bleikjuflokkur fer framhjá.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Öfgafullt grúsk

    15. október 2010
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Jafnvel þótt skrifaðar hafa verið margar góðar bækur um fluguveiðar, þá eru það alltaf þær fyrstu sem skipa sérstöðu í safninu. Það er þekkt að fyrstu heimildir á riti um fluguveiðar eru alveg frá því um árið 200 e.Kr. en elstu heimildir um fluguveiðar sem tómstundaiðju / sport er að finna í ‘Book of St.Albans’ frá árinu 1496. Í þessari bók er að finna merkilega ritgerð abbadísarinnar Juliana Berners frá Sopwell í Hertfordskíri á Englandi þar sem hún lýsir veiðum með öngli. Á frummálinu heitir ritgerðin ‘A Treatyse of Fysshynge Wyth an Angle’. Þeir sem treysta sér til að lesa frumtextan geta nálgast hann hérna, ég læt mér nægja að birta hér mynd úr frumútgáfunni (til hægri). Þó ritgerðasafnið hafi ekki verið gefið út fyrr en árið 1496, þá benda heimildir til þess að ritgerðin hafi verið fullgerð árið 1425. Segið svo að fluguveiðar séu einhver ‘bóla’.

    Fyrir grúskara er nokkur ládeyða í heimildum næstu 150 árin eða svo. Þá ritaði Izaak Walton og gaf út bókina ‘The Complete Angler’ árið 1653. Rúmum 20 árum síðar bætti Charles Cotton einum kafla við bókina sem sérstaklega var tileinkaður fluguveiðum og þannig varð þessi bók helsta bíblía veiðimanna næstu 200 árin. Enn þann dag í dag má lesa sér nokkuð til um lifnaðarhætti fiska og fæðuvenjur í þessu merkilega riti sem má nálgast hér.

    Fyrir þá sem áhuga hafa á frekara efni má benda á fyrirtaks vef Internet Archive þar sem nálgast má óendanlegan fjölda bóka og annars efnis á rafrænu formi um ýmis málefni, eldri sem yngri. Allar bækur sem hlaða má niður eru runnar út á höfundarrétti og því er hér um löglegt niðurhal að ræða.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Sjóbleikja

    10. október 2010
    Fiskurinn

    Upp

    Forsíða

    Sjóbleikjan er frábrugðin vatnableikjunum að því leiti að hún dvelur öll sumur eftir að seiðastigum sleppir í sjó. Beikjan gengur í sjó í apríl eða maí og dvelur þar allt sumarið. Þegar sumri hallar og fram á haust gengur fiskurinn aftur í árnar þar sem hann hryggnir í september og október. Klakið á sér stað snemma vors, frá mars og út maí. Rannsóknir hafa sýnt að ókynþroska fiskur gengur síðar upp í ár heldur en sá kynþroska. Þannig má segja að ókynþroska fiskur dvelji að jafnaði lengur í sjó heldur en sá kynþroska. Þar á móti kemur að kynþroska fiskur gengur fyrr til sjávar heldur en seiðin sem eru að fara í fyrsta skiptið. Búsvæði sjóbleikju er helst fyrir norðan og austan land, einna helst þar sem sjóbirtingur er ekki.

    Mynd: Wikipedia / public-domain-image.com

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Fæðuárið

    3. október 2010
    Ætið

    Upp

    Forsíða

    Nú þegar halla fer í haustið og veiðiferðunum fer að fækka, þá tekur maður upp á undarlegustu hlutum til að viðhalda sóttinni sem hefur herjað á mann í allt sumar. Eitt af því er að lesa ótrúlegustu greinar um það sem maður hefði átt að vita áður en lagt var af stað síðasta vor, t.d. hvað er fiskurinn að éta á hverjum tíma árs. Eftir að ég las í gegnum nokkrar greinar þá stóð eftirfarandi upp úr; Mig vantar teikningu af ‘fæðuári’ silungsins. Ég settist því niður og setti saman þessa mynd og nokkra punkta um nokkrar fæðutegundir og framboð þeirra eftir árstíðum.

    Þetta er alls ekki tæmandi listi yfir það sem silungurinn étur árið um kring, en gefur nokkuð góða mynd af framboðinu á hverjum tíma ársins.

    Bitmý Á Íslandi finnast sex tegundir bitmýs. Þær eiga það þó allar sameiginlegt að flugurnar eru smágerðar, svartar og frambolurinn kreppist eilítið upp fyrir afturbolinn. Púpurnar líkjast flugunni meira heldur en lirfan sem eru töluvert stærri en fullvaxin fluga, allt að 1 sm. Lirfan er lík ormi, með haus og röð króka aftur eftir bolnum. Myndbreyting lirfunnar á sér stað í nokkurs konar kramarhúsi sem hún byggir sér. Lirfurnar festa sig við botnin, oft í þéttum klösum og standa upp á endann.

    Rykmý Á Íslandi hafa fundist yfir 80 tegundir rykmýs. Flugurnar eru næstum eins mismunandi að stærð, lögun og lit eins og tegundirnar eru margar. Karlflugurnar gera orðið allt að 1.5 sm að lengd, kvennflugurnar yfirleitt nokkuð minni. Líftími flugnanna sjálfra er frekar stuttur, aðeins nokkrir dagar þegar best lætur. Lirfa rykmýs nefnist blóðormur.

    Vorflugan Á Íslandi hafa fundist 11 tegundir vorflugu. Þær eru náskildar fiðrildum og er oft ruglað saman við þau. Fullorðin vorfluga er frekar stórt skordýr með mjúkan búk, oftast gulleit eða grábrún. Sem lirfur lifa þær í vatni og byggja utan um sig hýði úr plöntuleifum eða sandi. Lirfurnar eru allt frá því um 1 til 2 sm að lengd, bera sex fætur og greinilegt höfuð. Klak vorflugunnar er nokkuð mismunandi eftir tegundum, alveg frá því í mars og fram í október og má því búast við einhverri tegund á sveimi allt sumarið.

    Brunnklukka Fjórar tegundir af brunnklukkuætt finnast á Íslandi. Allar eiga þær það sameiginlegt að teljast til rándýra, bæði sem lirfur og sem klukkur. Brunnklukkan er mjög algeng um allt land og finnst í flestum vötnum, þó ekki ám og straumhörðum lækjum. Lirfa brunnklukkunnar nefnist vatnsköttur og finnast helst í júlí og ágúst. Fullvaxta klukkur finnast allt árið um kring.  Skoðanir eru mjög á reyki um það hve stóran sess klukkur skipa í fæðu fiska, en tæplega er hann þó stór þar sem viðkoma klukkna er ekki mikil í Íslenskum vötnum.

    Vatnaklukka Aðeins ein tegund vatnaklukku hefur fundist um allt Ísland, séu Vestfirðirnir undanskildir. Fullorðin vatnaklukka lifir í lækjum, vötnum og tjörnum. Bæði lirfan og fullorðin klukkan lifa fyrst og fremst á gróðri. Fullorðin hefur vatnaklukkan fundist frá miðjum apríl og vel fram í ágúst.  Flest bendir til að varp eigi sér stað upp úr miðju sumri, júli og ágúst. Það sama á við um vatnaklukkuna og brunnklukkuna, ekki er vitað með vissu hve stóran sess hún skipar í fæðu silungs á Íslandi.

    Hornsíli er lítill fiskur, oftast 4 til 8 sm að lengd. Hann er straumlínulagaður og er sverastur um miðjan bol. Hornsílið er algengt í ferskvatni á Íslandi og í sjó við strendur. Litur hornsíla er nokkuð breytilegur, alveg frá silfruðum yfir í blágræn, dökkna verulega á hryggningartímanum og hængarnir verða allt að því rauðir. Hryggning á sér stað að vori, í maí og júní. Hornsílið er eini fiskurinn á og við Íslands sem gerir sér hreiður til hryggningar. Þar sem hornsílið er nánast ránfiskur í eggjum annarra fiska, má segja að þar hitti skrattinn ömmu sína þegar urriðanum og sílableikjunni bregður fyrir og gera sér hornsílin að góðu.

    Vatnabobbar finnst nánast í öllum vötnum á Íslandi, í óteljandi stærðum og afbrigðum. Oftast eru skeljar bobbanna frá því að vera gulhvítar yfir í það að vera móbrúnar. Ekki er óalgengt að skeljarnar taki til sín lit úr umhverfinu, svo sem rauðleitan blæ úr mýrarrauða. Stærð vatnabobba er allt frá 5 mm og upp í 25 mm. Útbreiðsla vatnabobba innan einstaka vatn getur verið mjög mismunandi. Eitt vatn getur boðið upp á kjör aðstæður fyrir vatnabobba á miklu dýpi á meðan önnur virðast snauð af bobba nema í flæðarmálinu. Fræðingar virðast ekki vera á eitt sáttir um ástæður þessa þannig að væntanlega er best að skoða sig vel um við hvert vatn og velta varlega við einstaka steinum og skima eftir þeim.

    Skötuormur er stærsta krabbadýr sem lifir í ferskvatni á Íslandi, getur orðið allt að 5 sm að lengd. Algengastur á hálendinu (Veiðivötn) en finnst þó víðar.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Urriði

    28. september 2010
    Fiskurinn

    Upp

    Forsíða

    Almennt skiptist urriðastofninn á Íslandi í tvennt; staðbundin urriði og sjóbirtingur. Staðbundin urriði er gulleitur/brúnn á lit, meðan sjóbirtingur er silfurgljáandi og hvítur á kvið.

    Vatnaurriði Ísaldarurriðinn er sá urriði sem að stofninum til tók sér bólfestu í Íslenskum ám og vötnum við lok síðustu ísaldar fyrir u.þ.b. 12.000 árum. Sjógenginn urriði (sjóbirtingur) lokaðist inni í vötnum á núverandi hálendi Íslands, m.a. vegna landris og annarra jarðfræðilegra breytinga. Þetta er m.a. skýringin á því af hverju Þingvallaurriðinn og Veiðivatnaurriðinn eru eins skyldir og raun ber vitni. Útbreiðsla Ísaldarurriðans hefur þó raskast nokkuð með tilkomu seyðasleppinga í ýmiss vötn utan þeirra upprunalegu. Í lang flestum tilfellum gengur urriðinn upp í ár og læki þar sem hann hryggnir í september og október. Hrognin klekjast síðan með vorinu, frá byrjun mars og fram í lok maí. Auðvitað eru þessar tímasetningar misjafnar eftir legu vatna. Seiðin ganga síðan niður í vatnið eftir 2 – 4 ár í straumi. Kynþroska verður fiskurinn 3 – 4 ára.

    Sjóbirtingur Svo virðist vera sem gönguhegðun sjóbirtings taki á sig form hjá 2 – 5 ára gömlum fiskum. Hryggning og klak sjóbirtings á sér stað á svipuðum tíma og hjá vatnaurriðanum. Fiskurinn heldur kyrru fyrir í ám og lækjum fyrstu árinn að jafnaði örlítið lengur en vatnaurriðinn. Fiskurinn dvelur 4 – 5 mánuði í sjónum áður en hann snýr aftur til vetursetu í ferskvatni, yfirleitt í ágúst – september. Þessari gögnuhegðun heldur hann þaðan í frá allt sitt líf.

    Mynd: Wikipedia / public-domain-image.com

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 146 147 148 149 150 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar