Ég heyrði í útvarpinu um daginn að tunglið væri að fjarlægjast okkur um 4 sentímetra á ári. Það er ekki nóg með að sumarið hefur yfirgefið okkur heldur er tunglið að gera það líka. Hvoru tveggja eru slæmar fréttir því þegar þetta tvennt fer saman, sumarblíða og fullt tungl þá er virkilega von á skemmtilegri veiði. Þannig er að aðdráttarafl tunglsins hefur áhrif á fisk í vötnum og sjó þannig að þeir leita meira upp á yfirborðið og þá sérstaklega ef aðeins er tekið að rökkva og fullt tunglið nýtur sín á himninum. Í dag, 30.júní fæðist nýtt tungl og það verður orðið fullt aðfararnótt 15.júlí og því e.t.v. ekki úr vegi að taka seinni vaktina þann 14. og vaka aðeins lengur eða taka næst besta kostinn og vaka með fiskinum aðfararnótt laugardagsins 16.
-
Tunglið
Höfundur:
-
Heyrn
Ég er svo óheppinn að hafa ekki rakaraheyrn þ.e. geta skynjað hvað er sagt og brugðist við með réttum svörum án þess að hafa minnstu hugmynd um hvað er verið að tala um. Ég annað hvort heyri allt eða ekkert, en ég er nú líka bara venjulegur maður. Fiskurinn aftur á móti heyrir og skynjar hvort sem honum líkar það betur eða verr. Buslugangur, steinaglamur og skellir í þungum flugum á yfirborðinu eru allt eitthvað sem fiskurinn heyrir með skynrákinni sem liggur eftir honum endilöngum og hann bregst við þessu. Stundandi vatnaveiði í grænu vöðlunum mínum (ég trúi því að grænt sjáist síður en grátt) hef ég oft upplifað það að fiskurinn syndir rétt við fætur mér án þess að skeyta nokkru um mig, svo fremi ég standi fastur í fæturna og ekki urgi í botngrjótinu. Já, allt í lagi, ef hann syndir rétt við fætur mér þá hef ég örugglega vaðið of langt en það er ekki punkturinn með þessu heldur sá að það er hægt að vaða varlega og af skynsemi þannig að fiskurinn fælist ekki, kasta létt þannig að flugan skelli ekki á yfirborðinu og skilja hundinn eftir heima (ef ég ætti hund). Við getum svo óhikað sest niður á bakkanum og rætt þetta frekar því fiskar heyra ekki mannamál niður í vatnið.Höfundur:
-
..gættu þinna handa
Lyktarskyn okkar er mismunandi, alveg óháð því hvort okkur þykir einhver ákveðin lykt góð eða slæm. Ég sjálfur t.d. forðast þrjár deildir í stórmörkuðum; snyrtivörurnar, þvottaefnin og ilmkertin, sný snarlega við og kíki í kjötborðið eða nammilandið. Að þessu leiti er ég ekkert ólíkur silunginum. Þegar við förum til veiða, hvort heldur í á eða í stöðuvatni eru nokkur atriði sem við ættum að hafa í huga og stilla okkur um að nota. Öll lykt af gerviefnum; línuhreinsiefnum, lími (t.d. epoxíð), ilmvatni, sápu, rakspíra og taumýki gera lítið annað vara silunginn við því að einhver aðskotahlutur er á ferli í vatninu. Lyktarskyn fiska er töluvert næmara okkar og til að nálgast upplifun silungsins þyrftum við bæði að þefa og smakka á því sem við ætlum að dýfa í vatnið til að vera viss um að ofbjóða ekki fiskinum. Öll ertandi lykt eða bragð eru ávísun á það að fiskurinn snúi upp á sig og syndi í öfuga átt, verum spör á rakspírann og ilmvatnið í veiðiferðunum og notum lyktarlausan handáburð ef línubruninn er alveg að gera út af við okkur.Höfundur:
-
Draugagangur
Vindhnútar og svipusmellir í framkasti eru eins og draugar sem fylgja fluguveiðimanninum. En draugar þurfa ekki alltaf að vera okkur til ama. Ef við viljum ekki í sífellu vera að snúa okkur úr hálsliðnum til að fylgjast með línunni í bakkastinu getum við framkallað draug með því að telja (í hljóði) frá því við hefjum framkastið og þangað til línan hefur rétt fyllilega úr sér. Ef við teljum upp á nýtt í bakkastinu og höldum í okkur þar til sömu tölu er náð, þá finnum við fyrir drauginum taka örlítið í stöngina okkar. Þessi draugur er að segja okkur að línan hefur rétt úr sér og okkur sé óhætt að hefja framkastið með mun minni líkum á vindhnút eða svipusmelli. Með tíð og tíma hættum við að telja en höldum áfram að finna fyrir drauginum. Galdurinn er að það tekur línuna jafn langan, stundum lengri tíma að rétta úr sér í bakkastinu eins og í framkastinu.Höfundur:
-
Að aðlagast línunni
Hingað til hef ég haldið mig við eina stöng í silunginn, 9′ 5/6 með WF6-F línu og komið púpunum mínum niður með því að þyngja þær eða bögglast við að nota sökktaum. Hef raunar alltaf átt í basli með köstin og sökktauminn þegar slynkurinn tekur öll völd og flugan slæst í línuna ef hún kemst þá á annað borð eitthvað fram úr 12 fetunum. En nú hef ég verið að fikra mig áfram með nýja stöng, eilítið léttari með flotlínu nr.5 og sökklínu nr.4. Þetta hefur kallað á nokkrar breytingar á kaststílnum, sérstaklega fyrir WF4-F/S3 línunni, víðari bugur og hægari köst. Sökklína nr.4 sem ætti að vera léttari heldur en flotlína nr.6 virkar bara hreint ekki þannig þegar maður kastar henni, en með ofangreindum breytingum á kaststílnum gengur mér samt betur en með WF6-F og sökktaum. Væntanlega hefur þetta eitthvað með samræmi línunnar og sökkendans að gera, nokkuð sem mér hefur reynst erfitt að ná fram með flotlínu og sökktaum. Ef þér hefur gengið illa með flotlínu og sökktaum, prófaðu þá framþunga, hægsökkvandi línu með allt að 12′ sökkenda í vatnaveiðina.Höfundur:
-
Kartöflukastið
Þegar tíðarfarið er hryssingslegt og lítið um að vera í veiðinni leitar maður aftur að hnýtingarbekknum eða fer í huganum yfir kasttæknina, nokkuð sem maður ætti víst frekar að vera að hugsa um síðla vetrar, rétt fyrir tímabilið. Inniæfingar í fluguköstum eru nokkrum annmörkum háðar eins og gefur að skilja, en þar með er ekki sagt að öll sund séu lokuð. Það eru til nokkrar æfingar sem hægt er að taka í bílskúrnum án þess að hætta á að brjóta toppinn af stönginni. Ein þessara æfinga er ‚kartöflukastið‘. Ef fremra og/eða aftara stopp er ekki alveg nógu ákveðið hjá þér er ágætt að taka venjulega kartöflu (ósoðna) og stinga henni á venjulegan matargaffal. Vertu staðsettur c.a. bíllengd frá bílskúrshurðinni og haltu á gafflinum eins og flugustöng með olnbogann upp að síðunni og reistu framhandlegginn þannig að kartaflan nemi við augnhæð. Færðu höndina í aftara stopp og taktu gott framkast með ákveðnu stoppi. Markmiðið með æfingunni er að reyna að losa kartöfluna af gafflinum með fremra eða aftara stoppinu einu saman. Þegar þér svo tekst það, settu hana aftur á og nú aðeins dýpra og endurtaktu leikinn. Þetta hljómar auðvitað allt frekar sauðslega en merkilegt nokk, virkar ágætlega til að skerpa á köstunum.Höfundur:

