‚Killing me softly‘ söng Roberta Flack um árið. Mér verður stundum hugsað til þessa lags þegar ég hef verið að berja vatnið í nokkurn tíma og er alveg að missa mig í að þenja köstin út til stóru fiskanna sem eru í dýpinu. Ósjálfrátt slaka ég á og næ köstunum mínum niður um nokkrar kaloríur, eyði minni orku og legg meiri áherslu á mýkt og ákveðni. Að detta svona úr takti þegar illa gengur í veiðinni er nokkuð sem fylgir mönnum víst og þá er um að gera að búa sér til einhvern varnagla sem slær á puttana á manni, færir köstinn aftur niður á það plan sem maður ræður við og framsetning línunnar verður aftur viðunandi. Fluga sem fellur mjúklega á vatnið er vænlegri til veiði heldur en sú sem skellir sér með skvampi í djúpu laugina og hræðir allt og alla frá sér. Snéri maður sér ekki alltaf undan þegar bekkjarfíflið sýndi magaskell í skólasundinu í gamla daga?
Senda ábendingu