Þegar silungurinn hefur tekið og við höfum brugðist rétt við, reist stöngina upp og strengt á línunni er mikilvægt að við höfum fulla stjórn á henni. Örlítill slaki á línu gefur fiskinum færi á að losa sig af með því að skipta snögglega um stefnu í vatninu. Ég tel mig þekkja persónulega nokkra eldri og virtari silunga á Íslandi sem hafa reynslu af því að losa sig af flugu. Þeir eru útsjónarsamir, hægfara og rólegir í tíðinni, bíða eftir því að ég slaki örlítið á, kannski til að teygja mig eftir háfinum, en taka þá á rás að mér eða hnykkja hausnum til annarrar hliðarinnar, helst þeirrar sem er gagnstætt flugunni. Niðurstaðan; þeir halda áfram að lifa villtir í íslenskri náttúru og ég stend eftir með dúndrandi hjartslátt og adrenalínið á fullu. En hvað er þá til ráða? Jú, halda línunni alltaf strekktri og varist hausahnykki og loftköst. Enski frasinn tight lines er engin steypa, höldum línunni strekktri.
