FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Nokkrar línur um línur

    21. desember 2016
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Ég hafði verið að veiða á flugu í nokkur ár áður en ég fór að íhuga aðra flugulínu heldur en hefðbundna framþunga flotlínu. Ástæðan? Jú, ég var spurður hvernig ég ætlaði að koma flugunni niður til stóra urriðans í Veiðivötnum fyrst ég ætti ekki sökklínu. Ég var ekki alveg sannfærður, þyrfti ég virkilega sökklínu til að veiða í Veiðivötnum? Niðurstaðan varð sú að ég keypti mér Intermediate línu með miðlungslöngum haus og afskaplega litlum sökkhraða, undir tommu á sek. Til vonar og vara samþykkti ég að taka með mér láns-línu með sökkhraða 5 tommur á sek. ef flugan mín vildi bara alls ekki fara niður.

    Það er skemmst frá því að segja að ég veiddi 90% af fiskunum í þessari fyrstu Veiðivatnaferð minni í yfirborðinu með ‚gömlu góðu‘ flotlínunni, ekki einu sinni með Intermediate línunni, hvað þá sökklínunni. Í dag veiði ég reyndar nokkuð jöfnum höndum með Intermediate og flotlínu. Þess vegna er ég vopnaður einu góðu veiðihjóli með tveimur mismunandi spólum; einni með flotlínu og annarri með intermediate línu. Ég smelli annarri á hjólið og set hina í bakpokann þannig að ég get skipt eftir hentugleikum. Enn þann dag í dag hef ég ekki séð ástæðu til að fjárfesta í sökklínu, þess í stað hef ég verið að íhuga líftíma flugulína af meiri áhuga heldur en áður.

    fos_hjologlinur

    Mér telst til að ég sé að nota fjórðu og fimmtu flugulínurnar sem ég hef keypt um ævina. Fleiri eru þær nú ekki og ekki eru þær af einhverri ákveðinni tegund. Í mínum huga ræður mestu að línan renni þokkalega, leggist vel fram og krullist ekki fram úr hófi þegar hún fer í kalt vatnið að vori eða hausti. Reyndar er svo komið að ég verð að huga að endurnýjun, leggjast í landkönnun línufrumskógarins og finna mér línu sem leyst getur af hólmi slitna Intermediate línuna mína og þá mögulega eina í stað flotlínunnar sem hefur eiginlega alla tíð verið hálf leiðinleg í framkastinu þegar mikið af henni liggur í vatninu við fætur mér.

    Ég gleymdi einu varðandi línurnar sem ég hef valið; þær hafa allar verið í ódýrari kantinum, einfaldlega vegna þess að ég vil ekki vera með lífið í lúkunum að skemma þær ekki á brölti mínu í hrauni og eggjagrjóti.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Stórir hringir

    7. desember 2016
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Stórt er ekki endilega alltaf betra, en þegar kemur að fluguhjólum verð ég víst að taka undir með þeim sem mæla frekar með stórum hjólum, þ.e. large arbor hjólum. Vissulega eru þessi hjól oft svolítið meiri um sig heldur þau smágerðu með litlu miðjunni, small arbor. Það gefur augaleið að línuspólan þarf að vera aðeins meiri um sig ef miðjan er stærri þannig að öll línan með undirlínu komist fyrir. Hin síðari ár hefur reyndar örlað á því að ofvöxtur hafi hlaupið í sum þessara hjóla þannig að nærri liggur að finna þurfi annað einkenni á þau heldur en large, en það er önnur saga.

    Stærsti kostur large arbor hjóla er vissulega sá að línan leggst inn á þau í víðari hring þannig að minni líkur eru á að hún dragist út af þeim í einni krullu, gormi sem oft verður til trafala í kasti. En það er einnig annar kostur sem er ekkert síðri og vert er að nefna. Þegar línan spólast í víðari hring inn á hjólið verða hringirnir færri á hjólinu. Nei, ég er ekki að tala um þann kost að menn séu fljótari að spóla inn á large arbor heldur en mid- eða small arbor hjól. Með færri hringjum af línu á hjólinu eru færri lög af línu sem óhreinindin geta tekið sér bólfestu í heldur en á smærri hjólum.

    fos_hjologspolur

    Vissulega eru alltaf dagsdagleg óhreinindi sem flækjast fyrir manni í veiði; slý, gróðurleifar og sandur. En þetta er í flestum tilfellum einfalt að losa sig við sé klút brugðið á línuna annað slagið og hún dregin inn í gegnum hann. Verra mál getur verið þegar þessi óhreinindi fá að liggja óáreitt inni á fluguhjólinu, þorna og éta sig fasta á línuna. Þá getur þurft eitthvað meira til heldur en rakan klút. Svo er það blessaður jarðvegurinn, sá sem hefur óvart spólast inn með línunni þegar tekið er saman í lok dags. Smágerð sandkorn, jafnvel einfalt þjóðvegaryk getur farið illa með línukápuna ef það fær að liggja inni á hjólinu einhvern tíma. Þá er kostur að vera með færri hringi af línu á hjólinu, það þýðir færri sandkorn. Þetta er mögulega eitthvað sem menn vilja hafa í huga þegar þeir setja eitthvað á jólaóskalistann á næstunni.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Líknarmeðferð

    19. október 2016
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Þegar líður á seinni hluta vertíðar hefur hugur manns stundum leitað til þess hvort ekki sé til einhver sú líknandi meðferð sem hægt er að beita á flugulínurnar. Kannski er það bara ég, en þegar líður á sumarið verða línurnar mínar stundum afskaplega leiðinlegar. Þær taka upp á því að renna illa, flækjast fyrir mér og eru hreinlega bara með almenn leiðindi af verstu gerð. Heilt yfir sumarið reyni ég að sinna línunum eftir bestu getu, en stundum dugar það bara alls ekki til.

    Almennt reyni ég að baða þær í öðru vatni en veiðivatni einu sinni til tvisvar á ári. Á haustin sting ég þeim í ilvolgt bað með smá uppþvottalegi. Leyfi þeim að liggja þar smá stund, strýk af þeim með mjúkum bómullarklút og skola vel á eftir. Þurrum spóla ég þeim síðan inn á hjólin eða vind þær upp í hankir og kem þeim fyrir á svölum stað og vitja þeirra ekki síðar en í mars. Ef mér sýnist svo, sting ég þeim þá aftur í volgt vatn og teygi svolítið á þeim, svona til að ná geymslukrullunum úr þeim fyrir vorið.

    fos_flugulinur

    Yfir sumarið geng ég alltaf með gleraugnaklút í veiðivestinu og bregð línunum við og við í gegnum hann. Það er merkilegt hvað hrein og tær náttúran okkar á það til að losa sig við óhreinindi yfir á flugulínurnar okkar. Ef ég er mikið á ferðinni þar sem drullupollar herja á veiðislóða, þá á ég það jafnvel til að bregða línunum í bað eftir að gusurnar hafa gengið yfir húddið á bílnum og þar með stangir og línur.

    En svo kemur að þeim tímapunkti að þessi daglega umhirða dugir ekki til og línurnar halda bara áfram að pirra mann. Þetta er víst merki þess að hilli undir endalok línunnar og eitthvað meira þarf til að hún renni þokkalega. Með tíð og tíma eyðist ysta kápa línunnar eða særist þannig að almenn þrif duga ekki til. Þá laumast ég til að nota línubón og lengi þar með líftíma línunnar aðeins, svona rétt út vertíðina. Á endanum verð ég víst að bíta í það súra epli að fjárfesta í nýjum línum, en það er vissulega hægt að lengja líftíma línunnar með þokkalegri umhirðu.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Kanntu stöng að þræða?

    31. maí 2016
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Ég man enn eftir augnablikinu þegar hönd var lögð á öxl mér og mælt til mín mildum rómi; Hafðu hana tvöfalda, þá gengur þetta betur. Þetta var fyrir mörgum árum þegar ég var staddur á veiðivörukynningu og var eitthvað að bögglast við að þræða flugustöng. Eitthvað hefur þetta greinilega gengið brösuglega, því þessi eldri, reyndi veiðimaður gat greinilega ekki orða bundist og vildi leiðbeina mér.

    fos_linalykkja

    Eftir þetta hef ég alltaf þrætt stöngina mína með línuna tvöfalda í gegnum lykkjurnar. Ég er sneggri að þræða stöngina og yfirleitt skiptið það engu máli ef ég missi línuna, hún rennur aðeins niður að næstu lykkju. Varðandi þennan eldri veiðimann, þá hef ég notið leiðsagnar hans á ýmsa vegu eftir þetta, en þessi fyrstu kynni okkar sitja trúlega fastast af öllu sem hann hefur kennt mér.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Vinda ofan af eða ekki?

    24. maí 2016
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Maður skildi ætla að eftir nokkur ár, fjölda veiðiferða og óteljandi köst, þá væri maður laus við þennan ófögnuð sem vindhnútarnir eru. En, það er nú öðru nær. Þessir óþurftar pésar sem þeir eru hafa fylgt mér og munu trúlega alltaf gera. Ég var eitthvað að velta þessu fyrir mér í vetur sem leið og ákvað að tefla á tæpasta vaðið og spurðist fyrir í veiðifélaginu mínu, hvort menn væru enn að eiga við vindhnúta, komnir á efri ár.

    Þeim sem til þekkja, þ.e. míns veiðifélags vita að ég mátti segja mér sjálfum að svörin yrðu eitthvað út og suður. En, merkilegt nokkuð, ég fékk hverja játninguna á fætur annarri að þetta væri nú alveg upp og ofan; stundum slæmt og í annan stað verra. Aðeins einn sagðist ekki vita hvað ég væri að tala um, hann þekkti ekki til þessa vandamáls, kannski vegna þess að það væru orðin svo mörg ár síðan hann veiddi síðast, en það er allt önnur saga.

    Þessar hugleiðingar sóttu aftur á mig um daginn þegar ég glímdi við einkennilega mikinn fjölda vindhnúta á tauminum mínum. Það var að vísu töluverður vindur, en ekki svo að ég missti bakkastið eitthvað niður, en hnútarnir tóku að raðast á tauminn hjá mér. Í einhverju bjartsýniskasti vegna mögulegra stórfiska ákvað ég að draga inn og leysa úr þessari bölv…. flækju sem hafði myndast. Á meðan ég tók ofan gleraugun (ég er sem sagt nærsýnn) og pírði augun á flækjuna (ég er sem sagt líka kominn með ellifjarsýni) varð mér hugsað til ráðs sem ég las fyrir einhverju síðan. Ef manni tekst að losa flækjuna (á endanum) þá ætti maður að renna tauminum á milli vara sér og athuga hvort brot eða einhverjir hnökrar væru á tauminum.

    fos_knots

    Eftir ótrúlega langa mæðu, nokkur pirringsköst og almenna ólund, tókst mér að greiða úr flækjunni og losa hnúta sem ekki voru fullhertir. Ég lét sem sagt reyna á þetta ráð og eiginlega sleikti tauminn. Og viti menn, það voru í það minnsta tvenn brot í taumaefninu sem ég hafði ekki séð með berum augum (ellifjarsýnin, sko) eða fundið á milli fingra mér (kuldinn, sko) þannig að ég hefði trúlega geta sparað mér allt þetta vesen og einfaldlega klippt, troðið flækjunni í vasann og hnýtt nýtt taumaefni á. Það fylgdi sögunni á sínum tíma að ef maður reyndi að endurnýta taumaefnið eftir vindhnúta, sérstaklega grennra efni, þá væri eins víst að nýr hnútur myndaðist í fyrsta eða öðru kasti, einmitt þar sem brotin væru í efninu. Hér eftir ætla ég gefa þessu betur gaum og sjá til hvort vindhnútum fækki ekki eitthvað hjá mér.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Veikasti hlekkurinn

    17. apríl 2016
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Veiðigræjurnar verða aldrei öflugri heldur en veikasti hlekkurinn í keðjunni. Það er marg tuggið tóbak að maður fer yfir græjurnar áður en maður heldur í fyrstu veiði. Að rjúka niður í geymslu daginn fyrir fyrstu veiðiferð, rífa fram stöngina, hjólið og vöðlurnar kann ekki góðri lukku að stýra.

    Það ætti að vera sjálfsagður hlutur að fara tímanalega yfir stöng, hjól, línu, taum og taumaenda áður en haldið er í fyrstu veiðiferð. Ég tel þetta upp í þessari röð því stöngin þarf að vera í lagi, þokkalega hrein, allar línulykkjur í lagi og samsetningar hreinar. Hjólið þarf að vera liðugt, bremsan ekki föst í læstri stöðu og svo auðvitað hægt að setja bremsuna á þannig að hún haldi. Við hjólið er tryggilega fest undirlína og við hana ætti sömu leiðis að vera fest hrein og eftir atvikum, vel smurð lína.

    Á þann enda sem er nær fiskinum hef ég vanist á að festa línulykkju sem auðvelt er að smeygja taumi í og úr. Sumir hnýta taum við línu með þar til gerðum hnút, en ég vil ganga tryggilega frá línunni minni og verja enda hennar fyrir vatni sem gæti smogið inn í hana og þannig ruglað þyngd hennar. Þetta á sérstaklega við um flotlínu, en í raun á þetta við um allar línur. Ef vatn kemst inn undir kápuna á línunni, þá er ekkert víst að hún hagi sér í vatni eins og vera ber og maður gerir ráð fyrir.

    Í gegnum tíðina hef ég prófað ýmsar gerðir línulykkja. Sumar eru svo þéttofnar að þær standa eins og tannstöngull út í loftið, aðrar eru svo lausofnar að þær safna í sig skít og drullu og enda þá með því að standa alveg jafn mikið út í loftið eða það sem verra er með einhverja einkennilega kryppu sem vísar út eða suður. Hæfilega þétt ofinn línulykkja með kínverskum handjárnum sem línunni er smokrað í og fest með plasthólk hefur reynst mér best. Hin síðari ár hef ég síðan lagt af þann sið að líma lykkjuna með tonnataki eða einhverju álíka við línuna. Tonnatak er ekki heppilegt þar sem sveigjanleiki á að vera til staðar og svo vill tonnatak eldast illa í vatni, verður stökkt og brotnar auðveldlega með tímanum. Eina límið sem ég nota er mjúkt PVC lím til að loka enda línunnar þannig að framangreind vatnssmitun eigi sér ekki stað.

    Samtenging línu og taums
    Samtenging línu og taums

    Um sumarið fer ég síðan reglulega fyrir línulykkjurnar mínar og geng úr skugga um að trosnaðar lykkjur gefi sig ekki þegar sá stóri bítur á.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 4 5 6 7 8 … 10
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar