FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Er mamma þín hér?

    22. júní 2016
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Þingvellir eru helgur staður í hugum margra hér á landi og þá ekkert síður Þingvallavatn með öllum sínum undrum og lífríki. Þegar maður mætir á Þingvöll, stígur maður léttar til jarðar, hefur augun hjá sér og gætir þess sérstaklega að skilja ekkert rusl eftir sig og munar ekkert um að taka það upp sem aðrir hafa misst frá sér, viljandi og óviljandi. Svipaða sögu má segja af Elliðavatni, sem er mörgum kært. Perla í næsta nágrenni við þéttbýlasta kjarna landsins, útivistarparadís með silungavon eins og einhver sagði. Þar gæta allir þess að ekkert óhreint skolist út í vatnið og hrófatildur fyrri tíðar víkja nú umvörpum af vatnsbakkanum.

    Lífríki beggja þessara vatna er vaktað og rannsakað með ærnum tilkostnaði sem greiddur er af almannafé, í einni eða annarri mynd. Hver reglugerðin á fætur annarri er sett fram til verndar lífríkinu þannig að úrgangur og affall manskepnunnar mengi nú örugglega ekki þessi vötn og næsta nágrenni þeirra. Hvort reglunum er síðan framfylgt er allt annað mál, á þessum stöðum eins og öðrum er bæði Jón og séra Jón og ekki gildir endilega það sama fyrir báða. Um bæði þessi vötn gildir að hægt er um vik fyrir gesti að losa sig við umbúðir og annað rusl í þar til gerð ílát og yfirleitt bregðast menn hart við þegar einhver verður uppvís að sóðaskap. Það ætti því að vera algjör óþarfi að þurfa ítrekað að hvetja menn til sjálfsagðrar umgengni sbr. þessa frétt.

    En veiðivötn má finna víðar en í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og mörgum manninum þykir jafnvel vænna um þau sem fjarri eru erli og umferðanið borgarinnar. Fjöldi fólks sækir í kyrrð hreinnar og óspilltrar náttúru og er því tilbúið að draga börn og buru á vit afdala og heiða hvenær sem færi gefst. Ég skil þetta mjög vel, það er ekkert sem hleður mín batterí betur en hrein og tær náttúra. En, að sama skapi er það fátt sem dregur mig jafn mikið niður eins og að sjá óþarfa ummerki ferðalanga hvert sem litið er.

    Þótt barni verði brátt í brók.... við Frostastaðavatn
    Þótt barni verði brátt í brók…. við Frostastaðavatn

    Það er svo löngu ljós staðreynd að það sem maður getur borið með sér út í náttúruna getur maður líka tekið mér sér til baka. Víðast hvar er stutt í næsta rusladall og þó svo ekki væri, þá er örugglega alltaf pláss í bílnum fyrir smá rusl þar til komið er aftur til byggða.

    Um síðustu helgi var ég á ferð í Hítardal. Það er ekki aðeins vatnið sem dregur mig þangað, umhverfið og náttúran eru alveg einstök og það er næstum alveg sama hve margir mæta á staðinn, það er alltaf einhver kyrrð yfir svæðinu. Eins og áður segir, tel ég það ekkert eftir mér að tína það upp sem nágranni minn hefur misst frá sér, en þessa helgi féllust mér hendur. Ég einfaldlega hafði mig ekki í að tína upp allan þann notaða salernispappír, matarafganga og umbúðir sem gestir dalsins höfðu skilið eftir sig. Að ég tali nú ekki um óþrifnað og sóðaskap veiðimanna sem höfðu verið þar að veiðum. Það ætlar seint að takast að gera mönnum grein fyrir afleiðingum þess að henda innyflum og fiskafgöngum í veiðivötn. Fiskiandarmaðkur eykur útbreiðslu sína jafnt og þétt ef veiðimenn viðhalda hringrás hans á milli hýsla með þessum óþrifnaði. Sjá nánar í nýlegri grein minni Bandormar í fiski.

    Hítardal hefur um árabil verið sinnt af stakri prýði. Ruslatunnur eru þar víða, salernisaðstaða opin almenningi og aðgengi svæðisins með ágætum. En þetta virðist ekki duga öllum sem þangað leggja leið sína. Ég velti því fyrir mér hvernig heimilishald þessara gesta er eða uppeldi þeirra hefur verið háttað. Eiga þeir virkilega von á því að mamma þeirra mæti á staðinn og taki til eftir þá? Ég ætla rétt að vona að þessir aðilar hafi verið einir á ferð, mig óar við því að þeir hafi verið yngri veiðimönnum eða börnum sínum fyrirmynd í umgengni.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Angur

    8. júní 2016
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Ég deili greinum og myndum af þessum vef á ýmsum samfélagsmiðlum. Einn þessara miðla er Instagram þar sem ég hef verið að setja inn myndir úr veiðiferðum og einstaka fiski sem slæðist á land undir merkinu @fosvefur  Þær eru yfirleitt ekki margar myndirnar sem ég birti af mínum aflabrögðum, en um daginn deildi ég einni sem tekin var í lok fyrsta veiðidags í Veiðivötnum hjá okkur hjónum í fyrra. Myndin er nokkuð hressileg, tekin við Litlasjó þar sem ég hafði raðað afla dagsins á vatnsbakkann.

    Umrædd mynd á Instagram

    Með myndinni var stuttorð lýsing, ekki ósvipuð þeirri hér að ofan. Ekki leið á löngu áður en hún hafði fengið 32♥ sem jafngilda Like á Facebook. En svo komu ein ummæli sem hafa verið að angra mig aðeins; 23 dead fish. Hideous ….  sem útleggst á íslensku; 23 dauðir fiskar. Hræðilegt ….  Ég sagði að þetta hefði angrað mig, ekki það að einhver hafi skrifað þessi ummæli, heldur sú áleitna spurning hvort mynd sem þessi stuði veiðimenn sem gæta hófsemi í veiði og láta sér nægja einn til tvo fiska í soðið eða sleppi jafnvel öllum fiskum, sama hvar þeir eru veiddir og hverrar tegundar þeir eru.

    Ég geri á engan hátt ráð fyrir því að þessi erlendi aðili og ummælahöfundur þekki til Veiðivatna og Litlasjós og geri sér því grein fyrir að vatnið er með stærstu sleppitjörnum norðan Alpafjalla. Því er nú einu sinni þannig farið að urriði á almennt fárra kosta völ til hrygningar í Veiðivötnum og stofninum hefur verið viðhaldið með seiðasleppingum. En burtséð frá því, þá gæti þessi mynd auðveldleg talist sönnun á frystikistuveiði eins og einhverjir kalla það að veiða sér til matar og þá ekki aðeins eina máltíð í einu. En, ég skammast mín ekkert fyrir að veiða mér til matar. Fiskur er frábær fæða, svo maður tali nú ekki um þegar hann kemur úr hreinni náttúru norðurhjara veraldar.

    Á sama tíma og neysla fiskpróteins hefur rokið upp á heimsvísu er talað um að ríflega 30% þess komi nú úr eldisfiski. Þetta eru ógnvekjandi tölur því til að framleiða 1 kg. af eldisfiski þarf að gefa honum fóður sem unnið er úr 1,46 kg. af viltum fiski (lýsi og fiskimjöl) og 1,3 kg. af jurtaafurðum (soja, repja, maís og hveiti). Þetta er því í raun fáránleg sóun og því þykir mér óþægilegra að sjá metralangar raðir af eldislaxi og silungi í stórmörkuðum eins og á myndinni hér að neðan, heldur en af hressilegum afla stangveiðimanna. Þessi mynd er tekin í stórmarkaði rétt við höfnina í Bergen í Noregi. Hér er ekki einn einasti villtur fiskur á myndinni, þetta er allt eldisfiskur úr innfjörðum Noregs og þetta fiskborð er rómað fyrir stærð sína, úrval og umfang.

    Frá Bergen í Noregi
    Frá Bergen í Noregi

    Ég velti því fyrir mér hvaða ummæli vinur minn á Instagram léti falla ef ég mundi birta þessa mynd þar. Þegar ég lék mér að þessu í huganum, sá ég hann fyrir mér með gómsætt sushi úr eldislaxi í glansandi plastboxinu sínu á leið heim til sín að dissa stangveiðimenn á Instagram. Verði honum að góðu, vonandi veit hann að plastboxið endar í holdi sjávardýranna sem síðan verða notuð sem fóður í eldislaxinn sem hann svo étur í sushi eftir einhver ár. Á meðan ætla ég að fá mér ristað brauð með reyktum eða gröfnum urriða úr Veiðivötnum.

     

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Silungur vs. silungur

    24. apríl 2016
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Það er margt að breytast í umhverfi veiðimanna á Íslandi þessi árin. Veiðimenn verða varir við aukna ásókn erlendra aðila í veiðileyfi og veiðileyfasalar bregðast við með því að hækka verð og jafnvel gengistryggja heilan- og hálfan dag í ám og vötnum. Það er eiginlega alveg sama hvort maður ber veiðileyfi saman við innlendar vísitölur eða erlenda gjaldmiðla, það er stígandi í verðum veiðileyfa og þau virðast ekkert lækka þótt illa ári, þá standa þau í stað en hækka svo bara þegar betur árar.

    Að þessu sögðu, þá verð ég líklegast að viðurkenna að ég hef aðeins verið áhorfandi að laxveiðileyfum á Íslandi undanfarin ár og ekki lagt í nein kaup á slíkum leyfum og það kemur verðlagningu eiginlega ekkert við. Að vísu hafa einnig orðið nokkur umskipti í silungsveiðileyfum hin síðari ár og þá sérstaklega í vötnum. En það breytir því ekki að mér finnst einfaldlega skemmtilegra að eiga við silung heldur en lax og guði sé lof kemst maður ennþá í silungsveiði án þess að fórna handlegg eða lífsnauðsynlegum líffærum í skiptum fyrir dag í góðu vatni. Silungur er vissulega laxfiskur, en hann hagar sér allt öðruvísi í vatni og á pönnu, svo ekki sé farið að bera saman villtan silung og eldislax sem er töluvert í umræðunni þessa dagana.

    Hér á Íslandi er ekki um margar tegundir ferskvatnsfiska að ræða. Við erum með silung, urriða og bleikju og svo lax. Að auki finnst hér álar og hornsíli sem afskaplegar lítið er um að menn veiði á stöng. Stuttur og hnitmiðaður listi og því ætti þetta ekkert að vefjast fyrir mönnum. Þess ber þó að geta að silungur er víðast þekktur fyrir að haga sér nokkuð breytilega eftir því hvort hann syndir í straumvatni eða stöðuvatni. Sumir veiðimenn ganga svo langt að segja að hamskipti silungs séu algjör eftir því hvort hann berst í straumi eða svamli um í vatni, það sé eins og kvarnirnar skipti um gír eftir því hvar hann heldur til. Ég hef heldur takmarkaða reynslu af veiði í straumvatni miðað við stöðuvötnum og því e.t.v. ekki dómbærastur um hegðun fiska. Ef eitthvað er, þá gæti ég best trúað því að silungur í straumvatni sé töluvert skarpari heldur en sá í stöðuvatninu. Í það minnsta hafa þeir oftar séð við mér og tekist að forðast flugurnar mínar í straumi heldur en stöðuvatni.

    Erlendis, og þá á ég helst við Bandaríkin, hafa fræðingar skrifað margar lærðar greinar um atferli silunga eftir búsetu. Þar í landi hafa fræðimenn úr aðeins fleiri tegundum að spila í rannsóknum sínum því mér skilst að það séu einar 8 tegundir silunga á sveimi vestan hafs á meðan við státum okkur af tveimur hér heima. En hvað er það sem skilur á milli í hegðun og atferli eftir búsetu? Jú, silungur í stöðuvötnum á auðveldara með að aðlaga sig að breyttum aðstæðum í fæðuvali heldur en sá sem lifir í straumvatni. Ef ákveðna fæðu þrýtur í straumi, þá hættir hann einfaldlega að éta, leggst fyrir og bíður þess að ætið birtist á ný á meðan silungurinn í stöðuvatninu leitar að nýjum réttum á matseðlinum og heldur áfram að éta. Það væri áhugavert að komast yfir einhverjar niðurstöður úr viðlíka rannsóknum hér heima, þ.e. ef þær hafa farið fram.

    Raunar held ég að við gætum flett töluvert upp í veiðimönnum þegar kemur að svona pælingum. Það eina sem vantar er mögulega að veiðimenn skrái magafylli veidds silungs í ám og vötnum. Þetta er auðvitað háð því að ekki sé öllu sleppt sem veitt er eins og víða er farið að tíðkast. Það er jú hægt að selja sama fiskinn oftar ef honum er sleppt á milli taka.

    Urriði í straumi
    Urriði í straumi

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Ályktun gegn sjókvíaeldi

    15. apríl 2016
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Á vel sóttu málþingi Landsambands stangaveiðifélaga og Landssambands veiðifélaga í Háskólabíói þann 14. apríl 2016, var eftirfarandi ályktun samþykkt:

    Fundur í Háskólabíó 14. apríl 2016 mótmælir harðlega áformum um stóraukið laxeldi í sjókvíum í fjörðum á Íslandi. Reynslan sýnir að lax- og silungsstofnum er mikil hætta búin fari svo fram sem horfir.  Fundurinn hvetur alla til aðgerða á grundvelli laga, stjórnmála og náttúruverndar gegn þessari alvarlegu vá sem nú steðjar að íslenskum veiðiám.  Fundurinn vekur athygli á að sjókvíaeldisfyrirtækin, sem flest eru að stórum hluta í eigu erlendra aðila, hafa nú fengið þessa auðlind hafsins afhenta í formi ókeypis laxeldisleyfa og án mikils endurgjalds.  Fundurinn skorar á stjórnvöld að láta viðkvæma náttúru landsins njóta vafans þegar ákvarðanir eru teknar um rekstrarleyfi fyrirtækjanna.

    Margt fróðlegt kom fram í málflutningi framsögumanna og margir neikvæðir vinklar á áhrif sjókvíaeldis dregnir fram í dagsljósið. Sjálfum fannst mér löngu tímabært að draga með skeleggum hætti fram í dagsljósið áhrif og ógnir sjókvíaeldis á aðra stofna en laxa, svo sem sjóbleikju og birting, en það gerði Erlendur Steinar Friðriksson með ágætum í erindi sínu.

    Málþingið í heild sinni var tekið upp og ég gerir mér vonir um að það verði aðgengilegt á samfélagsvefjum innan tíðar þannig að þeir sem ekki höfðu tök á að mæta geti hlýtt á framsögur og fyrirspurnir í heild sinni. Þar til svo verður geta áhugasamir kynnt sér einkar áhugavert erindi Ella Steinars frá því í apríl 2015 hér að neðan.

    Sigurður Guðjónsson, forstjóri Veiðimálastofnunar
    Sigurður Guðjónsson, forstjóri Veiðimálastofnunar í pontu

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Skrá, já takk

    13. apríl 2016
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Síðastliðinn vetur var ég að grúska í fjölda greina um silung og silungsveiði á Íslandi. Það er alltaf töluverður pakki af skýrslum sem lagðar eru fram á vef Veiðimálastofnunar og svo koma sjálfstætt starfandi líf- og fiskifræðingar annað slagið með áhugaverðar greinar.

    Ég las til dæmis nokkrar greinar þar sem rannsóknir á silungs- og laxveiði voru bornar saman eða í það minnsta tæpt á því sem skilur þessar rannsóknir að. Það kom svo sem ekkert á óvart að rannsóknir á silungastofnum hér á landi hafa ekki verið eins viðamiklar og rannsóknir á laxi og laxagengd, en samhljómur skýrslnanna um vöntun á skráningu silungsveiði kom mér svolítið á óvart.

    Veiðiskýrsla
    Veiðiskýrsla

    Mikið væri nú óskandi að veiðimenn tækju sig saman nú í sumar og settu sér það markmið að skrá afla eins og hann kemur upp úr vötnunum okkar þannig að hægt væri að skila skýrslum til Veiðimálastofnunar eins og mælst er til um. Þá hefðu svona nördar eins og ég eitthvað til að lesa næsta vetur.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Bandormar í fiski

    12. mars 2016
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Bandormur fjárlaga er nokkuð þekkt fyrirbæri þar sem ein breyting í fjárlögum hefur keðjuverkandi áhrif á önnur lög sem þarf því að breyta. Margir hafa horn í síðu þessa bandorms, treysta ekki alveg öllu sem laumast þarna inn og getur haft áhrif á allt annað en það sem upphafleg fjárlög innihéldu. Það sama má segja um bandorm í náttúrunni. Hann er ótukt sem smitað getur hressilega út frá sér.

    Nokkuð reglulega senda veiðimenn frá sér myndir af innyflum fiska og spyrjast fyrir um hvað sé eiginlega á ferðinni, fullt af hvítum kúlum og allt gróið saman. Flesta þessara samgróninga má rekja til bandorma. Þeir teljast til flatorma, Plathelminthes og hreiðra um sig í iðrum manna og dýra. Fjöldi bandormstegunda finnast í fiski á og við Ísland. Bandormar sækja alla sína næringu til hýsilsins og festa sig gjarnan í líffæri hýsilsins með krókum sem eru staðsettir á höfði ormsins.

    Samgróningar í bleikju – © Eiður Kristjánsson
    Samgróningar í bleikju – © Eiður Kristjánsson

    Bandormur í fiski er útbreiddur á Íslandi. Hér á landi finnast nokkrar tegundir bandorma en segja má að tvær þeirra séu kunnastar; Eubothrium (skúformur) og Diphyllobothrium (fiskiandarmaðkur / laxamaðkur).

    Skúformur finnst nánast í öllum laxfiski á Ísland svo einfalt er það. Ormurinn notar laxfiska sem lokahýsil á lífsleiðinni og hefst helst við í meltingarvegi þeirra, gjarnan í skúflöngum og þaðan fær hann viðurnefni sitt. Egg ormsins berasta út í vatnið með saur fisksins þar sem þau eru étin af örsmáum krabbadýrum þar sem ormurinn þroskast. Hringrásin lokast svo við að sviflægur fiskur étur þessi krabbadýr eða verður sjálfur stærri fiski að bráð. Hér á landi finnast tvær tegundir skúforma, önnur herjar helst á bleikju en hin á urriða og lax. Sú síðar nefnda getur orðið allt að 1 metra að lengd, en sú fyrri aðeins þriðjungur þeirrar lengdar. Fiskur drepst sjaldnast þótt sýktur sé, en sé sýkingin veruleg dregur óhjákvæmilega úr vexti fisksins þar sem töluverð næring fer til ormsins og mótstöðuafl fiskins gegn sjúkdómum þverr. Skúformur og fiskiandarmaðkur eiga það sameiginlegt að þeir ganga sjaldnast það nærri lokahýsil að hann drepist, því það er þeim í hag að lokahýsill geti fóstrað eins marga kynþroska orma og hægt er.

    Lífsferill fiskiandarmaðks er örlítið flóknari heldur en skúformsins. Þessir ormur nýtir fisk sem millihýsil því lokahýsill er fiskiæta, fuglar og spendýr. Egg berast frá lokahýsil í vatn með saur þar sem smágerð krabbadýr éta þau, rétt eins og í lífsferli skúforms. Í tilfelli fiskiandarmaðksins eru krabbadýrin aftur á móti étin af millihýsil, fiski þar sem lirfurnar brjóta sér leið út úr meltingarveginum og dreifa sér um kviðarhol hans. Lirfurnar hjúpa sig hvítleitum þolhjúp, yfirleitt kúlulaga og bíða þess að fiskurinn verði étinn af lokahýsil þar sem ormurinn nær kynþroska og fjölga sér. Verði sýking í fiski veruleg, getur ormurinn breiðst út í hold hans, þunnildi og flök, ásamt því að innyfli gróa saman og fiskurinn verður ófrjór. Ekki er óalgengt að fiskurinn verði horaður, kviðmikill og slappur sem gerir hann að auðfenginni bráð, hvort heldur annarra fiska eða lokahýsils.

    Fiskifræðingar hafa orðið varir við beint samhengi smits og fjölda fugla á og við vötn og því er um að gera fyrir veiðimenn að ganga tryggilega frá slógi og rjúfa þannig hringrás ormsins í náttúrunni.

    Hvorug þessara tegunda bandorms eru hættulegar mönnum, en það er vel skiljanlegt að menn veigri sér við að éta mikið sýktan fisk. Um matseld fisks gilda hér sömu reglur og við hringormi, frystið og/eða hitið fisk upp fyrir 70°C, það drepur orminn.

    Heimildir

    Eldisbóndinn – Eldi bleikju, Hólaskóli

    Athuganir á fiskistofnum, Veiðimálastofnun 1985, Tumi Tómasson

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 3 4 5 6 7 … 14
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar