Því hefur svo sem brugðið við að kaststíl veiðimanna sé lýst með orðum eins og ‚hann veifaði prikinu þarna fram og til baka, upp og niður‘. Í rituðu máli er óskaplega erfitt að gera sér grein fyrir hljómfalli orða og því auðvelt að yfirsjást galsi eða góðlátlegt grín í orðum sem þessum. Sjálfur hef ég notað öfgafullar lýsingar á eigin kaststíl og ekki legið á því að lýsa aðferðum mínum sem einhverju káfi út í loftið með flugustönginni. En, viti menn, það er alveg til í dæminu að veiða fluguna eins og maður viti bara ekkert hvernig eigi að halda á stönginni. Þetta snýst nánast um að hrista fluguna fram af toppinum og láta hana skoppa í loftinu, skittering upp á enska tungu. Aðferðin er helst notuð þegar menn veiða undan vindi eða léttri golu og felst í því að veiðimaðurinn heldur stönginni, aldrei þessu vant, töluvert hátt á lofti, nánast beint upp í loftið og leyfir flugunni að dansa til og frá í vindinum. Annars lagið er slakað á stönginni þannig að flugan sest á yfirborðið, rétt tyllir niður fótunum en tekur sig síða upp aftur og byrjar að flögra rétt við yfirborðið á ný. Auðvitað hafa menn hér í huga athafnir ýmissa flugna þegar þær verpa í yfirborð vatna eða eru ný klaktar og flögra heldur máttvana af stað eftir að hafa þurrkað vængina á yfirborðinu. Ætli ég gæti ekki betur að mér í framtíðinni þegar ég útmála eigin aulaskap, einhver gæti tekið upp á því að halda að ég sé einhver kátínu snillingur.
Hvernig ætli það sé að byrja á fluguveiði án þess að eiga sér leiðbeinanda eða það sem kallað er mentor upp á enska tungu? Eins og málum er háttað í dag, þá er það í sjálfu sér ekkert mikið mál. Næstu setningu má ekki taka sem sjálfbirgishátt: Ég er sjálflærður í fluguveiði, hef ekki notið þess munaðar að eiga mér mentor, en ég held að ég sé alveg þokkalega vel að mér og þetta hefur tekist alveg bærilega hingað til. Ef eitthvað má út á mig og mína veiðimennsku setja þá er æfingaleysi um að kenna. Ég er alveg eins latur við að æfa mig eins og hver annar.
Það er af sem áður var að einn kennir öðrum, maður á mann. Framboð efnis á netinu, í bókum og á mynddiskum er slíkt í dag að menn geta nánast aflað sér allra upplýsinga með einu eða öllu framan greindra. Auðvitað hefði ég getað stytt mér ýmsa þrautargöngu í sportinu með því að finna ‚réttu‘ bókina fyrr eða horfa á ‚réttu‘ myndina oftar. Sumt verður þó aldrei af mannlegum samskiptum tekið. T.d. þegar kemur að því að greina villurnar í kastinu og fá leiðbeiningar við að lagfæra þær. Aðspurður sagði Stefán Hjaltested um daginn að flugukastkennsla fælist í ‚stöðugum skömmum‘ og þessar skammir geta ekki átt sér stað í gegnum netið eða á bók.
Hættan við að það að vera sjálflærður er sú að maður taki upp einhverja vitleysu og festist í henni og þá er eins gott að finna svona gaura eins og Stefán eða Börk Smára og Himma FFF flugukastkennara. Þú getur fundið þá alla hér á síðunni undir Tenglar / Kastkennsla. Eins og Tom Rosenbauer nefnir í The Orvis Guide To Beginning Fly Fishing þá er góður leiðbeinandi gulls ígildi og hann er örugglega ekki sá sem heldur áfram að vera kurteisin uppmáluð eftir að þú hefur mælt þér mót við hann og hrósar öllu sem þú gerir. Má ég þá frekar biðja um gráglettnar athugasemdir í stað þess að borga einhverjum gaur fyrir að ljúga að mér um frammistöðuna. Það er hægt að byggja upp sjálfstraust nemanda án þess að ljúga að honum. Ég geri mér alveg ljóst að ég á langt í land með að vera einhver listamaður í fluguköstum. Svo er það allt annað mál hvort maður vill endilega verða þessi listamaður, hvort þokkalega snyrtileg köst séu ekki nóg ásamt úthaldi til að veiða samfleytt í 8 klst. án þess að verða verulega þreyttur eða skaða sjálfan sig til frambúðar.
Veiðitæknina er hægt að lesa um, horfa á myndbönd og prófa sig áfram með. Samt er hætt við að eitthvað vanti alltaf aðeins uppá. Ég get ekki stoppað DVD diskinn og spurt Kirk Dieter að einhverju sem mér datt í hug einmitt á tilteknu augnablikinu. Ég gæti að vísu smellt skilaboðum á hann í gegnum Facebook, en það er algjörlega óvíst hvort svarið sé nákvæmlega við spurningunni sem brann á mér einmitt á því augnabliki. Góður mentor er líka gulls ígildi, hann getur sagt þér til undir hinum ýmsu kringumstæðum, á einmitt rétta augnablikinu og oftar en ekki með vísdóm sem gengið hefur í arf frá einum mentor til annars.
Þegar flugan tekur bakföll í framkastinu þá er eitthvað að. Nú er ég ekki að vísa til þess að hún taki bakföll af hlátri, heldur þessi leiðindi þegar flugan dettur niður á tauminn sjálfan í stað þess að leggjast fram og út á vatnið.
Þessi hegðun kemur oftast í kjölfarið þess að þú hefur skipt um flugu, valið þér flugu sem er örlítið þyngri eða ekki eins straumlínulöguð og sú fyrri (aukin loftmótstaða). Það fyrsta sem vert er að athuga er hvort þú getir ekki stytt taumaendann um eins og eitt fet eða skipta honum út fyrir einu X-i sverari. Stundum þarf raunar að gera hvoru tveggja. Málið snýst einfaldlega um það að krafturinn í kastinu nær ekki fram í fluguna, nær ekki að flytja hana út á vatnið. Of langur taumur eða úr of grönnu efni er oftast skýringin á þessu. Sverari og/eða styttri taumur flytur meiri orku úr línunni og fram í fluguna.
Fluga í bakfalli
Ummæli
26.12.2013 – Stefán B Hjaltested:Nr 1. Undirstaða er ákveðið gott bakkast nr 2 . Að réttur úlnliðshnikkur komi á hárnákvæmum stað,kl.10,30 -11,00 með ákveðnu stopp. Ég nota oft snöggann þrýsting með þumalfingri á korkinn í stað þess að nota hnikkinn. Með jólakastkveðju, Stefán B Hjaltested.
Í sumar sem leið var ég töluvert að böðlast með flugurnar mínar í straumi. Ég hef ekkert farið leynt með það að oftast var ég einn, alveg aleinn, ekki einu sinni fiskur á svipuðum slóðum. Aðallega vegna þess að ég fór ekki nógu varlega. En, ég notaði hvert tækifæri sem gafst til að prófa tæknina sem greinarnar og allar klippurnar höfðu hamrað á. Eitt af því sem ég átti að ná tökum á var að venda línunni til að lágmarka dragið. Ég ætla rétt að vona að menn hafi skilið þetta, en þetta snýst sem sagt um að menda línunni. Hvað um það, ég prófaði mig áfram, lítið í einu, upp eða niður alveg eftir því hvort straumurinn hafði meiri áhrif á línuna eða fluguna. E.t.v. hef ég horft of mikið á vendingar manna í straumhörðum ám, því fljótlega varð ég var við að öflugar vendingar voru dragbítur á framsetningu púpunnar við botninn. Allt of oft lyfti ég flugunni upp af botninum í þessum tilraunum mínum þannig að hún tók að líkjast skopparabolta meira en skordýri. Það var ekki fyrr en ég létti og mýkti hreyfingarnar, oftar og minna í einu, að flugan hélt sig þar sem ég vildi hafa hana. En svo var það þetta með vendipunktinn. Það tók mig töluverðan tíma að finna hvenær ég ætti að venda þannig að flugan yrði ekki fyrir dragi. Ætli besta tímasetningin hafi ekki verið svipuð eins og þegar maður eldar fisk; venda rétt áður en maður heldur að rétti tíminn sé kominn. Frekar fyrr en síðar.
Ég hef orðið vitni að því þegar kast mislukkast, oftast hjá sjálfum mér en líka hjá öðrum. Mér er það ekkert launungamál að stundum finn ég blóðið spretta fram í kinnarnar þegar kastið klúðrast algjörlega, sérstaklega þegar ég hef grun um áhorfendur á staðnum. Og hvað geri ég þá? Jú, ég reyni bara að gera gott úr þessu öllu saman, bölva hressilega eða tek fram fyrir hendurnar á áhorfendunum og hlæ hæðnislega að sjálfum mér. Ég gæti auðvitað smellt á mig hauspoka af skömm, en þannig er ég nú bara ekki. Það er ekkert óeðlilegt við það að klúðra kasti, en það er algjör óþarfi að bregðast við í einhverju ofboði og draga alla línuna inn og byrja upp á nýtt eins og maður eigi lífið að leysa. Það er ekki til það lélegt kast að það batni við að raska yfirborðinu meira en orðið er með því að böðlast á línunni. Láttu kyrrt liggja, náðu pirringinum úr kasthendinni og leyfði þurrflugunni að fljóta rólega frá fiskinum eða dragðu púpuna inn eins og um besta kast lífs þíns hafi verið að ræða. Fyrir utan það að ég hef oft orðið fyrir því að mislukkað kast hefur einmitt fært fluguna fyrir fiskinn sem ég sá aldrei, þá er aldrei að vita nema fiskurinn sem þú sást færi sig einmitt úr stað eftir mislukkað kast og komi þá auga á fluguna þína. Með því að rífa þurrfluguna af yfirborðinu eða rykkja púpunni af stað, þá eru miklu meiri líkur á að fiskurinn fari einmitt í hina áttina heldur en að hann haldi sig bara á sama stað. Annars sagði góður maður við mig ekki alls fyrir löngu að 9 af hverjum 10 fiskum víkja sér undan flugunni þegar þér tekst akkúrat að láta hana lenda þar sem hann liggur.
Einhver óskiljanlegasta fyrirsögn sem hægt er að hugsa sér, en það sem ég er að reyna að koma á framfæri er hljóðmyndin sem silungurinn heyrir þegar skordýrið dettur alveg óvart í vatnið, bröltir síðan aðeins um áður en það annað hvort nær sér aftur á land eða einfaldlega drukknar. Silungur verður að vísu var við hljóð með öðrum hætti en við, hann skynjar hljóðið með ‚hljóðrákinni‘ sem liggur með síðu hans. En þetta litla ‚plomp‘ getur vakið forvitni hans, viðbragð sem er ósjálfrátt og hann rennur á agnið. Það er kúnst, en ekki ómögulegt, að líkja eftir þessu ‚plompi‘. Þegar kemur að því að leggja fluguna, oftast einhverja púpu, fyrir fiskinn með þessu ‚plompi‘ er ekki verra að kunna skil á Tuck Cast, kannski eins og Carl McNeil framkvæmir það: (verður því miður að spilast á YouTube)