FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Eftir töku

    15. júlí 2011
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Þegar silungurinn hefur tekið og við höfum brugðist rétt við, reist stöngina upp og strengt á línunni er mikilvægt að við höfum fulla stjórn á henni. Örlítill slaki á línu gefur fiskinum færi á að losa sig af með því að skipta snögglega um stefnu í vatninu. Ég tel mig þekkja persónulega nokkra eldri og virtari silunga á Íslandi sem hafa reynslu af því að losa sig af flugu. Þeir eru útsjónarsamir, hægfara og rólegir í tíðinni, bíða eftir því að ég slaki örlítið á, kannski til að teygja mig eftir háfinum, en taka þá á rás að mér eða hnykkja hausnum til annarrar hliðarinnar, helst þeirrar sem er gagnstætt flugunni. Niðurstaðan; þeir halda áfram að lifa villtir í íslenskri náttúru og ég stend eftir með dúndrandi hjartslátt og adrenalínið á fullu. En hvað er þá til ráða? Jú, halda línunni alltaf strekktri og varist hausahnykki og loftköst. Enski frasinn tight lines er engin steypa, höldum línunni strekktri.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Slíta eða vaða

    12. júlí 2011
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Ég hef áður birt smá hugleiðingar um viðbragð okkar við töku, en hvenær vitum við að fiskurinn hefur tekið? Sagt er að við missum af c.a. 75% alls áhuga silungs vegna þess að við finnum ekki tökuna eða stimplum hana sem krak í botni eða grjóti og sleppum línunni lausri í stað þess að halda henni strekktri. Vanir veiðimenn telja sig auðveldlega greina munina á töku og kraki við steina, ég er greinilega bara byrjandi vegna þess að ég treysti mér sjaldnast til að greina þarna á milli. Oftar en ekki kasta ég aftur á sama stað, dreg inn með sömu aðferð og bíð þess að kraka í sama steininn aftur. Nú, ef það gerist ekki þá fyllist ég von um fisk, kasta enn og aftur og breyti jafnvel aðeins inndrættinum. Ef ég festi aftur á móti í steini þá er um tvennt að velja; slíta fluguhnútinn og hnýta nýjan taum og flugu eða reyna öll ráð til að losa eins og t.d. að vaða aðeins út og húkka úr steininum. Kostir og gallar; ef ég slít, þá tapa ég flugu (mér finnst gaman að hnýta flugur þannig að þetta er ekki stór ókostur), ef ég veð út þá á ég á hættu að styggja þann fisk sem mögulega er á milli mín og flugunnar. Fyrir mér er þetta einfalt; ef ég næ ekki að losa fluguna með einföldu móti þá slít ég frekar. Að veiða við botninn kallar á fórnir, ein og ein fluga ásamt nýjum taumaenda vegna þess að þegar við slítum, þá tognar yfirleitt á taumendanum og við verðum að skipta honum út ef við viljum ekki taka sénsinn á að sá stóri slíti.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Magaskellur

    9. júlí 2011
    Kast

    Upp

    Forsíða

    ‚Killing me softly‘ söng Roberta Flack um árið. Mér verður stundum hugsað til þessa lags þegar ég hef verið að berja vatnið í nokkurn tíma og er alveg að missa mig í að þenja köstin út til stóru fiskanna sem eru í dýpinu. Ósjálfrátt slaka ég á og næ köstunum mínum niður um nokkrar kaloríur, eyði minni orku og legg meiri áherslu á mýkt og ákveðni. Að detta svona úr takti þegar illa gengur í veiðinni er nokkuð sem fylgir mönnum víst og þá er um að gera að búa sér til einhvern varnagla sem slær á puttana á manni, færir köstinn aftur niður á það plan sem maður ræður við og framsetning línunnar verður aftur viðunandi. Fluga sem fellur mjúklega á vatnið er vænlegri til veiði heldur en sú sem skellir sér með skvampi í djúpu laugina og hræðir allt og alla frá sér. Snéri maður sér ekki alltaf undan þegar bekkjarfíflið sýndi magaskell í skólasundinu í gamla daga?

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Draugagangur

    17. júní 2011
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Vindhnútar og svipusmellir í framkasti eru eins og draugar sem fylgja fluguveiðimanninum. En draugar þurfa ekki alltaf að vera okkur til ama. Ef við viljum ekki í sífellu vera að snúa okkur úr hálsliðnum til að fylgjast með línunni í bakkastinu getum við framkallað draug með því að telja (í hljóði) frá því við hefjum framkastið og þangað til línan hefur rétt fyllilega úr sér. Ef við teljum upp á nýtt í bakkastinu og höldum í okkur þar til sömu tölu er náð, þá finnum við fyrir drauginum taka örlítið í stöngina okkar. Þessi draugur er að segja okkur að línan hefur rétt úr sér og okkur sé óhætt að hefja framkastið með mun minni líkum á vindhnút eða svipusmelli. Með tíð og tíma hættum við að telja en höldum áfram að finna fyrir drauginum. Galdurinn er að það tekur línuna jafn langan, stundum lengri tíma að rétta úr sér í bakkastinu eins og í framkastinu.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Að aðlagast línunni

    14. júní 2011
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Hingað til hef ég haldið mig við eina stöng í silunginn, 9′ 5/6 með WF6-F línu og komið púpunum mínum niður með því að þyngja þær eða bögglast við að nota sökktaum. Hef raunar alltaf átt í basli með köstin og sökktauminn þegar slynkurinn tekur öll völd og flugan slæst í línuna ef hún kemst þá á annað borð eitthvað fram úr 12 fetunum. En nú hef ég verið að fikra mig áfram með nýja stöng, eilítið léttari með flotlínu nr.5 og sökklínu nr.4. Þetta hefur kallað á nokkrar breytingar á kaststílnum, sérstaklega fyrir WF4-F/S3 línunni, víðari bugur og hægari köst. Sökklína nr.4 sem ætti að vera léttari heldur en flotlína nr.6 virkar bara hreint ekki þannig þegar maður kastar henni, en með ofangreindum breytingum á kaststílnum gengur mér samt betur en með WF6-F og sökktaum. Væntanlega hefur þetta eitthvað með samræmi línunnar og sökkendans að gera, nokkuð sem mér hefur reynst erfitt að ná fram með flotlínu og sökktaum. Ef þér hefur gengið illa með flotlínu og sökktaum, prófaðu þá framþunga, hægsökkvandi línu með allt að 12′ sökkenda í vatnaveiðina.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Kartöflukastið

    11. júní 2011
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Þegar tíðarfarið er hryssingslegt og lítið um að vera í veiðinni leitar maður aftur að hnýtingarbekknum eða fer í huganum yfir kasttæknina, nokkuð sem maður ætti víst frekar að vera að hugsa um síðla vetrar, rétt fyrir tímabilið. Inniæfingar í fluguköstum eru nokkrum annmörkum háðar eins og gefur að skilja, en þar með er ekki sagt að öll sund séu lokuð. Það eru til nokkrar æfingar sem hægt er að taka í bílskúrnum án þess að hætta á að brjóta toppinn af stönginni. Ein þessara æfinga er ‚kartöflukastið‘. Ef fremra og/eða aftara stopp er ekki alveg nógu ákveðið hjá þér er ágætt að taka venjulega kartöflu (ósoðna) og stinga henni á venjulegan matargaffal. Vertu staðsettur c.a. bíllengd frá bílskúrshurðinni og haltu á gafflinum eins og flugustöng með olnbogann upp að síðunni og reistu framhandlegginn þannig að kartaflan nemi við augnhæð. Færðu höndina í aftara stopp og taktu gott framkast með ákveðnu stoppi. Markmiðið með æfingunni er að reyna að losa kartöfluna af gafflinum með fremra eða aftara stoppinu einu saman. Þegar þér svo tekst það, settu hana aftur á og nú aðeins dýpra og endurtaktu leikinn. Þetta hljómar auðvitað allt frekar sauðslega en merkilegt nokk, virkar ágætlega til að skerpa á köstunum.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 11 12 13 14 15 … 19
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar