Ég skaust í Hólmsá síðdegis í gær, sem er eiginlega ekki í frásögu færandi því ég hef verið að skjótast þangað af og til í sumar, bara rétt sisvona til að komast út undir bert loft. Kosturinn við Hólmsá, fyrir höfuðborgarbúa, er náttúrulega sá að það stutt að fara og veiði innifalin í Veiðikortinu og þegar síðdegis- og kvöldstillur eru allt of freystandi til að láta þær framhjá sér fara, þá er Hólmsá góður kostur.

Ég hef ekki farið dult með þá trú mína að fiskarnir í Hólmsá séu búnir einhverju því skilningarviti sem varar þá sérstaklega við því að ég sé á leiðinni eða mættur á svæðið. Sérstaklega á þetta við þá fiska sem halda til neðan við Gunnarshólma og niður að Þjóðvegi 1. Fiskarnir ofan við Gunnarshólma virðast ekki hafa frétt af mér og þar hefur mér gengið snöggt um betur að lokka þá til að taka flugurnar mínar.
Oft hef ég séð fisk neðan Gunnarshólma, oftast aftan frá þegar þeir synda burt með sporðaköstum og látum. En, já ég er þver og hef í sumar lagt fiskana á þessu svæði í einelti og í gær kom að því að þolmörkum þeirra var náð, þeir nenntu ekki lengur að skjótast undan mér.

Þegar ég segi þeir, þá á ég við urriða sem hafa fasta búsetu í ánni, ekki stórvaxnari frændur þeirra sem eiga aðeins leið um Hólmsá upp í Nátthagavatn um þessar mundir og einhverjir veiðimenn virðast vera að eltast við, alveg frá Elliðavatni og upp í Nátthagavatn.

Fyrsti fiskurinn sem var endanlega búinn að gefast upp á mér tók Krókinn #16 á ógnarlöngum Euro Nymphing taum á 11 feta þrist þannig að hann lét alveg finna vel fyrir sér. En, þegar upp á bakkann var komið þá fannst mér greyið heldur slappur og einkennilegur í útliti og sá grunur laumaðist að mér að þessi fiskur væri magn fiskur, þ.e. hefði verið veittur og sleppt aðeins of oft í sumar og jafnvel lengur.
Aðra fiska, sem allir voru töluvert minni, tók ég á þurrflugu eða hefðbunda votflugu sem ég smurði með þurrflugukremi þannig að þær létu gróðurinn í ánni í friði og stuðluðu þannig að jafnaðargeði mínu. Þegar sól fór að setjast, tölti ég til baka og það var ekki laust við að það hlakkaði í mér; mér tókst að þreyta þá. Nú er bara að finna sér nýtt svæði í Hólmsá til að sigra.









Senda ábendingu