Það hefur vonandi ekki farið fram hjá neinum sem fylgist með Febrúarflugum að það er mikið að nýjum hnýturum sem hafa sprottið fram þetta árið. Nú þegar mánuðurinn er alveg við það að vera hálfnaður, þá er fjórðungur þeirra sem smellt hafa hér inn flugu, einstaklingar sem ekki hafa tekið þátt í Febrúarflugum áður. Ef okkur telst rétt til, þá eru samtals 122 hnýtarar búnir að leggja sitt að mörkum í mánuðinum og þar af eru 32 sem eru að sýna flugurnar sýnar í fyrsta skiptið í Febrúarflugum.
FOS má til með að ávarpa þennan hóp sérstaklega og bjóða þá hjartanlega velkomna í hópinn. Mikið af fallegum flugum meðal þeirra sem þessir nýju meðlimir hafa verið að setja inn í mánuðinum og sífellt bætast fleiri meðlimir í hópinn. Kærar þakkir til allra nýrra meðlima, gaman að sjá hve samfélagið okkar fluguhnýtara er að stækka, já eða koma fram í dagsljósið.
Enn sem fyrr réttist örlítið úr kynjahlutfallinu í hópinum, af 1341 eru konur 6% en voru rétt innan við 5% í fyrra. Þetta gengur hægt, en gengur þó. Áfram stelpur!
Já, svona rétt í lokin; flugurnar eru nú komnar vel yfir 500 og við vitum fyrir víst að það eru nokkur hnýtingarkvöld eftir í mánuðinum, þar á meðal Febrúarflugukvöldið á föstudaginn. Eru ekki örugglega öll búin að skrá sig sem ætla að mæta? Ef ekki, þá er um að gera að skrá sig og deila viðburðinum meðal áhugasamra.
Og alveg í blá lokin, þeim sem eiga umfram eða of mikið af hnýtingarefni er bent á Efnaskiptin á Febrúarflugukvöldinu. Mættu með efni sem þig langar að skipta út, hver veit nema einhver annar komi með einmitt það sem þig vantar.

Senda ábendingu