Nú eru Febrúarflugur 2023 rétt handan við hornið og það sem heitið gæti formleg dagskrá liggur fyrir og síðustu styrktaraðilar átaksins hafa verið að tilkynna stuðning sinn síðustu daga.
Eins og undanfarin ár verður heimavöllur Febrúarflugna á Facebook þar sem áhugasamir geta fylgst með þeim flugum sem hnýtarar eru að dunda við í mánuðinum. Þeir sem ekki eru á Facebook geta annað hvort póstað myndum á Instragram og merkt þær með #februarflugur eða sent FOS.IS tölvupóst með myndum og við sjáum um að pósta þeim á Facebook í nafni sendanda.

Þetta árið mun FOS.IS standa fyrir viðburði föstudagskvöldið 17. febrúar kl. 20:00 og hefur Stangaveiðifélagið Ármenn léð félagsheimili sitt að Hverafold 1-5 til afnota þetta kvöld.
Við undirbúning kvöldsins vaknaði sú hugmynd að leyfa fylgjendum Febrúarflugna og hnýturum sjálfum að fylla dagskrá kvöldsins. Eins skemmtilegt og það er að fylgjast með nýjum flugum á netinu, þá er líka áhugavert að sjá hnýtingar í raunheimum og jafnvel nýta tækifærið til að spyrja út í aðferð og efnisval í flugu. Því langar FOS.IS að biðja alla sem sjá áhugaverða flugu í Febrúarflugum og vilja fræðasta meira um hana að setja komment undir innsenda mynd með #langaraðsjá og FOS.IS mun kanna hvort viðkomandi hnýtari sjái sér fært að mæta þann 17. og hnýta eins og eina slíka og mögulega svara fyrirspurnum gesta. Vitaskuld eru allir hvattir til að mæta með hnýtingargræjur, hnýta nokkrar flugur og eiga létta og skemmtilega stund með öðru áhugafólki um flugur og fluguhnýtingar.
Eins og undanfarin ár höfum við haft nokkurn pata af Febrúarflugukvöldum hingað og þangað á vegum stangaveiðifélaga og hnýtingarklúbba í febrúar. Þeim sem vilja koma slíkum kvöldum á framfæri við meðlimi Febrúarflugna og á FOS.IS er velkomið að senda okkur skilaboð á heimasíðu okkar eða á Facebook og við munum koma viðburðinum á framfæri.
Fleira var það ekki að sinni, góða skemmtun kl.00:01 þann 1. febrúar þegar fyrstu flugurnar detta inn á Febrúarflugur 2023.
Senda ábendingu