Febrúarflugur hafa farið með eindæmum vel af stað og að morgni þessa dags þá eru flugurnar komnar vel yfir 300 og útlitið er sérlega gott um helgina fyrir fluguhnýtingar. Spáin gerir ráð fyrir leiðinlegu útivistarveðri víðast hvar um landið, töluverðu frosti og víða gengur á með éljum. Sem sagt; tilvalið veður til að setjast niður við hnýtingarþvinguna og setja í nokkrar flugur.
Mánudagurinn 7. febrúar er fyrsti Þemadagur Febrúarflugna. Að þessu sinni urðu eins efnis flugur fyrir valinu og meðlimir Febrúarflugna eru hvattir til að hnýta slíkar flugur. Til glöggvunar þá eru eins efnis flugur þær flugur sem innihalda aðeins eitt hnýtingarefni fyrir utan krók og þráð.
Það er engin kvöð að taka þátt í Þemadögum Febrúarflugna því eins og venjulega eru allar flugur velkomnar inn í Febrúarflugur, en það gæti verið skemmtilegt að sjá hvað hnýturum dettur í hug að setja saman úr einu hráefni.
Enn fjölgar styrktaraðilum Febrúarflugna og nú hefur Kolskeggur bæst í hópinn og eru styrktaraðilar því orðnir 11 þetta árið. Innan skamms mun FOS.IS kynna þá betur og ýtarlegar til leiks.
Eftir því sem tök eru á setjum við inn myndir úr Febrúarflugum, bæði af Facebook og Instagram inn á FOS.IS og nú þegar eru komnar 300 myndir inn á Febrúarflugur fyrir þá sem ekki hafa tök á að fylgjast með á ofangreindum miðlum. Við minnum millumerkið okkar á Instagram, allar myndir sem merktar eru #februarflugur taka sjálfkrafa þátt í þessu litla átaki okkar allra.
Senda ábendingu