Þetta árið raðast það þannig upp hjá okkur veiðifélögunum að fyrstu bókaðar ferðir okkar eru í rennandi vatn. Svo skemmtilega vill til að þennan dag, þ.e. 17. apríl var slétt ár frá því við veiðifélagarnir fórum í okkar fyrstu veiðiferð 2020 og þá líka í rennandi vatn.
Að þessu sinni bauðst okkur að taka stöng á móti góðum félögum á nýju svæði í Skaftá neðan við ós Tungulækjar. Tveir dagar á viðráðanlegu verði, stutt og snoturt svæði sem hentaði okkur alveg ágætlega. Við gerðum reyndar örlítið meira úr ferðinni austur, fórum í vísindaferð inn með Skaftá á föstudeginum en áin var í töluverðum vexti, kolsvört og óálitleg, þannig að það var lítið bleytt í færi þá, telst eiginlega ekki með.
Laugardagurinn var svolítið blautur, svona klassískur vordagur þar sem örlítið vantaði upp á hitatölurnar, en slapp þó til. Það játast alveg að það tók mig töluverðan tíma að fóta mig í línuvali í Skaftánni. Ég reyndi samsetta línu flot/sökkendi, en ég náði ekki neinu lagi á köstin, hvort sem það var nú mér að kenna (líklegast), stönginni (afar ólíklegt) eða línunni (kemur til greina). Eitthvað fannst mér sökkendinn vera helst til langur og jafnvel of þungur, þannig að ég skipti yfir í flotlínu og valdi mér sökktaum sem var heldur grennri, styttri og ekki eins hraður.
Eftir töluvert marga kaffibolla, nestisát og endalaust gláp á ekkert sem sást í vatninu, kom að því að síminn hringdi. Yngra eintakið af feðgunum sem hafði lagt land undir fót og fært sig í útjaðar svæðisins til suðurs hafði sett í þennan líka rosalega dreka. Þegar við gömlu mennirnir mættum á staðinn, stóð baráttan enn yfir og það var ekki laust við að maður horfði með smá öfund á úthaldið sem bæði veiðimaður og fiskur höfðu í þessari baráttu. Eitthvað sagði mér að þetta færi aðeins á einn veg, þ.e. fiskurinn næðist á land, yrði mældur og sleppt aftur, svo öruggur var strákurinn í viðureigninni. Þegar til átti að taka var málbandið víðsfjarri þannig að umræddur fiskur var mældur með taumaefni og sleppt. Þegar til baka var komið reyndist taumaefnið vera 89 sm að lengd, flottur fiskur.
Eftir þetta var lítið að frétta, í það sem mér fannst vera óendanlega langur tími. Maður smellti af einni mynd í pásu og birti á Insta með þeim orðum að nú væri pása, frá engu. Örvænting þess sem ekki hefur orðið var við fisk lak af myndinni, en þess var síðan ekkert mjög langt að bíða að ég setti í fisk. Sjóbirtingur er jú urriði og ég hef nú alveg tekist á við urriða í vötnum, en sjóbirtingur að vori er ekki fullur orku og viðureignin stóð ekki lengi. Enn og aftur var málbandið víðsfjarri, þannig að hann var mældur við stöngina. Síðar kom í ljós að það eru 81 sm frá enda stangar að fyrstu lykkju.
Ég held að það hafi jafnvel verið í næstu skiptingu sem ég setti aftur í fisk og sá var heldur sprækari, geldfiskur í ágætum holdum en greinilega á leið til sjávar að fá sér í gogginn, 64 sm fiskur. Báðir tóku þeir það sem almennt var talið ólíklegt í birtinginn, Cats Wisker #10
Það hljóp náttúrulega kapp í mannskapinn, en lítið sem ekkert urðum við vör við fisk það sem eftir lifði dags og fórum því tiltölulega snemma í hús, létum heyrast hviss í dósum og flettum fréttamiðlunum og rákum þá augun í þessa umfjöllun, flottur strákurinn.
Sunnudagurinn hóf sig til flugs, bjartur og fallegur en það lá eitthvað í loftinu sem sagði manni að það yrði e.t.v. fátt um fína drætti.

Hitastigið náði sér ekki á flug og veður skipuðust skjótt í lofti, á 10 mín dró ekki bara eitt ský fyrir sólu, þau voru mörg og sum þeirra helltu úr sér rigningu, hagli og slyddu. Það var svo sem í kortunum að það yrði ekki hlýtt þennan dag og það var eins og fiskurinn hefði lesið spánna og ákveðið að fara ekkert framúr þennan daginn. Þann tíma sem við reyndum, urðum við ekki vör við fisk í Skaftá og skoðunarferð (án stangar) inn að ósi Tungulækjar var á sömu leið, ekki sporður í sjónmáli.

Þegar allir voru búnir að fá nóg af gusti og kulda, pökkuðum við einfaldlega saman og héldum heim á leið. Fyrir mér var þetta mjög áhugaverð ferð, ekki endilega vegna fiskanna, heldur vegna þess að mér gafst þarna tækifæri til fylgjast með alveg frábærum veiðimönnum að renna fyrir fisk í straumvatni. Held bara að ég hafði náð að fylla í eitthvert tómarúm í þekkingarbrunninum mínum sem ég hyggst nýta mér í næsta mánuði þegar það verður komið sumar og ég held aftur á þessar slóðir. Sama sýsla, sami hreppur, annað svæði. Takk fyrir samveruna, Björgvin, Örvar Óli og minn fasti veiðifélagi, Þórunn Björk. Þetta var virkilega gaman.
Senda ábendingu