Hver hefði trúað því að það séu slétt 70 ár á milli hnýtaranna sem standa á bak við þessar tvær flugur sem komu inn á Febrúarflugur í dag, en það er nú samt svo.
Þessa flugu hnýtti Hilmar Þór 11 ára og setti inn á Febrúarflugur í dag. Hilmar hefur hrifið meðlimi Febrúarflugna þetta árið með flottum flugum. Sannanlega efnilegur hnýtari hér á ferðinni.
Góðvinur FOS.IS og Febrúarflugna, Stefán Bjarni Hjaltested fangar 81 árs afmælisdegi sínum í dag, en það kom ekki í veg fyrir að hann setti þessa flugu inn í dag.
Annars er það að frétta af Febrúarflugum að fimmhundraðasta innleggið kemur að öllum líkindum inn í kvöld (fimmtudagskvöld). Meðlimum hópsins fjölgar sífellt og telja nú 821 og nýir meðlimir eru ótrúlega duglegir að setja inn myndir, það er gróska í fluguhnýtingum.
FOS.IS stendur fyrir tilraun n.k. mánudag þegar við ætlum að prófa að opna Hnýtingaherbergi með Facebook Room í hópinum. Tilgangurinn er að skapa vettvang þar sem hnýtarar geta án mikillar fyrirhafnar hitt aðra hnýtara á netinu, mögulega sett í nokkrar flugur, kastað fram fyrirspurnum eða hverju því sem þeim dettur í hug. Ef vel tekst til, þá gæti þetta orðið að reglulegum viðburði í hópi Febrúarflugna.
Senda ábendingu