Í lok árs

Nú líður að lokum þessa 10. árs sem FOS.IS hefur verið í loftinu. Þetta hefur verið bæði viðburðaríkt og sérstakt afmælisár svo ekki sé meira sagt. Ef það er eitthvað sem þetta ár hefur kennt manni, þá er það að meta alla litlu hlutina sem undir venjulegum kringumstæðum væru sjálfsagðir.

Þegar þetta brölt mitt fór af stað var tilgangurinn í raun sá einn að halda utan um veiðiferðir, skrá afla, það agn sem fiskurinn tók, tíðarfar og þar fram eftir götunum. Þessar færslur eru nú orðnar í miklum minnihluta þess efnis sem birtist á síðunni og á nýju ári er eins líklegt að snið þeirra breytist eitthvað, það þykir víst ekki lengur smart að geta afla í veiðisögum nú til dags.

Eins og sjá má á myndinni hér að ofan, þá hefur verið nokkuð jafn stígandi í heimsóknum á síðuna þessi 10 ár, ef undan eru skilið árin 2016 og svo það ár sem nú er að líða með rétt um 195.000 heimsóknir. Í einhverju gamni lét ég það út úr mér í upphafi þessa árs að það væri nú gaman að geta rofið milljóna múrinn á árinu, en það skeikaði svo nam 15.000 heimsóknum. Eins og segir; það gengur bara betur næst og ef að líkum lætur skríður heimsóknatalan yfir milljónina fljótlega upp úr áramótunum.

Síðan tók smávægilegum breytingum á árinu, ekkert stórkostlegum þó. Fjöldi greina var svipaður og síðustu ár og það sama má segja um efnistökin. Þau hafa verið og halda áfram að vera það sem mér dettur í hug að setja í orð út frá eigin reynslu og tilraunum.

Febrúarflugur voru að vanda í samnefndum mánuði og tókust frábærlega. Aldrei hafa fleiri fylgst með, aldrei hafa fleiri sótt viðburði sem tengdust átakinu og aldrei hafa jafn margar flugur verið settar inn á hópinn á Facebook og þar með hér á síðuna. Kosturinn við Febrúarflugur er að fjöldatakmarkanir ættu að hafa lítil sem engin áhrif á þátttökuna og það er staðfest að næsta átak hefst 1. febrúar 2021 og stendur til 28. febrúar, sama hvaða sóttvarnarreglur verða í gildi.

Fastur liður á þessum degi ár hvert hefur verið að ýta nýju ári úr vör með dagatali komandi ársins sem jafnframt þjónar lesendum sem flóðatafla árdegis- og síðdegisflóða, tímasetningu sólriss og sólarlags, sem og stöðu tungls og þar með stærsta straums. Dagatalið eða flóðatöfluna má nálgast með því að smella hérna.

Að þessu sögðu óska ég lesendum FOS.IS gleðilegast nýs veiðiárs og þakka ykkur öllum kærlega fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.