Af og til gerist það að úr þeim aragrúa fluguhnýtara sem finnast hér á landi, þá gægist einn hógvær upp úr fjöldanum og fær umsvifalaust athygli fyrir fágað handbragð og flottar flugur. Þeir sem fylgst hafa með Febrúarflugum í gegnum árin, hafa eflaust tekið eftir flugum Eiðs Kristjánssonar. Hér að neðan eru nokkrar sem hann lagði fram í febrúar síðastliðnum.
Það verður nú ekki annað sagt en þessar flugur séu aðlaðandi, hógværar en að sama skapi ögrandi. Þeim sem til Eiðs þekkja kom það því ekkert á óvart að flugan hans (efst til vinstri) var kosinn besta silungaflugan í nýlegri samkeppni Fishpartners.
FOS þóttist vita að Eiður hefði eitthvað fiktað við að taka hnýtingarnar sýnar upp á myndband, en það var ekki fyrr en nú á síðustu vikum að hnýtingarmyndbönd frá honum tóku að birtast á YouTube. Þegar svona nokkuð gerist, þá er vert að vekja athygli á því og koma á framfæri, hreint út sagt frábær myndbönd sem allir fluguhnýtarar og áhugamenn um flugur ættu að berja augum.

Senda ábendingu