Á hádegi í dag, 16. febrúar voru flugurnar í Febrúarflugum orðnar 583. Svo margar flugur hafa aldrei áður komið fram og meðlimum hópsins á Facebook fer enn fjölgandi, eru nú 492. Auk þess fylgist ótrúlegur fjöldi með Febrúarflugum á FOS.IS, þar hafa daglegar heimsóknir farið upp í 1.626 og lang flestir koma við á síðunni sem geymir myndir af þeim flugum sem lagðar hafa verið fram þetta árið, sjá hérna.
Það er ýmislegt sem hnýtarar og gestir á síðunni eru að velta fyrir sér og send fyrirspurnir á mig um. Hér eru nokkrar spurningar sem komið hafa upp ásamt svörum:
Er hægt að finna myndir frá fyrsta árinu (2014) einhvers staðar?
Svar: Nei, því miður er það ekki lengur hægt, það ár voru Febrúarflugur sem lokaður viðburður á Facebook og því miður er þann viðburð ekki lengur að finna á vefnum.
Hvað kostar að vera með í Febrúarflugum?
Svar: Ekki krónu, þú sækir bara um aðild að hópinum á Facebook og setur inn flugu. Ef þú ert ekki á Facebook, þá er þér velkomið að senda mynd á fos@fos.is og við póstum henni í þínu nafni.
Hvað hafa margar flugur komið frá, öll árin?
Svar: Miðað við stöðuna á hádegi í dag (16.feb.2020) þá eru flugurnar orðnar 2.651 Skiptingin á milli ára er eins og sést á kökunni hér að neðan:
Eru vinningar í Febrúarflugum?
Svar: Nei, en heppnir hnýtarar sem verða dregnir úr pottinum í lokin fá veglegar viðurkenningar frá styrktaraðilum Febrúarflugna. Allir sem leggja fram flugur, eiga jafna möguleika á viðurkenningu. Dregið verður úr nöfnum hnýtara óháð því hvort þeir hafi lagt fram 29 eða færri flugur í mánuðinum.
Senda ábendingu