Flýtileiðir

Hvaða fluga virkar best?

Ef einhver er í vafa um mitt álit á fluguveiðimönnum, þá skal þeim vafa útrýmt hér og nú. Fluguveiðimenn eru mjög fyndinn hópur fólks. Það eru ekki aðeins athafnir þeirra á veiðistað sem eru mjög sérstakar, þ.e. að veifa þessu priki fram og til baka með torkennilegum spotta á endanum, áföstu safni af torkennilegu dóti sem glitrar eða ekki. Þetta endalausa takmark þeirra að ná að plata einhverja lífveru sem er aðeins með brot af heila þeirra sjálfra og stæra sig síðan af því, er líka sérstaklega áhugavert.

Að öllu gríni slepptu, þá þekki ég fáa hópa fólks sem eru jafn fastheldnir á skoðanir og athafnir eins og fluguveiðimenn. Á sama tíma eru þeir ótrúlega ginkeyptir fyrir nýjungum eða í það minnsta nýjum hlutum. Auðvitað er þetta alhæfing, en þegar öllu er á botninn hvolft, þá á þetta við um mjög stóran hóp fluguveiðimanna.

Ætli flugur séu ekki ódýrasta birtingarmynd nýjungagirndar fluguveiðimanna. Ég er t.d. þannig að þegar ég sé mynd af nýrri flugu, þá vaknar strax hjá mér spurningin: Hvar ætli þessi virki? Síðan vakna ýmsar aðrar spurningar um efnið, krókinn og fleira. Það er yfirleitt nokkuð langt í að ég velti fyrir mér hvort viðkomandi fluga passi inn í fánuna hér á Íslandi, sé virkilega eins og eitthvað kvikindi sem silungurinn þekkir hér og étur.

Framboð á flugum er óendanlegt og eykst sífellt. Ný efni, nýjar hugmyndir hnýtara og útfærslur virðast ekki eiga sér nein takmörk. Samt sem áður er það nú þannig að flestar flugur eiga sér ákveðna forfeður sem þær líkjast á einn eða annan hátt. Þótt það komi ný fluga fram á sjónarsviðið sem byggir á þekktri formúlu, þá hættir forfaðirinn ekkert að veiða, sú fluga stendur alltaf fyrir sínu. Fyrsti afli nýrrar flugu er auðvitað veiðimaðurinn, hún krækir í mann og lætur mann ekki í friði þar til maður hefur keypt eða hnýtt hana.

Ég er einn þeirra sem tek með mér allt of margar flugur í veiðiferðir. Það er nú betra að hafa vaðið fyrir neðan sig ef fiskurinn vill bara alls ekki þær sem eru í fluguboxinu mínu og þá er gott að geta kíkt í geymsluboxin. Trúlega er því samt þannig farið að mér væri nær að taka með mér gott safn af klassískum flugum sem hafa sannað sig síðustu áratugina, eiga þær í mismunandi stærðum, útfærslum og litbrigðum. Það er trúlega algjör óþarfi að flækja málið svona mikið.

Auðvitað er gaman að prófa sig áfram með nýjar flugur, en þegar öllu er á botninn hvolft þá er það kannski óþarfi að eyða heilu sumri í að prófa eitthvað nýtt þegar það gamla einfaldlega virkar.

Þessi grein var ein af mínum sjálfshjálpar greinum þessa vetrar og er ætlað að hvetja mig til að sýna gömlum flugum meiri athygli og láta þessar nýju aðeins bíða þar til einhver annar hefur prófað þær í þaula. Framundan er febrúar með sýnum Febrúarflugum, þannig að ég lofa alls ekki að fara eftir þessu.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com