Já, ég veit. Jólin eru búin og gott betur en það, en það er bara svona veður í dag að ég tók fram þessar tvær sem lúrðu í jólapakkaflóðinu og mér hefur ekki gefist tími til að lesa vel og vandlega.
Ég byrjaði á því að taka fram At the end of the line eftir hinn velska George Barron. Nú ætla ég að leyfa mér að sletta; My, Oh, My. Þessi bók er alveg hreint frábær lesning, hreint augnayndi og hafsjór fróðleiks fyrir þá sem unna klassískum votflugum í vatnaveiði. Fyrir utan það að George er afskaplega lunkinn hnýtari, þá hefur hann þá gáfu að geta sagt létt og lipurt frá upplifun sinni og reynslu. Ég mæli eindregið með þessari bók, gullmoli.
Eins og ég nefndi, þá er í bókinni að finna hafsjó fróðleiks um vatnaveiði og þá er nú ekki verra að hafa Veiðikortabæklinginn við höndina, fletta upp völdum vötnum og máta í huganum hvar, hver fluga gæti virkað. Enn hef ég ekki fundið það vatn sem þessar flugur ættu ekki samlegð með, hvað þá flugu sem ætti ekki virkar í þessum vötnum. Það verður notalegur laugardagur í kotinu í dag og hugurinn fyllist tilhlökkun fyrir næsta sumri.
Senda ábendingu