Nú eru aðeins 26 dagar þar til Febrúarflugur hefjast og eflaust eru einhverjir byrjaðir að hnýta og mynda flugur til að setja inn á hópinn Febrúarflugur á Facebook.
Að þessu sinni freistum við þess að virkja stangaveiðifélög og hnýtingarhópa hringinn í kringum landið til að taka þátt, hver með sínu nefni og getu. Tölvupóstur hefur verið sendur á vel flest stangaveiðifélögin þar sem sú hugmynd er kynnt að hvetja félagsmenn sína til að merkja flugurnar með hashtag (#) sem tengist viðkomandi félagi. Jafnframt hefur félögunum verið boðið að efna til einhverra samkoma þar sem félagsmenn hittast, hnýta flugur eða njóta fræðslu af einhverju tagi sem tengist flugum eða fluguhnýtingum og kynna það í Febrúarflugum. Ef félögin kjósa að koma þessum viðburðum á framfæri þá er þeim boðið að senda FOS.IS skilaboð þar um og þetta verður auglýst í hópinum og hér á síðunni. Við bíðum spennt eftir viðbrögðum við þessari hugmynd okkar.
Ef þú, lesandi góður, ert meðlimur í hópi eða öðrum félagsskap sem kemur saman og hnýtir flugur, þá er þér einnig velkomið að senda okkur skilaboð og tilgreina hashtag þíns hóps og merkja þitt framlag til Febrúarflugna 2020 með því.
Annars verður átakið með nokkuð hefðbundnu sniði þetta árið, létt og lipurt og allir geta tekið þátt með því að skrá sig í hópinn á Facebook. Engin skuldbinding fellst í þátttökunni, en þeir sem leggja fram flugur eiga möguleika á að hljóta smá viðurkenningu fyrir frá styrktaraðilum átaksins.
Senda ábendingu