Eftir hugljómun Harry‘s hér um daginn, sjá Að vera eins og Harry, þá fór hugur hans til stanga að leita út fyrir stöngina sem valdi hann. Þetta er ekki óalgengt hjá þeim sem hafa náð valdi á sinni fyrstu stöng, stöng sem mögulega fyrirgefur auðveldlega byrjendamistökin í flugukastinu og virkar fullkomlega, en viðkomandi langar að prófa eitthvað nýtt. Á þessum tímapunkti standa veiðimenn frammi fyrir þessu eilíflega vandamáli sem hugtakanotkun framleiðenda stanga getur verið.
Ef þú, lesandi góður nennir ekki að lesa meira, hvað þá næstu tvær greinar um Harry sem eiga eftir að birtast, þá er styttri útgáfan af þeim öllum svona:
Í þessari grein verður sagt frá slow action stöngum sem bogna alveg að 90% niður að handfanginu. Í næstu grein verður sagt frá medium action stöngum sem bogna allt að 60% niður að handfanginu. Síðasta greinin um Harry verður um fast action stangir sem bogna að mestu í efstu 30%.
Á síðari árum hafa stangarframleiðendur snúist af hinum hæga, mjúka vegi og stífnað heldur upp. Hugtakið slow action er nánast horfið úr lýsingum á nýjum stöngum og í dag heita þær orðið full flex eða eitthvað sem gefur til kynna að þær séu sérhannaðar til þess að leggja fluguna fallegar fram. Það hefur í raun sáralítið breyst í þessum stöngum, þær eru ennþá boðnar í lengdum frá 6 fetum og upp í 9 og eru svolítið eins og hálfsoðið spaghettí þegar maður tekur á þeim í veiðiversluninni.
Þessar stangir eiga það sameiginlegt að í kasti með línu og öllu þá svigna þær alveg niður í handfangið og virka hægar. Hvert einasta kast er hlaðið tilfinningu fyrir ferli línunnar, en það er eiginlega eina hleðslan sem talandi er um. Ef fiskur tekur fluguna, þá fer það ekkert fram hjá veiðimanninum og hann finnur fyrir honum alla leið í háfinn. Þetta eru stangirnar sem þurrfluguveiðimenn vilja, lítið afl í þeim og línuhraðinn afskaplega lítill.
Sá sem ætlar með svona stöng í mikið vatn þar sem fiskurinn liggur lengst í burtu á í vændum ótrúlega tíðindalitla veiðiferð, hvað þá ef það blæs einhver vindur.
Senda ábendingu