Það haustar í skorpum

Svo lengi sem jörðin hallar undir flatt og heldur hringferð sinni kringum sólina áfram, þá verða hér árstíðaskipti. Á uppvaxtarárum mínum var það raunar allt annað sem réði árstíðaskiptunum og þær voru aðeins þrjár. Sumarið var þegar frí var í skólanum, haustið þegar ég var sendur út í Kaupfélag til að kaupa stílabækur fyrir skólann og veturinn stóð þar til skólanum lauk.

Í dag upplifi ég allt aðrar árstíðir. Veturinn er þegar ég hnýti flugur, grúska í veiðitengdu efni og læt mig dreyma um sólríka daga í faðmi fjalla og vatna. Að vetri loknum tekur for-vorið við þegar ég get ekki lengur beðið og legg af stað eins og asni út í síðustu vetrarveðrin á síðum nærbrókum innanundir öðrum síðum nærbrókum og helst í Neoprene vöðlum í leit að örvita fiski sem hefur ruglast eitthvað í ríminu.

Þegar svo vorið kemur loksins, þá bíð ég milli vonar og ótta að þrír dagar í röð nái 8°C yfir miðjan daginn og næturfrostið sé ekkert rosalegt. Þegar þetta gengur eftir, þá legg ég af stað í fyrstu alvöru veiðiferðina.

Sumarið er síðan einfaldlega allt of stutt, ef það þá kemur á annað borð. Annars bíð ég alltaf svolítið spenntur eftir því að sumri halli. Þá gengur síð-sumarið í garð og ég tek til við að eltast við feitar og fallegar bleikjur sem hafa náð að bæta á sig nokkrum kvartpundum og örfáum sentímetrum og urriða sem hafa ekki kunnað sér magamál og étið á sig gat.

Næsta árstíð er heldur óræð. Stundum gerir hún vart við sig lítillega, bankar uppá en kemur aldrei alveg inn en þess í stað kemur önnur gusa af síð-sumri með kyrrum og fallegum dögum. Kannski viku síðar kemur þessi óræðna aftur, bankar, rekur nefið kannski örlítið inn en stoppar stutt og eitt skiptið enn tekur síð-sumarið við. Svona getur þetta gengið í töluverðan tíma þar til haustið gerir sig endanlega heimakomið. Þetta er árstíminn sem ég elska því góðu dagarnir inni á milli eru fyllilega á pari við undangengna sumardaga.

Þegar svo haustið nær endanlega að gera sig heimakomið, þá taka undursamar rökkurstundirnar við og maður kastar oft og mörgum sinnum út í myrkrið og veit satt best að segja ekkert hvar flugan lendir. Nú er árstíðin mín, bónusinn á annars rysjótt sumar.

FOS.IS vaknar á haustin og ég reyni að koma upplifun og hugleiðingum mínum í orð og setja hér á vefinn. Ég lofa engu um fjölda greina, stefni á hefðbundnar þrjár á viku vegna þess að ég finn á mér að þetta verði gott haust og enn betri vetur.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.