Á FOS.IS er að finna tæplega 50 kort af vötnum og veiðisvæðum hringinn í kringum landið. Hingað til hefur hending ráðið því hvernig kortin hafa verið útbúin og sköpulag vatna hefur mestu ráðið um útlit og stærð kortanna. Nú hafa öll kortin verið samhæfð á þann veg að þau eru öll af sömu stærð, sami grunntónn í þeim (grár) og hlutföll í hverju korti fyrir sig tilgreind sérstaklega. Öll kortin má finna í umfjöllun um vötnin sem finna má hér.

Þessi nýju kort eru öll teiknuð eftir loftmyndum sem teknar voru árin 2016 og 2017 og ættu því að gefa sem næst því rétta mynd af útliti vatnanna. Verulega hefur verið aukið við merkingar vegslóða, númer vega lagfærð og þjónustumerki sett inn þar sem við á og vitaskuld hafa fengsælir veiðistaðir verið merktir skilmerkilega inn á kortin.
Á næstu mánuðum munu síðan nokkur ný vötn bætast við á vefnum og kort þeirra verða með sama útliti og hér hefur verið getið.