Nú er hálendisfærð farin að taka á sig þá mynd sem margir veiðimenn vilja sjá. Fjallabaksleiðs nyrðri (208) hefur opnað og að sögn er hún í ágætu ástandi, jafnvel fólksbílafær frá Sigöldu og niður í Landmannalaugar. Þar með er fólksbílafært í Frostastaðavatn og Ljótapoll en F208 frá Landmannalaugum og niður að Eldgjá er enn lokuð. Menn verða því að bíða aðeins þar til þeir komast inn að Langasjó (F235).

Vegurinn inn að Veiðivötnum (F228) er reyndar orðinn fær enda búið að opna þar fyrir veiði og vegir, gróður og fiskar í toppstandi. Vel að merkja er enn ófært fyrir Hermannsvík og Eyvík þegar þetta er ritað, en vatnsstaða er ólíkt hagstæðari nú heldur en á sama tíma og í fyrra og því standa vonir til að fært verði í víkurnar innan örfárra daga.
Landmannaleið (F225) frá Landvegi (26) hefur verið opnuð og því fært inn að Landmannahelli / Dómadal og inn að Frostastaðavatni. Þar með er fært inn að öllum vötnunum sem ganga undir heitinu Framvötn. Það er langt síðan ég tók ástfóstri við þessi vötn og nú er ég farinn að hugsa mér heldur betur til hreyfings. Rétt er að taka það fram að nokkur vöð eru á Landmannaleið og ekki er mælt með að fara þá leið nema á 4×4 eða AWD bílum, en sé varlega farið er ekkert því til fyrirstöðu að ferðast með viðhengi þessa leið, hvort heldur tjaldvagn, fellihýsi eða verklegt hjólhýsi.

Í Framvötnum ræður Veiðifélag Landmannaafréttar ríkjum, hið sama og Veiðivötn heyra undir. Þótt aðbúnaður veiðimanna í Framvötnum sé nokkuð annar en í Veiðivötnum, þá er ýmsa þjónustu að fá hjá Hellismönnum við Landmannahelli og vert að kanna gistimöguleika þar, hvort heldur í húsum eða á tjaldsvæði. Veiðileyfi í vötnin má kaupa hjá Hellismönnum við Landmannahelli.
Margir bíða enn eftir að Sprengisandsleið (F26) opni inn að Þúfuveri þannig að fært verði í Kvíslavatn, en flökkusagnir herma að einhverjir veiðimenn hafi þegar gert sér ferð þangað nú í sumar. Mér skilst að vatnsstaða sé í hámarki og menn hafi ekki orðið varir við fisk í því flæmi sem vatnið er nú. Þetta eru að vísu óstaðfestar fréttir og mér hefur ekki tekist að fá upplýsingar um vatnshæð í Kvíslavatni og hvort það megi eiga von á að sjatni í því á næstu vikum eða mánuðum.