Veiðimenn hafa á sér margvíslegt orðspor, sumt af því er satt en flest eru reyndar gömul hindurvitni og kreddur. Það er til dæmis lífseigt að telja veiðimenn í hópi skrautlegustu lygara mannskynssögunnar. Grunsamlegar aflatölur og gríðarleg stærð fiska, sérstaklega þeirra sem sleppa, eru nefndar sem sönnun þessa. Það skemmtilega við þetta orðspor er að veiðimenn ýta gjarnan sjálfir undir það, bera brigður á veiðisögur annarra og leggja síðan eigin stórkostlegar frásagnir í púkkið sem yfirleitt gera ekkert annað en toppa hina meintu skreytni. Aldrei dettur mér í hug að telja þetta til lyga, þetta er krydd sem er sérsniðið að menningu veiðimanna og órjúfanlegur partur af samræðum þeirra í millum.

Góð veiðisaga öðlast oft sjálfstætt líf, stækkar í meðförum og fylgir strangt þeim reglum sem settar hafa verið fram í málsháttum eins og Góð vísa verður aldrei of oft kveðin og Ekki láta góða sögu gjalda sannleikans. En það eru takmörk fyrir öllu, meira að segja veiðisögum. Samfélag veiðimanna er ekki lítið á Íslandi, en fréttir af þessu samfélagi bera þess nú ekki beint vitni. Yfir sumarmánuðina les maður sömu fréttina af veiði og veiðimönnum á nokkrum mismunandi miðlum, rétt eins og eitthvað eitt hafi aðeins gerst og ekkert annað. Verandi sjálfur að ströggla við það heimatilbúna markmið að færa þokkalega gáfulegar greinar á borð fyrir lesendur í það minnsta tvisvar í viku árið um kring, getur tekið á. Því er ekki að leyna að oft hefur mig langað til að taka áhugaverða frétt, breyta orðaröð hennar örlítið og gera að færslu hér á síðunni. Ég hef í 90% tilfella staðist þessa freistingu en ég get vel sett mig í spor þeirra sem láta undan henni og smyrja sömu brauðsneiðina upp á nýtt og bera á borð fyrir lesendur sína. Auðvitað verða svona fréttir svolítið einsleitar fyrir bragðið. Það er lítið krydd í lífið að lesa um sama laxinn á fjórum miðlum, sama vatnsleysið og sömu fluguna, viku eftir viku eftir viku.

Smalar að Fjallabaki

Það er nú ekki svo að ég telji mig til blaða- eða fréttamanna, smalanna eins og ég kalla þá stundum. Starf veiðifréttamanna á Íslandi á mikið skylt með smalamennsku. Það er ekki endalaust sem hægt er að skrifa frá eigin brjósti, það kemur að því að upplifun manna dugir ekki í frétt og því verða þeir að hringja í vin og smala í fréttir. Þá vill auðvitað brenna við að sama rollan er dregin í tvo eða fleiri dilka og eiginlega ekkert við því að gera. Þeir eru nefnilega ekki margir veiðimennirnir sem eru tilbúnir að segja frá að fyrra bragði og því reynir á smalana að finna ærnar sem földust í fyrstu leitum þannig að það endi ekki með því að allri séu að segja sögu sömu rollunnar.

Ekkert af ofangreindu er ástæða þess að heldur rólegt hefur verið á þessari síðu síðustu vikur. Efni síðunnar er ekki byggt á fréttum, það er byggt á sumarlöngum göngum og eigin smalamennsku sem ég legg inn í reynslubankann. Banka sem ég síðan tæmi hægt og rólega yfir vetrartímann. Þar að auki hefur þrek veiðimanna heldur dvínað á þessum árstíma og heimsóknir í september og október hafa alltaf verið heldur fáar á síðunni, rétt á milli 100 – 200 á dag. En veiðimenn eru þrautseigir einstaklingar og þurfa yfirleitt ekki langan tíma til safna kröftum og í byrjun nóvember byrja þeir aftur að kíkja hér inn, lesa og grúska í veiði og veiðimennsku, flugum og fiðri. Um leið og fyrstu vetrarlægðirnar fara af stað taka því nýjar greinar til við að birtast og vonandi veita þær einhverjum fró yfir köldustu mánuðina, verða krydd í undirbúningi næsta sumars.

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.