Ég og veiðifélagi minn vorum náttúrulega við Hlíðarvatn í Selvogi í gær, sunnudag. Að vísu fór mestur okkar tími í önnur verk heldur en að veiða, en þegar um hægðist í gestamóttöku í Hlíðarseli Ármanna, skrapp veiðifélagi minn með góðum kunningjum okkar suður að Mið-Nefi og gerði þar gott mót á þeim stutta tíma sem hún staldraði við. Fórnarlambið var auðvitað bleikja, rétt um 30 sm. sem féll alveg í stafi fyrir Peacock með orange skotti.
Annars var fjölmennt við vatnið í gær en bleikjan sýndi gamalkunna takta og sá við ansi mörgu agni veiðimanna sem reyndu allt hvað af tók frá um kl. 7:00 fram yfir kl. 17:00 að ná henni á sitt band.
Það skal tekið fram að kortið af vatninu sem er að finna hér á síðunni hefur verið uppfært lítillega þannig að vinsælir veiðistaðir við sunnanvert vatnið eru nú inni á kortinu, þ.á.m. vinsæll veiðistaður ofan flundrugildrunnar sem hefur tekið að festast í sessi sem Brúarbreiða. Kortið er að finna í umfjöllun um vatnið hérna.

Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
1 / 0 | 7 / 6 | 0 / 0 | 1 / 1 | 4 / 4 |