Hinn árlegi Hlíðarvatnsdagur veiðifélaganna við Hlíðarvatn í Selvogi verður á sunnudaginn. Þennan dag gefst öllum sem vilja, tækifæri til að heimsækja veiðifélögin við Hlíðarvatn og kynnast vatninu af eigin raun því öllum er heimil veiði frá morgni og fram undir kvöld.
Það er ekki annað að heyra heldur en heitt verði á könnunni hjá öllum félögunum og nægar tröllasögur til áheyrnar fyrir þá sem fá aldrei nóg af slíku.
Allir áhugamenn um stangveiði og þeir sem vilja kynnast sportinu eru hvattir til að gera sér ferð í Selvoginn á sunnudaginn og láta það eftir sér að renna fyrir bleikju því vatnið hefur verið að gefa með besta móti það sem af er sumri.

Veiðifélögin sem standa að Hlíðarvatnsdeginum eru; Ármenn, Stangaveiðifélagið Stakkavík, Stangaveiðifélag Hafnarfjarðar, Stangaveiðifélag Selfoss og Stangaveiðifélagið Árblik.