Næstkomandi mánudag verður lokakvöld Febrúarflugna í Árósum, Dugguvogi 13. Hjörtur Oddsson verður við þvinguna og leiðir gesti um slóðir gúmmílappa á flugum. Hjörtur hefur einmitt verið að setja nokkrar þannig flugur inn á Febrúarflugur síðustu daga og eflaust eru margir sem vilja ólmir kynnast þessari tækni.
Vörukynning kvöldsins verður í höndum Árvíkur, þar sem hnýtingargræjurnar verða allsráðandi enda bíður Árvík upp á ótrúlega gott úrval og gæði slíkra áhalda frá heimsþekktum framleiðendum, þar á meðal má nefna Loon, Stonfo, Griffin, C&F design, Fishpond og svo auðvitað Kamasan önglana sem allir þekkja.
Þess ber síðan að geta að á þessu síðasta kvöldi ætlum við að draga nöfn nokkurra heppinna hnýtara úr hópi þátttakenda og veita þeim viðurkenningu fyrir þeirra framlag til Febrúarflugna þetta árið. Styrktaraðilar átaksins hafa verið svo rausnarlegir og láta okkur í té nokkra glaðninga sem við látum renna til þátttakenda þetta árið með von um að þeir komi sér vel hjá þeim sem hljóta. Auðvitað þætti okkur vænt um að sem flestir þátttakendur sæju sér fært að mæta í Árósa, mánudagskvöldið 27. febrúar á milli kl. 20 og 22 og vera viðstaddir athöfnina.