Eitt er það vefrit sem ég bíð alltaf spenntur eftir að glugga í. Það kemur alltaf út á sama tíma árs og ég hef sagt að það marki upphaf jólabókaflóðsins á hverju ári í mínum huga. Auðvitað er ég að tala um fylgirit Veiðikortsins sem nú er komið fyrir sjónir okkar netverja, vandað og glæsilegt rit að venju.
Í nýjasta tölublaði Angles Edge má finna ágæta grein Fred og Judy-Jones Fraikor um heimsókn þeirra til Íslands s.l. sumar. Eflaust hafa einhverjir áhuga á þeirri grein, alltaf gaman að því þegar Ísland kemst í erlendu pressuna. Meðal staða sem þau heimsóttu var Hólaá, Varmá og Þingvallavatn og auðvitað er Veiðikortsins getið.
Síðast en ekki síst er komið út nýtt tölublað af Southern Trout. Alltaf eitthvað áhugavert að finna þar. Meðal annars nokkur ráð fyrir þá sem enn eiga eftir að ganga frá veiðigræjunum sínum í geymslunni fyrir veturinn.