Um þessar mundir birtast endanlegar veiðitölur sumarsins á helstu fréttamiðlum og veiðimenn spá og spekúlera í þeim af miklum móð. Fyrir þá sem sakna annarra veiðitalna en þeirra sem birtast af laxveiði, þá má geta þess að nýverið voru birtar lokatölur úr Framvötnum fyrir sumarið 2016.

Eins og við mátti búast þá stóð Frostastaðavatn upp úr hvað varðar fjölda fiska; 1110 fiskar af þeim 1670 sem vötnin gáfu samtals af sér í sumar.

Eins og sjá má er þetta besta árið frá 2010, þótt ekki muni miklu á árunum 2011 og 2016. Þess ber að geta að tölur fyrir 2015 vantar úr Framvötnum, en miðað við tíðarfar það sumar er víst óhætt að áætla að það ár hafi ekki toppað 2016 þó það hefði getað slagað upp í 2010.

Eitthvað virðist veiði í Ljótapolli hafa dregist saman s.l. sumar eftir nokkuð gott ár 2014. Enn er þó langt í land að hann nái 2010 sem vel að merkja, var mjög gott ár í Framvötnum heilt yfir eins og sjá má af heildartölum Framvatna 2010 – 2016 hér að neðan.


Ef við færum okkur aðeins vestar, þá hefur veiðin í Löðmundarvatni verið að rétta aðeins úr sér bæði hvað varðar fjölda fiska og meðalþyngd.
Veiðin í öðrum vötnum á svæðinu er svona upp og ofan, Dómadalsvatn með 39 fiska sem er nokkuð í takt við það sem verið hefur á liðnum árum og Herbjarnarfellsvatn með 45 fiskar sem er reyndar umtalsvert meira en árin á undan. Það vekur athygli að Sauðleysuvatn og Eskihlíðarvatn eru að stimpla sig inn eftir nokkurra ára fjarveru af listanum og þar hafa veiðst vænar bleikjur þótt meðalþyngdin sé reyndar frekar döpur enn sem komið er.
Þess ber að geta að veiðitölur Framvatna eru færðar til bókar skv. 80 skýrslum sem skilað var inn á árinu. Heildarlista má finna á vef Veiðivatna, veidivotn.is