Þetta er ekki eina fyrirsögn hér á síðunni sem lesa má með mismunandi áherslum. Þegar ég setti hana niður á blað var ég með ákveðið ákall í huga; það vantar yngri veiðimenn. Velta stangveiði hér á landi er áætluð tæpir 20 milljarðar á ári og sagt er að þriðjungur þjóðarinnar stundi stangveiði. Þetta eru engar smáræðis tölur og ég viðurkenni fúslega að ég á óskaplega litla hlutdeild í þeim. Ég kaupi mjög takmarkað af veiðileyfum, nota Veiðikortið og félagsskírteini í Ármönnum sem hvoru tveggja veita mér aðgengi að ríflega 40 vötnum þar sem ég get veitt eins og mig listir. Og svo ber ég heldur enga ábyrgð á fjölgun veiðimanna á Íslandi og þá komum við að innihaldi pistilsins; yngri veiðimönnum.
Þannig er að ég lét framhjá mér fara og missti af stangveiðiáhuga sona minna. Í kapphlaupi þess að koma mér örugglega fyrir í lífinu tók ég allt of lítið undir beiðnir um að fara að veiða eða taka veiðistöngina með í útilegur og í dag ég sé töluvert eftir því. Ungt fólk fer mikils á mis ef það stundar ekki útiveru og nær tengingu við uppruna sinn eins og stangveiðin bíður uppá. Í dag er að vaxa úr grasi heil kynslóð sem þekkir silung aðeins sem vacum pökkuð flök í stórmörkuðum, reykt eða grafin. Þessi kynslóð þekkir aftur á móti leynda afkima veraldarvefsins út í ystu æsar, á fjölda ‚vina‘ á samfélagsmiðlum og veit allt um skræpóttar nærbuxur poppstjarna sem gægst hafa upp úr buxnastrengjum á óheppilegu augnabliki. Ungar stúlkur í dag roðna þegar maður segir Peacock og strákar segjast ekki vera neitt fyrir svoleiðis. Ég hef ekki hugmynd um hvað þau lesa út úr þessu göfuga heiti flugunnar en grunar að það sé eitthvað neðan beltis.
Þrátt fyrir þennan mikla fjölda Íslendinga sem leggur stund á stangveiði, þá er heilt yfir um litla nýliðun í stangveiði að ræða. Sama á við um félagsstarf stangveiðifélaganna. Félögin eldast hratt og unglingastarf þeirra á undir högg að sækja. Ef fram fer sem horfir þá verða aðalfundir félaganna haldnir á elliheimilum landsins, helst á milli fyrra kaffis og hádegishressingar þannig að menn sofni ekki undir liðnum önnur mál. En hvað er þá til ráða? Ef þú átt ungliða sem er efni í veiðimann þá eru hér mögulega nokkur atriði sem gott væri að hafa í huga:
- Ekki arfleiða neinn að gamla dótinu þínu. Leyfðu krökkunum að velja sér stöng og annan útbúnað, þetta þarf að verða þeirra.
- Bjóddu upp á fjölbreytta dagskrá í veiðiferð, gerðu svolítið úr þessu með því að kaupa eitthvað gott í nesti og millimál.
- Vertu klár með myndavélina, meira að segja enginn fiskur getur orðið að myndefni.
- Veðjaðu á nokkuð öruggt veiðisvæði þar sem fiskurinn tekur, þolinmæði krakka er ekki eins mikil og fullorðinna.
- Ekki gera ráð fyrir löngum veiðiferðum til að byrja með og vertu sáttur við að steinar og spýtur á vatnsbakkanum gætu orðið meira spennandi en flot úti á vatni.
Ef allt gengur upp hjá þér ertu kominn með fullar hendur af spurningum, brennandi áhuga ungs veiðimanns og ómældar ánægjustundir.
Senda ábendingu