Stangveiði er holl og góð íþrótt eins og flestir veiðimenn hér vita. En stangveiði er annað og meira, hún er kjörið tækifæri í nútíma þjóðfélagi til að tengjast uppruna sínum, náttúrunni með fjölbreyttum hætti og er alveg frábært sameiginlegt áhugamál allrar fjölskyldunnar.
Víða erlendis er ungum veiðimönnum gert hærra undir höfði heldur en þeim sem eldri eru. Hér heima þekkjum við að unglingum er víða gert kleift að stunda ókeypis stangveiði, annað hvort einum eða í fylgd með fullorðnum. Nærtækast er að nefna Veiðikortið, Elliðavatn og Vífilsstaðavatn, svo einhver dæmi séu nefnd. Svo má alls ekki gleyma veiðidegi fjölskyldunnar sem Landsamband Stangaveiðifélaga hefur staðið fyrir í fjölda ára.
Því miður fer minna fyrir umfjöllun um unga hversdagsveiðimenn hér heima heldur en víða annarsstaðar. Ef frá eru taldar frásagnir af hetjuveiði einstaka ungliða, er það viðburður að þeir rati á forsíður blaða og vefmiðla. Að mínu viti skýtur þetta nokkuð skökku við því við sem eldri erum, vitum mæta vel að nýliðun hefur nokkuð dregist saman í greininni og þátttaka í félagsstarfi stangveiðifélaga er á undanhaldi.
Tíðarandinn er vissulega annar en var fyrir 10 – 15 árum síðan og því mikilvægt að halda á lofti þeim frábæru veiðimönnum af yngri kynslóðinni sem við eigum, þeir eru öðrum ungmennum fyrirmyndir, ekki við gömlu karlarnir og kerlingarnar sem enn skröltum til veiða af gömlum vana og brennandi áhuga.
Á næstu vikum ætla ég að leggja mitt lóð á vogaskálar umfjöllunar um unga veiðimenn með því að birta nokkrar greinar um unga veiðimenn og hvernig við getum aukið áhuga ungs fólks á því sem er að gerast utan tölvu- og sjónvarpsskjáa sem hafa mikið aðdráttarafl á ungt fólk nú á dögum.
Ef þú, lesandi góður þekkir einhvern veiðimann á aldrinum 10 – 20 ára sem væri tilleiðanlegur að svara nokkrum spurningum og gauka að mér veiðitengdum myndum sem ég mætti birta hér á vefnum, þá bið ég þig um að senda mér skilaboð á póstfangið kristjan (hjá) fos.is
Senda ábendingu