Laugardaginn 27. febrúar verður opið hús í Árósum, félagsheimili Ármanna, að Dugguvogi 13. Húsið opnar kl.14 og verður opið í það minnsta til kl.16, lengur ef sá gállinn er á gestum. Á þessu opna húsi gefst gestum kostur á að kynna sér starfsemi Ármanna, hnýta flugur og spjalla um flugur og fluguhnýtingar við jafnt reynda sem óreynda fluguveiðimenn. Efnt verður til fluguskipta þar sem þeim sem hug hafa á er boðið að leggja 10 flugur í púkk og fara síðan heim með einhverjar allt aðrar 10 í farteskinu í lok dags. Að sjálfsögðu eru allir áhugamenn um flugur og fluguveiði velkomnir á þetta opna hús, óháð því hvort þeir hafi tekið þátt í Febrúarflugum eða ekki. Kaffiveitingar og góður félagsskapur á staðnum eins og Ármönnum einum er lagið.
Nánari upplýsingar um dagskrá Febrúarflugna, síðustu skil og tímasetningu atkvæðagreiðslunnar er að finna hérna.