Framvötn, 29. – 31. júlí

Enginn er spámaður í sínu föðurlandi og sumir ekki einu sinni í öðrum löndum. Bæði íslensku og norsku veðurspámennirnir höfðu spáð heldur hryssingslegu veðri í vikunni fyrir svæðið sunnan Tungnaár en við hjónin létum slag standa og drifum okkur af stað um hádegið á þriðjudag upp að Landmannahelli. Það verður samt að játast að við vorum með plan B í huga ef spárnar rættust. Til að afgreiða veðrið strax í upphafi, þá höfðu allir spámenn rangt fyrir sér. Frá þriðjudegi og fram yfir hádegið í dag, föstudag, var ein samfelld blíða við Framvötnin og við hjónin nutum hverrar mínútu. Landmannaleið (F225) hefur sjaldan verið í eins góðu standi eins og í vikunni, rennislétt og auðfarin þannig að það er engin afsökun fyrir lélegri sókn í vötnin.

Helliskvísl, Hekla í bakgrunni
Helliskvísl og fannhvítur kollu Heklu í fjarska

Við hjónin vorum mætt við Landmannahelli um kl.16 á þriðjudag og ekki löngu síðar vorum við komin í vöðlurnar og mætt í Frostastaðavatnið. Ekki sáum við mikið líf á vatninu að norðan en við leituðum fyrir okkur frá bílastæðinu og inn með fellinu til vesturs án mikils árangurs. Að vísu tók ég þrjár bleikjur á þessum slóðum, þar af eina sem náði matfiskstærð. Þegar styttast fór í hættumál fluttum við okkur til og prófuðum Dómadalsvatnið. Við komum okkur fyrir á grynningunum að sunnan og veiddum á móti öldunni með þeim árangri að ég setti í nokkuð sprækan 2,5 punda urriða sem var kærkomið að takast á við eftir smælkið í Frostastaðavatni.

Sólsetur við Dómadal
Sólsetur við Dómadal

Miðvikudaginn byrjuðum við í Dómadalsvatni og röltum í blíðunni allan hringinn án þess að verða vör við einn einasta fisk. Engar uppitökur, ekkert líf. Af loftmyndum af vatninu mátti ráða að stutt væri í dýpið undan norður bakkanum en eitthvað fannst okkur lítið fyrir því fara. Í það minnsta fórum við fisklaus úr vatninu og héldum í átt að Sauðleysuvatni sem mig hefur lengi langað að skoða. Að vísu fórum við fyrst inn að Hrafnabjargavatni sem skartaði ótrúlega bláum lit undir hádegissólinni. Stórbrotið vatn í fallegu umhverfi.

Af aflatölum síðustu ára má ráða að grisjunar sé þörf í Sauðleysuvatni og það var svo sannanlega okkar upplifun. Minnsta bleikjan var í gríðarlegu magni og í þokkalegu jafnvægi í vexti en um leið og maður setti í tveggja til þriggja ára fisk mátti sjá þessi klassísku einkenni ofsetningar, hlutfallslega allt of stórt höfuð miðað við búk. Til að aðstoða við grisjunina tókum við 23 fiska úr vatninu sem komið var fyrir á góðum stað. Það er eiginlega synd og skömm ef Sauðleysuvatn stefnir í sömu spor og Hrafnabjargavatn, því umhverfi þess er með því fegursta sem finnst á svæðinu. Í einhvern tíma hefði manni dottið í hug að sleppa urriða í svona vatn til að hamla viðkomu bleikjunnar fyrst grisjun er ekki lengur stunduð. Eftir síðbúinn kvöldverð skruppum við í Löðmundarvatn og hjálpuðum aðeins til við grisjunina þar, samtals 10 fiska sem þó voru í mun betra ásigkomulagi heldur en bleikjan í Sauðleysu og örlítið stærri.

Upphaflega höfðum við áætlað að halda til byggða á miðvikudagskvöld en veðrið og kyrrðin einfaldlega slepptu okkur ekki lausum þannig að á fimmtudag mættum við aftur við Frostastaðavatnið. Við höfðum hugsað okkur að tölta inn í hraunið að sunnan og athuga með fisk í víkunum þar.

Uppitökur á Frostastaðavatni
Uppitökur á Frostastaðavatni

Þegar að vatninu var komið var líkt og rigndi, svo mikið kraumaði það. Endalausar uppitökur fiska af öllum stærðum á vatninu eins langt og augað eygði. Töltið okkar inn í hraun varð því heldur lengra í tíma talið heldur en til stóð því hvorugt okkar gat staðist að setja þurrfluguna undir fyrir fiskinn sem tók grimmt á yfirborðinu. Og fiskurinn tók fleira en náttúrulegar flugur, gervidótið okkar vakti líka lukku og um tíma var á í hverju kasti hjá okkur hjónum. Helst tók bleikjan Black Gnat en lét einnig glepjast af Royal Wulff og mínum heimasmíðum. Fiskurinn var misjafn, heldur smár yfirleitt en innan um var einnig stærri fiskur sem nýtist vel til matar. Eftir að hafa æft þurrfluguna í ræmur, héldum við inn í hraunið og enduðum á að koma okkur fyrir við gamalkunna vík þar sem bleikjan leggst gjarnan fyrir í kuldanum. Og ekki brást víkin því á botninum lágu bleikjurnar í góðu skjóli fyrir sól og hita. Eftir nokkrar tilraunir með flugur var það gamli góði Watson‘s Fancy í púpulíki sem sannaði sig og við byrjuðum á því að týna eins til tveggja punda bleikjurnar upp af botninum.

Malli minkur frá Frostastöðum
Malli minkur frá Frostastöðum

Eftir nokkra stund vakti frúin athygli mína á gesti sem bar þar að garði. Sá var svo sannanlega á heimavelli og gerði sig heldur en ekki heimakominn hjá okkur því við máttum hafa okkur öll við að stugga honum frá aflanum. Á tímabili var ég meira að segja í samkeppni við hann um fisk sem hafði látið glepjast af Watson‘s því buslugangurinn kveikti svo í Malla (hann fékk gælunafn eftir u.þ.b. hálftíma dvöl hjá okkur) að hann smellti sér út í vatnið við hlið mér og ætlaði í bleikjuna. Með snarræði vippaði ég bleikjunni að landi og steig á milli þannig að Malli náði ekki til hennar. Öðru sinni varð ég að stugga honum frá því að vaða út í vatnið við fætur mér og oft og mörgu sinnum varð ég að stugga honum frá aflanum. Það vakti athygli okkar að hann skokkaði annars lagið frá okkur til beggja átta og á tímabili vorum við ekki viss hvort hér væri aðeins um einn mink að ræða. Seinna fengum við skýringu á þessu háttarlagi Malla. Hann var með fleiri veiðimenn undir smásjánni því í þar-næstu vík voru tveir aðrir á veiðum og hann skokkaði reglulega á milli okkar og sníkti sér í matinn sem hann síðan færði í greni sitt sem trúlega var aftan við okkur hjónin.

Þegar húma tók að kvöldi og fór að hægjast um í víkinni okkar hófum við mjög rólega ferð okkar til baka að bílnum. Var þar tvennt sem kom til. Fyrst er að telja að fiskarnir sem við hjónin höfðum veitt sigu töluvert í og svo var það veðrið og uppitökurnar á vatninu. Við bara vorum ekki að hafa okkur frá vatninu og tókum því heimferðina í nokkrum áföngum og æfðum okkur með þurrflugna á nokkrum stöðum til viðbótar. Að endingu urðu fiskarnir 82 sem við settum í netin okkar, að vísu alls ekki allir í matfiskstærð en helmingur aflans fór með okkur heim og liggur nú flakaður í frysti og bíður reyks.

Það voru nokkuð þreyttir en ánægðir veiðimenn sem skriðu undir sæng eftir aðgerð í gærkvöldi og tóku lífinu með einstakri ró í morgun þegar þeir tygjuðu sig til heimferðar. Það er ekki síst fyrir það að helmingur fiskanna sem ég tók í þessari ferð voru teknir á þurrflugu að ég er miklu meira en sáttur við þessa ferð og svo eigum við enn eftir að kanna þrenn vötn á svæðinu; Lifrarfjallavatn, Ljótapoll og Blautaver þannig að það er eitthvað til að hlakka til fyrir næstu ferð.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 58 / 60 74 / 71 / 1 15 / 21 17 / 23

Ummæli

01.08.2014 – Stefán Bjarni HjaltestedGlæsilegt hjá ykkur.

05.08.214 – Keli: Skemmtileg lesning og flottar myndir, sérstaklega myndin af minnknum.

Svar: Já, takk fyrir. Mér skilst að Malli karlinn hafi verið að sníkja veiði að ýmsum við Frostastaðavatnið upp á síðkastið sbr. frétt á Vísi.

3 svör við “Framvötn, 29. – 31. júlí”

 1. Stefán Bjarni Hjaltested Avatar
  Stefán Bjarni Hjaltested

  Glæsilegt hjá ykkur.

  Líkar við

 2. Keli Avatar

  Skemmtileg lesning og flottar myndir, sérstaklega myndin af minnknum.

  Líkar við

 3. Kleifarvatn, 13. ágúst | FLUGUR OG SKRÖKSÖGUR Avatar

  […] skreppur eftir sumarfrí í veiði var nú ekkert í líkingu við næstu á undan en ánægjulegt þó að komast loksins aðeins frá daglegu amstri. Fyrir valinu varð að […]

  Líkar við

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com