
Í fyrra smellti ég hér inn greinum um það hvernig væri best að bregðast við Eftir töku og hvað ef fiskurinn reyndist Stökkvari. Þessar pælingar mínar voru aðeins að blunda aftan til í hausnum á mér s.l. sumar og ég prófaði aðeins breytilegar aðferðir þegar ég hafði sett í fisk. Kannski missti ég nokkra í þessum tilraunum mínum en ég svo sem lifi það alveg af. Pælingar mínar í sumar snérust svolítið að því að reyna að lesa í hegðun fisksins eftir því hvernig ég héldi í við hann. Eitt af því sem ég þóttist komast að var að niðurlútur fiskur er hreint ekki svo niðurlútur. Héldi ég laust við án þess þó að gefa honum lausan tauminn voru miklu meiri líkur á að hann tæki rokur út og suður og viðureignin tæki, í það minnsta eins og mér fannst, lengri tíma. Tækist mér að halda svo stíft við að ég næði að halda haus fisksins einhverjum gráðum upp á við, þá tók viðureignin miklu skemmri tíma en ella. Með þetta í farteskinu fór ég á veraldarvefinn og leitaði að samsvörun og fann. Flott lesning fyrir þá sem vilja kynna sér málið er bókin A Fly Fisher‘s Reflection eftir John Goddard.
Ég hef svo sem engan sérstakan áhuga á að blanda mér í umræður um veiða/sleppa, nóg er komið og margt misjafnt hafa menn látið hafa eftir sér þar um. En vilji menn sleppa, þá er hin síðari aðferð hér að ofan væntanlega vænlegri, upp með hausinn og ljúka viðureigninni sem fyrst.









Senda ábendingu