Ætli manni sé ekki óhætt að segja veiðisumrinu 2013 formlega lokið. Komið fram í nóvember og græjurnar eru komnar í geymslu og maður farinn að huga að vetrarstarfinu. Ég hef síðustu árin sett saman smá klippu með völdum myndum úr veiðiferðum sumarsins og nú er komið að frumsýningu þessa árs.
Annars var veiðin frekar í rólegri kantinum þetta sumarið. Að vísu lagði ég 39 sinnum af stað með stöng í farteskinu, en veiðin var aðeins 25 urriðar og 25 bleikjur. Oft verið meiri og oft verið í betra veðri. Engu að síður var þessum stundum vel varið, einn eða í góðra vina hópi. Ætli þetta sumar hafi ekki verið met-sumar að því leitinu til að ég hef trúlega aldrei komið jafn oft heim með öngulinn í rassinum, alls 21 skipti. En, veiðnar ferðir voru því 18 sem gáfu mér 50 fiska sem gerir þá tvo og þrjá-fjórðu fisk þegar gaf á annað borð.
Senda ábendingu