
Það er tvennt blátt sem ég heillast af; vatnið og himininn. Einhver ljósmyndari lét hafa eftir sér að þetta væri útslitnasta myndefni veiðimanna fyrir utan það að reka snjáldur fisksins upp í linsuna. Mér gæti ekki staðið meira á sama um hvoru tveggja. Ég fæ aldrei nóg af því að festa bláma vatns og himins á mynd og ég er afskaplega lítið fyrir það að reka snjáldur fisksins upp í linsuna til að lengja hann um nokkra sentimetra eða bæta á hann pundum, þá læt ég það frekar eiga sig að taka mynd af aflanum. Svona geta nú mennirnir verið misjafnir.