Kannski eru flestir veiðimenn skriðnir í vetrarhýðið, en fyrir okkur sem erum ennþá vakandi er ýmislegt áhugavert að gerast þrátt fyrir að veiðitímabilinu sé að mestu lokið. Sem dæmi um frábæra haust skemmtun má nefna að urriðinn á Þingvöllum, og eflaust víðar, sýnir sínar flottustu hliðar þessa dagana þegar hann leitar upp í Öxará til hrygningar. Stórkostlegt að sjá þá í bunkum í ánni, þó þeir hafi nú verið með rólegasta móti í kuldanum í gær þegar við hjónin renndum upp eftir. Í örstuttu spjalli við Jóhannes Sturlaugsson sem var við merkingar vildi hann þó meina að krafturinn mundi færast í hann aftur um næstu helgi þegar hlýnaði.
Fyrir þá sem ekki vilja eða hafa tök á að skoða urriðann á Þingvöllum má svo alltaf ylja sér innandyra við að fletta haustútgáfum veftímaritanna sem eru einmitt að hellast yfir okkur þessa dagana. Margt fróðlegt á ferðinni þar.
