Oftar en ekki heyrir maður áróður þess efnis að veiðimenn eigi að minnka flugurnar, við séum að egna fyrir silunginn með allt of stórum flugum. Auðvitað er töluvert til í þessu og sjálfur hef ég tekið undir þetta og sagt að við verðum að vera tilbúnir til að breyta út af vananum, vera sveigjanlegir. En við getum líka undirskotið stærðina á flugunum.

Ég rakst á þessar vorflugulirfur um daginn, veiddi þær upp úr og bar nákvæmlega saman við púpuboxið mitt. Og viti menn, hefbundinn #10 var allt of stuttur, beinlínis rýr og ræfilslegur í samanburði við undrasmíð náttúrunnar. Loksins fann ég Peacock sem ég hafði hnýtt á legglangan #8 sem bar næstum við rétta lengd, en var langt því frá nógu bústinn.

Þegar heim var komið, hnýtti ég bústinn skratta á legglangan #8 með góðu undirlagi úr brúnni ull, þakti hann með 5 strimlum af peacock og styrkti með koparvír. Pínulítill rauður broddur, brúnn haus og Frankenstein var fullskapaður. Þetta var beinlínis tröll í púpuboxinu, en í vatn skyldi hann sem hann og gerði. Fyrir þessu trölli lágu fjórar fallegar bleikjur sem stóðust ekki þetta hlaðborð. Við litlum #10 og #12 leit ekki nokkur fiskur, einmitt þeim sem ég hefði trúlega byrjað á að prófa og minnkað síðan niður í #14 eða jafnvel #16 og svo afgreitt málið með fussi og fúlheitum; „Hér er ekki nokkur fiskur„.
Auðvitað skiptir stærðin máli, en ekki endilega á þann veg sem við höfum verið að temja okkur. Gefum lífinu gaum, metum okkur við það sem er til staðar í vatninu og fiskurinn er að snuddast í, þá og fyrst þá verðum við samkeppnishæfir við náttúruna.
Senda ábendingu