Það réðst nokkuð í síðustu veiðiferð, hvernig kvöldunum verður varið hjá mér næstu dagana. Nú er unnið hörðum höndum að því að fylla á fluguboxið hjá frúnni. Black Ghost í nokkrum útfærslum og stærðum og svo var hún eitthvað að tala um flotta marfló sem hún sá á flugur.is, og svo einhver önnur sem var ‘rosalega flott’, auðvitað Peacock og svo…..
Mér tókst nú samt að lauma þremur Dentist í boxið hennar, það verður jú ekki alltaf veður fyrir Black Ghost.
Áhuginn er orðinn svo mikill að þegar ég leit yfir á hennar vallarhelming í gærkvöldi blöstu við mér tvö uppglennt, æðisgengin augu og Veiðiflugur Íslands í öllu sínu veldi. ‘Rosalega eru til margar gerðir af flugum, góða nótt’, og svo var hún lögst á hliðina og dreymdi bolta bleikjur og spriklandi urriða, væntanlega á Black Ghost. Hverju er ég eiginlega lentur í?