Baulárvallavatn og Hraunsfjörður

Þegar ekkert gengur í veiðinni þá má alltaf segja að maður hafi farið í útilegu, skoðunarferð, átt allt annað erindi á veiðislóð heldur en einmitt að veiða. Sem sagt; á föstudaginn áttum við veiðifélagarnir erindi vestur á Snæfellsnes. Og það voru fleiri á ferðinni heldur en við, því ungviði bænda af norðanverðu nesinu var líka á rúntinum með tilheyrandi jarmi þegar því var dreift út um allar koppagrundir í fylgd mæðra sinna.

Veðurblíða föstudagsins var eflaust með eindæmum á stöku stað, en því miður vorum við ekki á þeim slóðum, heldur fórum að Baulárvallavatni þar sem einhver reitingur manna var við veiði. Helst voru menn við ósa Vatnaáar þar sem hún rennur í vatnið að vestanverðu. Engar fregnir höfum við að veiði þeirra né okkar eigin og því líkur hér með frásögn af Baulárvallavatni að þessu sinni. Á ferð okkar í náttstað var að vísu komið við í Hraunsfirði að vestan og þar setti hin helmingur okkar í eina flundru við lítinn fögnuð.

Á laugardaginn var heilsað upp á Hólmara og kastað kveðju á Kerlinguna í Kerlingarskarði sem illu heilli faldi sig að mestu í þokunni sem grúfði þétt yfir þrátt fyrir töluverðan vind. Við ferðafélagarnir vorum sammála um að leita færis og kíkja betur á þessa gömlu þjóðleið síðar.

Eftir einhverja snúninga í Berserkjahrauni drógum við á okkur veiðifatnað og töltum inn að Hraunsfirði úr gryfjunni að norðan. Fyrir okkur varð kunningi okkar við annan mann og höfðu þeir gert ágæta veiði í bleikju og stöku flundrum, en heldur hafði dregið úr tökustuði þegar leið á daginn, enda töluverður vindur og úrkoma í meira lagi. Eftir nokkurn barning tókst mér að plata eina bleikju með rauðum Higa‘s og svo eina til á toppflugu með UV dúsk. Þeirri síðari tókst mér að sleppa en sú fyrri fékk far með okkur í náttstað.

Eitthvað höfðu veðurguðirnir mislesið veðurspá sunnudagsins en þokkalegt verður var þó á nesinu að norðan fram undir seinna kaffi. Á tímabili var meira að segja svo stillt og fallegt að þurrflugur fengu að baða sig við vestanverðan Hraunsfjörðinn. Þær eru reyndar ótrúlega kræsnar bleikjurnar á það sem þeim var boðið. Þrátt fyrir að það væri afskaplega lítið líf að sjá á vatninu, var greinilega aðeins ein ákveðin fluga á matseðlinum og sú fluga fannst ekki í okkar boxum. Ein flundran kom þó á land, en hún fékk hvorki líf né far til byggða.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 2 11 / 12 / 0 / 1 / 6

 

Baulárvallavatn, 16. – 18. ágúst

Það er sagt vera í 193 metra hæð yfir sjávarmáli og vera rétt um 1,6 ferkílómetrar að stærð. Ætli þetta séu mælingar fyrir eða eftir Múlastíflu? Sami vafi er um mesta skráða dýpi; 47 metrar. En hvað um það, við kíktum í Baulárvallavatnið á föstudagskvöldið, röltum vítt og breytt með bökkum þess á laugardag og kvöddum það svo í rigningu á sunnudag. Er eitthvað meira um þessa veiðiferð að segja? Nei, ekki nema ég laumast til að skrá einn urriða á mig og tvo á konuna en ekki voru þeir nú stórir. Raunar slepptum við bæði eitthvað af svo litlum tittum að orðið ‚tittur‘ er í raun ofrausn. Mér, og raunar veiðifélögum mínum líka, virðist ekkert ganga allt of vel með svona djúp vötn eins og Baulárvallavatn.

Kort af Baulárvallarvatni (2013)
Kort af Baulárvallarvatni (2013)

Það er svo merkilegt að í Baulárvallavatn rennur fjöldi áa og lækja; Vatnaá úr Hraunsfjarðarvatni þegar Hraunsfjarðarstíflan er ekki lokuð í bak og fyrir, Moldargilsá úr Moldarmúla, Baulá sem á upptök sín í Elliðatindum, Draugagilsá úr Draugatjörnum og Rauðsteinalækur ofan úr Sátu. Hvort það renni síðan nokkur á úr vatninu er alsendis óvíst. Getur á verið á ef hún rennur í röri? Nei, ekki að mínu viti. Eitt er víst það rennur engin á í gamla árfarveginum sem er synd og skömm en svo sprettur væntanlega Straumfjarðaá fram undan stöðvarhúsi Múlavirkjunar. Það dylst víst engum að mér finnst lítið til um stíflur, sama hvort þær eru til raforkuframleiðslu eða vatnsmiðlunar í laxveiðiár.

Baulárvallarvatn kl.04:30 19.08.2013
Baulárvallavatn kl.04:30 19.08.2013

 

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 19 / 24 / 1 9 / 25 35