Flýtileiðir

Baulárvallavatn og Hraunsfjörður

Þegar ekkert gengur í veiðinni þá má alltaf segja að maður hafi farið í útilegu, skoðunarferð, átt allt annað erindi á veiðislóð heldur en einmitt að veiða. Sem sagt; á föstudaginn áttum við veiðifélagarnir erindi vestur á Snæfellsnes. Og það voru fleiri á ferðinni heldur en við, því ungviði bænda af norðanverðu nesinu var líka á rúntinum með tilheyrandi jarmi þegar því var dreift út um allar koppagrundir í fylgd mæðra sinna.

Veðurblíða föstudagsins var eflaust með eindæmum á stöku stað, en því miður vorum við ekki á þeim slóðum, heldur fórum að Baulárvallavatni þar sem einhver reitingur manna var við veiði. Helst voru menn við ósa Vatnaáar þar sem hún rennur í vatnið að vestanverðu. Engar fregnir höfum við að veiði þeirra né okkar eigin og því líkur hér með frásögn af Baulárvallavatni að þessu sinni. Á ferð okkar í náttstað var að vísu komið við í Hraunsfirði að vestan og þar setti hin helmingur okkar í eina flundru við lítinn fögnuð.

Á laugardaginn var heilsað upp á Hólmara og kastað kveðju á Kerlinguna í Kerlingarskarði sem illu heilli faldi sig að mestu í þokunni sem grúfði þétt yfir þrátt fyrir töluverðan vind. Við ferðafélagarnir vorum sammála um að leita færis og kíkja betur á þessa gömlu þjóðleið síðar.

Eftir einhverja snúninga í Berserkjahrauni drógum við á okkur veiðifatnað og töltum inn að Hraunsfirði úr gryfjunni að norðan. Fyrir okkur varð kunningi okkar við annan mann og höfðu þeir gert ágæta veiði í bleikju og stöku flundrum, en heldur hafði dregið úr tökustuði þegar leið á daginn, enda töluverður vindur og úrkoma í meira lagi. Eftir nokkurn barning tókst mér að plata eina bleikju með rauðum Higa‘s og svo eina til á toppflugu með UV dúsk. Þeirri síðari tókst mér að sleppa en sú fyrri fékk far með okkur í náttstað.

Eitthvað höfðu veðurguðirnir mislesið veðurspá sunnudagsins en þokkalegt verður var þó á nesinu að norðan fram undir seinna kaffi. Á tímabili var meira að segja svo stillt og fallegt að þurrflugur fengu að baða sig við vestanverðan Hraunsfjörðinn. Þær eru reyndar ótrúlega kræsnar bleikjurnar á það sem þeim var boðið. Þrátt fyrir að það væri afskaplega lítið líf að sjá á vatninu, var greinilega aðeins ein ákveðin fluga á matseðlinum og sú fluga fannst ekki í okkar boxum. Ein flundran kom þó á land, en hún fékk hvorki líf né far til byggða.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 2 11 / 12 / 0 / 1 / 6

 

2 svör við “Baulárvallavatn og Hraunsfjörður”

  1. Valur Hentze Avatar
    Valur Hentze

    Þarf ekki að fara að bæta við dálk fyrir Flundrurnar 😉😉🤣

    Líkar við

  2. Kristján Friðriksson Avatar

    Uss, ekki segja þetta, ég legg ekki í það ef veiðifélagi minn fær fleiri flundrur í bráð.
    Kv. Kristján

    Líkar við

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com