FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Taktu þér tíma

    22. mars 2017
    Hnútar

    Upp

    Forsíða

    Ekki er flas til fagnaðar. Hversu oft hefur maður hugsað þetta, of seint. Sérstaklega þegar maður kemur á veiðistað, sér til fiskjar og telur sjálfum sér trú um að ef maður drífur sig ekki af stað, þá noti hann sporðinn og hverfi á brott eins og tundurskeyti. Fyrst er að setja saman stöngina, rólega. Ef maður böðlast við að setja hana saman, festa hjólið og þræða er eins víst að eitthvað fari úrskeiðis. Nú síðast í sumar lá mér svo mikið á að ég gleymdi einni lykkjunni þegar ég var að þræða og ég ætlaði aldrei að ná þokkalegu kasti fyrir vikið. Svo mikill var æsingurinn að ég tók ekki eftir þessum mistökum mínum fyrr en ég var búinn að fæla í það minnsta þrjá fiska undan línunni þar sem hún hlunkaðist fram úr efstu lykkjunni hjá mér. Þetta kostaði auðvitað brölt upp á bakkann aftur, losa fluguna og þræða stöngina upp á nýtt. Ég hefði betur tekið mér skynsamlegan tíma í upphafi. En þetta var ekki það sem ég vildi sagt hafa.

    fos_fluguhnutur_live
    Þolinmæðin uppmáluð

    Að taka sér nægan tíma til að hnýta fluguna á tauminn getur margborgað sig. Hnútur sem hnýttur er í einhverju flasi heldur örugglega ekki eins vel og sá sem hnýttur er í rólegheitum og af nákvæmni. Taktu eftir því hvaða hnútar slitna helst hjá þér í átaksprófun. Ég er næstum viss um að það eru hnútarnir sem hnýttir eru í einhverju offorsi eða óðagoti. Svo eru rólegu hnútarnir yfirleitt miklu fallegri, silungurinn er smekkfiskur sem forðast groddagang.

    Ef hnúturinn þinn lítur ekki eðlilega út eða er óþægilegur viðkomu, kipptu af og hnýttu aftur.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Líkamsrækt

    15. mars 2017
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Getur stangveiði flokkast sem líkamsrækt? Já, tvímælalaust. Hver sá sem hefur klæðst veiðigallanum, spennt á sig bakpokann, hengt á sig háf og aðrar nauðsynlegar græjur, veit að það þarf ekki langan göngutúr til að virkja svitaholurnar og hraða önduninni örlítið. Þegar svo á veiðistað er komið getur hjartslátturinn örvast, adrenalínið streymt og reynt á snerpuna þegar bregðast þarf við örgrönnum tökum silungsins.

    Vísindalegar rannsóknir hafa sannað að rölt á veiðistað í fullum skrúða og klukkutími í fluguveiði getur losað veiðimanninn við 500 – 1500 kaloríur á einum klukkutíma. Til samanburðar skilst mér að klukkutími á göngubretti brennir u.þ.b. 250 kaloríum hjá meðal manneskju.

    Góður dagur í veiði er á við heildstæða vikulanga líkamsrækt. Flugukast er frábær rækt fyrir upphandleggi, hendur og úlnliði ásamt því að mjóbak og herðar njóta góðs af hreyfingunni. Raunar hafa bæklunarlæknar mælt með fluguveiði fyrir þá sem þjást hafa af bakverkjum, hún styrkir og mýkir bakvöðvana. Þetta hef ég sjálfur reynt og notið góðs af eftir bakuppskurð og þráláta bakverki.

    fos_skor_stong_hraun
    Ekki beinlínis léttasta skótauið

    Svo má ekki gleyma fóta- og kviðvöðvunum sem þurfa að hafa sig alla við þegar maður er að klöngrast yfir hraun, á hálu grjótinu eða stendur langtímum saman úti í vatni.

    Stangveiði og þá sérstaklega fluguveiði hægir á aldurstengdri hrörnun fínhreyfinga, nokkuð sem frístundamálarar ættu að hafa í huga. Svo hefur maður séð mörg áhugaverð málverk sem listamaðurinn hefur sótt innblástur til úr stangveiðinni. Svona er hægt að slá tvær flugur í einu höggi, jafnvel þrjár ef maður hnýtir þær sjálfur. Útvistin veitir innblástur að listaverkum og fluguveiðin viðheldur fínhreyfingunum sem maður þarf síðan á að halda á vetrum þegar fluguhnýtingarnar stytta biðina eftir næsta sumri. Maður ætti kannski að taka með sér pappír og pensil í veiðiferðir næsta sumars?

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Mjög litlar flugur

    13. mars 2017
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Mér finnast flugur fara minnkandi með árunum, í það minnsta eins og ég sé þær. Fyrir einhverjum árum var ekkert mál að hnýta flugu #16 á tauminn og leggja hana út á vatnið. Og þetta er nú minnst, þessir litlu krókar og smágerða efni sem maður er bauka við í hnýtingarþvingunni eru eitthvað að skreppa saman með árunum.

    Krókur #18 og #10
    Krókur #18 og #8

    Það er að vísu langt síðan ég tók upp á því að hnýta í gegnum stækkunargler, en þessir litlu krókar halda bara áfram að minnka, ég bara skil ekkert í þessum framleiðendum. Og ég er ekki einn um þetta, því ekki alls fyrir löngu datt ég niður á sambærilegt vandamál eins bloggara og atvinnuhnýtara vestur í BNA. Hann fann eitthvað fyrir þessu líka og þá sérstaklega þegar hann var að spreyta sig á nýrri flugu. Mér fannst það nokkuð sniðugt hjá honum að taka stærri krók, sverara efni og lengri fjaðrir og hnýta eins og tvær til þrjár flugur í yfirstærð áður en hann reyndi við #16 eða #18. Ég prófaði þetta og svei mér þá, það var eins og handbragðið við fluguna sæti eftir í fingrunum þegar ég tók smærri krókinn fram og hnýtti fluguna í réttri stærð.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Að ruglast í talningunni

    8. mars 2017
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Það kemur reglulega fyrir að maður ruglast í talningunni, sérstaklega þegar maður er að hnýta eitthvað lítið kvikindi og allt í einu eru komnir mun fleiri fætur eða fálmara á púpuna heldur en fyrirmyndin segir til um. Sumar sexfætlur eru orðnar að áttfætlum eða þaðan af meiru, hafa tekið á sig mynd margfætlu. Ég hef alltaf látið mér fátt um þennan rugling finnast, enda kunna fiskar ekki að telja síðast þegar ég vissi. Sumar flugur eru einfaldlega þannig að fleiri fætur gera þær bara girnilegri, held ég.

    Ekki bara sex færur á þessari
    Ekki bara sex fætur á þessari

    Aðrar flugur þurfa einfaldlega á mun fleiri fótum að halda heldur en líffræðileg fyrirmynd þeirra segir til um. Tökum sem dæmi þurrflugur. Síðast þegar ég vissi eru flestar flugur með sex fætur en þær einfaldlega fljóta ekki ef við veljum aðeins sex fanir og hnýtum á frambúkinn sem lappir. Stundum verður við einfaldlega að láta fyrirmyndina lönd og leið og hnýta fluguna úr því efni sem höfum til umráða og reyna að líkja meira eftir heildarútliti heldur en smáatriðum. Þær eru nú samt fallegar, þessar veiðiflugur sem maður sér og bíður ósjálfrátt eftir því að þær hreyfist, labbi af stað eða taki sig á loft.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Þoka

    6. mars 2017
    Ætið

    Upp

    Forsíða

    Veiðimenn eru bara mannlegir, rétt eins og annað fólk. Að vísu eru þeir til sem hafðir eru svo upp til skýjanna að þeir nálgast guði, en flestir erum við samt fastir við jörðina þegar öllu er á botninn hvolft. Rétt eins og aðrar manneskjur lærum við mest af því sem reynslan færir okkur og það er einmitt reynslan sem mótar sannfæringu okkar.

    Nýlega las ég áhugaverða grein eftir Lamar Underwood, handbókahöfund þar sem hann smellir fram þessari áhugaverðu setningu Foggy Weather Fishing: Forget About It!  I have never, anywhere, anytime, been able to catch fish when dense fog covers the water.  Ég hélt fyrst að þessi annars ágæti rithöfundur væri að grínast og það kæmi eitthvað tvist í greinina þar sem hann drægi í land, en það fór nú ekki svo, þetta var greinilega hans sannfæring sem væntanlega hefur orðið til út frá hans reynslu. Ég veit ekki hvort Lamar hafi í nokkurn tíma komið til Íslands, en hann hefur örugglega aldrei verið við Frostastaðavatn þegar þokan læðist út á vatnið niður af Dómadalshrauni, fikrar sig yfir vatnið og þéttist við hraunið undir Suðurnámum.

    Þoka á Frostastaðavatni
    Þoka á Frostastaðavatni

    Eflaust fara veiðimöguleikar í þoku mikið eftir því hvort um er að ræða kalda, hráslagalega þoku eða þoku sem losar léttan úða yfir vatnið og hækkar súrefnismagn yfirborðsins. Eins og mér er minnisstætt frá Frostastaðavatni, þá getur klak flugunnar magnast ótrúlega þegar þokan leggst yfir og bleikjan fer hamförum í uppitökum með tilheyrandi færi á þurrfluguveiði. Ég segi því fullum fetum, njóttu þokunnar og veiddu eins og þig lystir, það er mín sannfæring.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Geymdu minningarnar

    1. mars 2017
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Það verður enginn óbarinn biskup og það á við um mig eins og flesta aðra. Fyrstu flugurnar mínar voru ekki merkilegar, beinlínis öll mistök sem hægt var að gera í hnýtingum hrönnuðust upp hjá mér í fyrstu. Þær voru nokkrar sem lentu undir hnífnum og ég skar allt af þeim til að endurnýta krókinn. Fljótlega gerði ég þó verðsamanburð á krókum og lærdómi sem reyndist lærdóminum í vil og ég hætti að skera ljótu flugurnar mínar niður.

    Minningakort
    Minningakort

    Í staðin setti ég smá svamp á pappaspjald og festi upp á vegg við hliðina á þvingunni minni þar sem ég safnaði þeim flugum sem aldrei áttu að koma fyrir fiska augu. Í einhverju bjartsýniskasti útbjó ég aðeins eitt svona spjald til að byrja með. Fljótlega bættust reyndar nokkur önnur spjöld við, en þeim tilfellum fer nú fækkandi sem ég hengi flugu á þessi spjöld. Samt sem áður kíki ég reglulega á spjöldin mín, hristi hausinn svolítið og hugsa með mér; þvílíkt samansafn af ruslflugum. Eftir situr að ég á þarna nokkur víti til varnaðar og hef innan seilingar, það er aldrei að vita nema maður læri eitthvað af þessum mistökum ef maður kíkir annað slagið á þau.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 69 70 71 72 73 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar