Talandi um sjálfsagt atriði sem allt of margir veiðimenn virðast gleyma. Það er ekki margt sem tekur því fram að bregða sér fram á bakka veiðivatns og láta sólina aðeins kitla sig í nefið. Já, einmitt í nefið, því þar ætti sólin að ná til okkar, ekki í hnakkann.
Þessi skuggi styggir engan
Því verður auðvitað ekki alltaf þannig viðkomið að maður geti staðið á móti sól við vatnið, en það má þá snúa sér í það minnsta þannig að hún beri ekki skuggann af manni beint út á vatnið þar sem fiskurinn liggur. Skugginn á það nefnilega til að fæla fiskinn. Raunar fælist fiskurinn ekki sjálfan skuggann, meira hreyfingu hans og það er einmitt tilfellið með skugga okkar fluguveiðimanna, hann hreyfist.
Við sem eru fæddir fyrir og rétt eftir miðja síðustu öld þekkjum öryggisnælur. Mér til furðu virðist þessi stórkostlega uppfinning hafa týnst hjá yngri kynslóðum. Í það minnsta voru ungir menn á mínu heimili alls ekki með það á hreinu hvað öryggisnæla væri þegar þær bárust til tals um daginn. Þeir eru yngri en svo að þeir hafi náð því að vera pönkarar eins og pabbi þeirra.
Öryggisnæla
Hvort sem menn klæðast veiðivesti eða jakka, já eða bara gömlu góðu lopapeysunni í veiði þá er eflaust alltaf einhver staður þar sem maður getur stungið öryggisnælu í borðung eða ermi. Öryggisnælur geta alltaf komið að góðum notum í veiðinni. T.d. stinga lakki úr augum á flugu eða hengja silunganetið saman þegar það rifnar undan öllum fiskunum. Meira að segja silungaháfar hafa þurft á öryggisnælu að halda ef þeir hafa óvart krækst í grjótnibbu og rifnað, svo maður tali nú ekki um slitna axlaról veiðitöskunnar. Og fyrst veiðimönnum finnst þetta sniðug hugmynd, þá væri ekki úr vegi að vera með tvær til þrjár stærðir af nælum við höndina, augun á flugunum eru jú ekki öll af sömu stærð.
Ef hægt er að tala um hefðbundið taumaefni þá dettur væntanlega flestum polymonofilament í hug, eða hvað? Frá því fluorcarbon taumaefni kom fyrst fram á sjónarsviðið, þá hafa menn keppst við að mæra það, það sé gegnsærra, ekki eins hætt við að særast og sökkvi betur. Sumar af þessu er rétt, en annað ekki nema að hluta til.
Flurocarbon er gegnsærra heldur en poly. Já, þetta er fullkomlega rétt en það munar sáralitlu þegar í vatn er komið. Þokkalegt tært vatn hefur ljósbrotsstuðulinn 1.33 Flurocarbon hefur stuðulinn 1.42 og polymonofilament hefur stuðulinn 1.52 Það munar ekki miklu á þessum tölum og munurinn minnkar enn meira þegar við setjum þetta í samhengi við að venjulegt rúðugler er með ljósbrotsstuðul 2.04 Munurinn á fluor og poly taumum er því alls ekki eins mikill og margur vill vera láta.
Hér gæti glampað á taum
Þegar kemur að samanburði á slitstyrk þessara efna, þá hefur flurocarbon vissulega vinninginn, en er þar á móti kemur að það er mun stífara efni heldur poly og teygist síður. Fluorcarbon er hættara við að slitna með hvelli þegar þolmörkum er náð og ég get alveg tekið undir með þeim sem vilja meina að hnútarnir haldi verr í fluor heldur poly. Varðandi það hvort efninu sé hættara við að særast, þá er líklegra að fluor trosni á meðan poly verður hamrað. Þetta liggur víst í því hvernig trefjarnar liggja í efninu. Báðum efnunum er jafn hætt við því að slitna, þau slitna bara með sitt hvorum hættinum.
Sökkhraði fluor er u.þ.b. 3 – 4 IPS (tommur á sekúndu) á meðan poly sekkur þetta rétt um 1 IPS. Í þessu liggur skýringin á því að við veljum hefðbundið poly í þurrfluguveiðina á meðan flurocarbon hentar betur þegar veitt er með sökkvandi línum.
Einu atriði í samanburði þessara plastefna má ekki gleyma og það er umhverfisþátturinn. Fluorcarbon brotnar mun hægar niður í náttúrunni heldur en polymonofilament. Taumaendi úr fluorcarbon er lengur á þvælingi í lífríkinu heldur en poly og flestum okkar þykir nú þegar meira nóg af þeim spottum á ferðinni.
Það er víst ekki nema von að menn spyrji; Hvað er þetta eiginlega, áttu enga aðra flugu heldur en Peacock með orange skotti? Jú, en ég hef sérstakt dálæti á þessari útfærslu Peacock, bæði með og án kúlu. Eftir að hafa reynt ýmsar útfærslur í gegnum árin, þá stendur þessi og original útfærsla Kolbeins Grímssonar upp úr þegar fjöldi fórnarlamba er talinn.
Peacock með orange skotti
En appelsínugult og appelsínugult er ekki það sama. Sérviska mín er sú að hnýta skottið á þessa flugu með UNI Floss Neon 2x Hot Red. Þar með er leyndarmálið upplýst, fyrir utan það að ég nota u.þ.b. fjóra þræði í flugu #10, þrjá í #12 og tvo í #14. Minni krókar fá aðeins einn þráð. Þetta er svo lunkinn litur að mér hefur reynst erfitt að festa hann á mynd þannig að vel sé, en hér að neðan er hann mjög nærri því að vera réttur.
Eins og sjá má, þá er þessi litur mikið meira appelsínugulur heldur en rauður, þrátt fyrir heitið Hot Red.
Önnur sérviska mín við Peacock er að nota gullkúlu og gullvír, ekki kopar. Ég er ekkert viss um að silungurinn geri mikinn greinarmun á því hvort vírinn sé úr kopar eða gullhúðaður, en mér finnst að vírinn eigi að stemma við kúluna og mér dettur ekki í hug að setja koparkúlu á Peacock.
En hvers vegna þetta skott? Jú, ég hef hitt nokkra veiðimenn sem segja að skottið fái bleikjuna til að opna munninn aðeins betur, taka fluguna örlítið betur ef það er skott á henni og þá sérstaklega appelsínugult.
Eitt sinn ljómaði mælaborðið á bílnum mínum skærrauðu aðvörunarljósi framan í mig þegar ég startaði bílnum. Hann fór í gang og ég komst á honum á verkstæðið, hann sem sagt komst áfram og gerði eiginlega sitt gagn en gangurinn var ekki sérstaklega þíður, eiginlega hundleiðinlegur og ekkert skemmtilegt að keyra bílinn. Um leið og tölvan las af bílnum kom í ljós hvað angraði hann, einni stillingu breytt og hann komst í samt lag. Stundum vildi ég óska þess að það væri hægt að bilanagreina fluguköstin mín svona auðveldlega.
Ágæt stutt lína, afleit lengri lína
Líkt og flestir fluguveiðimenn byrjaði ég á einföldu framkasti, bætti svo togi við til að lengja köstin örlítið og svo tvítogi til að ná enn lengra. Það var ekki fyrr en eftir að hafa legið yfir nokkrum tímaritsgreinum að ég gerði mér fyllilega ljóst að lykillinn í öllu þessu var að ná þrengri línuboga. Með því að fylgjast með línuboganum sem myndaðist við tvítogið sé ég að því þrengri línuboga sem ég náði, því meira togaði línan í vinstri hendina sem ég notaði til að halda við. Jamm, þetta virkaði greinilega ágætlega. Svo hætti ég að fylgjast með línuboganum og einbeitti mér að því að lengja í línunni. Þá gerðist bara ekkert og ég stóð eftir og vissi ekki mitt rjúkandi ráð
Það var síðan eftir ábendingu góðs vinar míns og kastkennara að ég komst að því hvað var að. Hraðinn og lengdin á tvítoginu mínu virkaði mjög vel í hæga, stutta kastinu sem ég notaði á meðan ég æfði mig. Þegar til átti að taka og meiri lína lá undir eða öllu heldur úti, þá vantaði töluvert upp á hraðann í tvítoginu og togið var allt of langt hjá mér. Um leið og ég herti á toginu og hafði það aldrei lengra en sem nemum 12“ (þvermál pizzukassa) þá fóru tvítogin mín að virka fyrir lengri línu, línuboginn þrengdist aftur, lína fór að ferðast hraðar og allt féll í ljúfa löð.
Oft á ég við ákveðið frávik í fluguköstum að glíma. Ég tek upp línuna, vinn hana þokkalega upp í fyrsta bakkast, finn aftara stoppið, hröðunina fram að fremra stoppi og endurtek leikinn. Allt leikur í lyndi þar til kemur að því ég ætla að leggja fluguna fram. Þá grípur stundum um sig einhver einhver tryllingur, ég set allt of mikið afl í framkastið, þen stöngina úr hófi og gleymi algjörlega hvar fremra stoppið var í annars ágætum falsköstunum.
Jöfn hröðun, efni í gott kast
Þetta er djöfull að draga og verður undantekningar lítið til þess að ég næ ekki að leggja alla þá línu fram sem ég þó réð við í falsköstunum, að við tölum ekki um nákvæmninna sem rýkur út í veður og vind. Auðvitað veit ég betur, ég á ekkert að auka aflið í síðasta kastinu, ég á nota sömu jöfnu hröðunina og sama fremra stopp og ég gerði áður og leyfa línunni að fljóta eðlilega fram í síðasta kasti.