Talandi um sjálfsagt atriði sem allt of margir veiðimenn virðast gleyma. Það er ekki margt sem tekur því fram að bregða sér fram á bakka veiðivatns og láta sólina aðeins kitla sig í nefið. Já, einmitt í nefið, því þar ætti sólin að ná til okkar, ekki í hnakkann.

Því verður auðvitað ekki alltaf þannig viðkomið að maður geti staðið á móti sól við vatnið, en það má þá snúa sér í það minnsta þannig að hún beri ekki skuggann af manni beint út á vatnið þar sem fiskurinn liggur. Skugginn á það nefnilega til að fæla fiskinn. Raunar fælist fiskurinn ekki sjálfan skuggann, meira hreyfingu hans og það er einmitt tilfellið með skugga okkar fluguveiðimanna, hann hreyfist.