Oft á ég við ákveðið frávik í fluguköstum að glíma. Ég tek upp línuna, vinn hana þokkalega upp í fyrsta bakkast, finn aftara stoppið, hröðunina fram að fremra stoppi og endurtek leikinn. Allt leikur í lyndi þar til kemur að því ég ætla að leggja fluguna fram. Þá grípur stundum um sig einhver einhver tryllingur, ég set allt of mikið afl í framkastið, þen stöngina úr hófi og gleymi algjörlega hvar fremra stoppið var í annars ágætum falsköstunum.

Þetta er djöfull að draga og verður undantekningar lítið til þess að ég næ ekki að leggja alla þá línu fram sem ég þó réð við í falsköstunum, að við tölum ekki um nákvæmninna sem rýkur út í veður og vind. Auðvitað veit ég betur, ég á ekkert að auka aflið í síðasta kastinu, ég á nota sömu jöfnu hröðunina og sama fremra stopp og ég gerði áður og leyfa línunni að fljóta eðlilega fram í síðasta kasti.