FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Að pirra lesendur

    26. nóvember 2018
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Þegar maður er svo flæktur í veiðidelluna að fyrsti viðkomustaður á netinu á hverjum degi er fréttaveita veiðivefjanna, þá er manni víst ekki viðbjargandi. Og það eru alls konar fréttir og leiðbeiningar sem maður fær með morgunkaffinu. Hvernig best sé að gera þetta og hvernig best sé að gera hitt og allt það sem maður er trúlega að gera vitlaust.

    Ég játa það fúslega að sumt af því sem ég les fer oggolítið í taugarnar á mér, þá helst það sem ég veit að ég er að gera vitlaust í veiðinni. Þessi endalausu 10 bestu ráðin og 10 algengustu mistökin sem eru ekki að segja manni neitt annað en það sem maður veit, en vill helst gleyma. Mín helstu rök fyrir því að halda áfram að gera vitleysurnar mínar eru einfaldlega þau að mér líður bara ágætlega í minni eigin vitleysu. Ég er sem sagt að þverskallast við að ráða bót á nokkrum atriðum í veiðinni, helst í kastinu mínu.

    Um daginn rak ég augun í grein sem vísvitandi var skrifuð með mig í huga og hún pirraði mig, Sjö ráð til að ná fluguveiðinni þinni upp. Einmitt, eins og mér veitti nú af fleiri ráðum, en af því þetta voru bara sjö ráð, ekki 10, þá lét ég mig hafa það að renna yfir hana.

    Gott kast er allt í úlnliðnum. Já, hugsaði ég með mér og botnaði fyrirsögnina; ekki brjóta úlnliðinn í kastinu.

    Haltu einbeitingunni á nákvæmni, ekki lengd. Einmitt, en það er bara stundum svo skemmtilegt að ná löngu kasti. Ég veit, ég veit, að það er fiskur líka innan við 40 fetin.

    Notaðu réttu fluguna, rétt. Já, ég veit, ekki veiða á púpu þegar fiskurinn er í síli, ekki nota Black Ghost þegar fiskurinn er í mýlirfu.

    Kunna að taka á fiskinum. Veiddu, taktu á og haltu strengdu þar til fiskurinn er kominn í netið.

    Negldu tímann. Slepptu því að veiða þegar fiskurinn er upptekinn í einhverju öðru en að éta eða þegar hann étur hreint ekki neitt.

    Haltu dagbók. Já, til þess er ég nú að safna þessum veiðiferðum mínum á vefnum.

    Kannaðu ókunnar slóðir. Einmitt það sem ég er alltaf að segja, prófaðu eitthvað nýtt og færðu þig á milli staða, þá reynir á að kunna á eitthvað, ekki veiða upp á vanann.

    Þetta var annars alveg dásamleg grein og ég las hana reyndar frá orði til orðs, einföld og gagnorð og ég var í raun ekkert pirraður, alveg satt. Trúlega ekki nándar nærri eins pirraður og þú, lesandi góður ert núna af því að lesa þessa grein.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Skilmisskilningur

    21. nóvember 2018
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Eitt það skemmtilegasta við stangveiðina að maður lærir alltaf eitthvað nýtt. Þessi setning er ekki ný á þessari síðu, en hafir þú ekki séð hana áður, þá getur líka verið að þú hafir einfaldlega gleymt henni og því kemur hún þér fyrir sjónir núna eins og nýr sannleikur. Þetta er einmitt eitthvað sem ég upplifði síðasta sumar, aðeins of seint.

    Við veiðifélagarnir vorum staddir við stórt og mikið vatn sem að megninu til er jökullitað allt árið. Í vatnið renna nokkrir lækir, tærir og fallegir, en umfram allt eru þeir til muna kaldari heldur en jökulvatnið. Þetta kann að hljóma nokkuð einkennilega en jökulvatnið og agnir þess binda meiri sólarorku heldur en tært bergvatnið sem yfirleitt fylgir lofthita, sem í sumar var ekkert rosalega hár. Þessari staðreynd hafði ég gleymt þegar ég hamaðist við að veiða skilin þar sem lækirnir renna út í vatnið.

    Ég rembdist eins og rjúpan við staurinn og reyndi að setja fluguna mína niður í bergvatnið, meira að segja eins innarlega og mér var unnt þannig að hún hefði nægan tíma til að sökkva og dragast með strauminum út að skilunum. Til að toppa vitleysuna, tók ég yfirleitt alltaf upp um leið og flugan hafði náð skilunum og varð þar af leiðandi aldrei var við fisk. Á sama tíma veiddi veiðifélagi minn með allt annarri aðferð, kastaði upp og út í jökulvatnið, leyfði að sökkva vel og dró að og með bakkanum. Það þarf ekki að fjölyrða um það hvort okkar náði fleiri fiskum.

    Vatnaskil

    Þar sem kalt bergvatnið mætir jökulvatni, þar rennur það oft á tíðum vel inn undir það án þess að við sjáum það með berum augum. Það er ekki síst neðan þessara láréttu skila sem fiskurinn heldur til og e.t.v. ekkert síður heldur en í lóðréttu skilunum sem við sjáum berum augum. Mér hefði því verið nær að leggja fluguna mína niður í jökulvatnið og leyfa henni að sökkva vel niður í bergvatnið sem rann undir jökulvatnið. Það var nefnilega það sem ég lék mér að fyrir tugum ára í Ölfusárós þar sem ferskt vatn rann í hann, því hafði ég einfaldlega steingleymt í sumar þar til ég ámálgaði þetta við góðan kunningja minn.

    Vonandi hef ég náð að koma þessu skiljanlega frá mér, ef ekki þá býst ég við að einhver allsherjar misskilningur skapist sem gæti þá verið skilmysingur.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Gleymdu boxin

    19. nóvember 2018
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Það rifjaðist upp fyrir mér um daginn þegar ég fór aðeins yfir allar flugurnar sem enn héngu á vestinu mínu að ég hafði trassað að ganga frá þeim fyrir ári síðan, þ.e. þegar útséð var að færi ekki í fleiri veiðiferðir. Það var nú ekki svo slæmt að ég hafi gleymt þeim í vestinu, en þær hvíldu allan veturinn í boxunum.

    Út af fyrir sig er þetta ekki neitt stórmál, nema þá að þegar ég kíkti í geymsluboxin mín síðasta vetur þá vantaði alveg heilmikið af flugum svo ég hnýtti upp í skortinn en fann síðan sömu flugur enn í vetrardvala í vestinu mínu. Þeir sem þekkja til mín vita náttúrulega að mér þótti þetta ekkert leiðinlegt, maður á aldrei of mikið af flugum. Hitt var verra að við þessi mistök mín sat ég uppi með tvö flugubox s.l. vor sem voru eiginlega ekki nýtileg lengur, öll sundurstungin, tætt og rifinn og ég gaf mér aldrei tíma í sumar að skipta þeim út.

    Í haust tók ég öll vestisboxin og tæmdi þau yfir í geymsluboxin. Og viti menn, ég held að ég láti jólasveininn vita að mig vanti tvö flugubox í vestið. Held að það sé góð regla að taka til í þeim á haustin og kíkja á ástand þeirra.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Liturinn segir ekki allt

    14. nóvember 2018
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Stundum fær maður svo sterka bakþanka um eitthvað að maður getur ekki annað en grafist fyrir um fullyrðingu sem maður hefur látið út úr sér. Þetta er álíka íþyngjandi og að muna ekki hvað ákveðinn staður, maður eða landshluti heitir og maður linnir ekki látunum fyrr en rétt nafn kemur upp úr kollinum eða vefurinn færir manni rétt svar. Þetta er einhver brestur og það er til ákveðin skammstöfun fyrir þessu, ég bara man ekki í svipinn hver hún er, þarf að gúggla það.

    Ekki alls fyrir löngu þá var ég að teygja á fagurblárri flugulínu á ónefndu túni hér í bæ og að mér vatt sér góður kunningi minn og sagði eitthvað á þá leið að þessi sökklína rennur mjög vel. Já, svaraðir ég, hún rennur mjög vel en þetta er intermediate lína. Viðkomandi hváði þá við og spurði hvort ég væri alveg viss, svona blá lína  teldi hann vera sökklínu. Ég, eins hvatvís og ég nú er, hélt nú að þetta væri intermediate lína og hún væri með sökkhraða upp á 1,5 IPS (ég vissi það nú ekki alveg upp á kommustafinn fyrr en ég fletti henni upp). En ég fékk smá bakþanka þar sem ég átti ekki sjálfur þessa línu, gat verið að veiðifélagi minn væri með sökklínu í höndunum sem ég hafði keypt í einhverjum misgripum fyrir intermediate? Ekki það að mér skilst að hún kunni mjög vel við þessa línu, rennsli hennar og virkni í vatni, þannig að það hefði væntanlega ekki breytt miklu þótt þetta væri sökklína.

    Ég fór á stúfana og fann kassann undan þessari línu og jú, mikið rétt þetta er intermediate lína og hún er blá, meira að segja nokkuð mikið blá. Eftir að hafa þrætt mig í gegnum heimasíður nokkurra línuhönnuða þá komast ég að því að margir þeirra bjóða upp á intermediate línur í litrófi frá nærbuxnableiku, reyndar líka alveg glærar, og út í svarbláar sem margir hverjir tengja við sökklínur.

    Sökklínur hins vegar fann ég flestar frá því að vera svarbláar eða brúnar yfir í það að vera alveg svartar. Flotlínur finnast alveg frá því að vera glærar og út í það að vera æpandi orange, næstum neon litaðar. Liturinn segir okkur greinilega ekkert lengur hvaða lína er hvað og þá fer maður ósjálfrátt að hugsa um að merkja línurnar sínar þannig að maður grípi ekki óvart einhverjar sem er allt annað en maður á von á.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Með teygju á háfinum

    12. nóvember 2018
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Það er víst löngu liðin tíð að ég þurfi að hafa áhyggjur af því að höfuðhár mitt sé að flækjast fyrir, hvað þá að ég þurfi að setja teygju í pönkaraskottið sem ég skartaði síðla á síðustu öld. En ég get samt fundið not fyrir teygjurnar sem er brugðið um spólurnar af taumaefninu sem ég nota, þ.e. þegar taumaefnið er búið.

    Teygja á háfinum

    Þegar háfurinn dinglar á bakinu og maður er að brölta þetta í gegnum runna eða utan í stórgrýti, þá hættir netinu oft til að krækjast í eða festast. Þá er um að gera að vera með svona taumefnisteygju og bregða henni yfir handfangið á háfinum og smeygja netinu undir hana. Einfalt og gott ráð til að forðast þessar óskemmtilegu rasskellingar þegar háfurinn húkkast í og losnar síðan skyndilega.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hlauptu drengur, hlauptu

    7. nóvember 2018
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Hér um árið var seld bók með þessum titli í bílförmum um allan heim. Án þess að fara eitthvað út í efni hennar, þá er það eitt víst að hún snýst ekki um stangveiði. En heiti hennar á alveg erindi til veiðimanna.

    Þegar fiskur tekur á rás, tekur alla línuna út af hjólinu og fer langt með alla undirlínuna, þá á það sér yfirleitt tvær mögulega ástæður. Fyrir það fyrsta getur fiskurinn verið miklu mun sterkari heldur en veiðimaður eða búnaður gerir ráð fyrir og hann stefnir beinustu leið út. Yfirleitt ekkert hægt að gera nema reyna að stilla bremsuna, hægja á fiskinum og vona hið besta. Hin ástæðan er sínu verri, fiskurinn tekur á rás til hliðar, bremsan ræður ekkert við fiskinn og veiðimaðurinn stendur kyrr. Annað hvort lamaður af ótta eða einfaldlega of latur til að hreyfa sig.

    Ekki drengur og hreint ekki latur veiðimaður

    Það þarf ekki að fjölyrða að síðari ástæðan er ekki tekin gild. Veiðimaður þarf að vera tilbúinn að hreyfa sig, elta fiskinn og á sama tíma reyna að draga úr ferð hans. En stundum þarf meira til, það gengur ekki að ætla sér að taka á rás og fatta í fyrsta skrefinu að það er enginn fær leið í þá átt sem þú vildir fara.

    Ég hef sjálfur staðið mig að því að vaða út, tipla á steinum, tylla tám á eitthvert grjót og í raun vega salt þar sem ég stend með þyngdarpunktinn lagt því frá á góðum stað miðað við staðsetningu fótanna. Undir þessum kringumstæðum er eiginlega aðeins ein leið fær, til baka, sem getur verið einstaklega óheppilegt þegar fiskur hefur tekið og stefnir í allt aðra átt en að landi.

    Eftir vonbrigðin sem brutust fram eftir að ég missti fiskinn á meðan ég bæxlaðist í land til að geta elt hann eftir bakkanum get ég miðlað af visku minni, ekki gleyma því að gera ráð fyrir því að hlaupa.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 53 54 55 56 57 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar